150. löggjafarþing — 119. fundur,  18. júní 2020.

aðgerðir til þess að verja heimilin.

786. mál
[13:17]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá tækifæri til að eiga orðastað við hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra um stöðu heimilanna. Fyrsta spurning mín til hæstv. ráðherra var: Hvernig hyggst ráðherra verja heimili landsmanna ef vísitala neysluverðs hækkar umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans? [Kliður í þingsal.] Fjölmargir spyrja sig þess nú um stundir þegar atvinnuleysi er í áður óþekktum hæðum og mikil óvissa er um atvinnuhorfur á næstu mánuðum og jafnvel árum. Heimilin í landinu þurfa eftir sem áður að standa undir fjárhagslegum skuldbindingum þrátt fyrir að fólk missi vinnuna. Annað er ekki hægt. Margir telja að ein stærsta heimskreppa sögunnar sé rétt að byrja og því þarf ríkisstjórnin og alþingismenn að verja heimilin í landinu til að minnka skaðann. Við viljum ekki að heimilin í landinu þurfi að upplifa aftur að höfuðstóll húsnæðislána þeirra hækki upp úr öllu valdi og sjá á eftir sparifé sínu sem lagt hefur verið til húsnæðiskaupa fuðra upp á einni nóttu. Margir eru hræddir um að höfuðstóll verðtryggðra húsnæðislána hækki eftir því sem líður á árið og ljóst að ef ekkert verður að gert mun svo fara fyrir verðtryggðum lánum.

Í því sambandi er eðlilegt að spyrja hvort við höfum dregið einhvern lærdóm af því sem gerðist eftir efnahagshrunið 2008. Þá má minna á svar hæstv. dómsmálaráðherra við fyrirspurn hv. þm. Ólafs Ísleifssonar um nauðungarsölur og gjaldþrotaskipti, 233. mál á 148. löggjafarþingi. Þar kom fram að á undanförnum tíu árum hefðu 9.195 fasteignir einstaklinga verið seldar nauðungarsölu eða vegna greiðsluaðlögunar á tíu árum eftir hrun. Án efa, herra forseti, hafa fleiri fjölskyldur misst heimili sín eftir öðrum leiðum sem ekki liggja fyrir neinar opinberar tölur um hér. Það er því þekkt reynsla af geigvænlegum afleiðingum fyrir heimilin og enn í dag sitja margar fjölskyldur í greipum ofurhárrar leigu eftir hafa hrakist úr eigin húsnæði.

Í því sambandi má einnig spyrja hæstv. ráðherra hvort hann taki undir með seðlabankastjóra um að verðtryggingin sé á undanhaldi af því að fólk greiði atkvæði með fótunum og taki óverðtryggð lán og hvort hæstv. ráðherra telji að verðtryggingin hverfi af almennum lánamarkaði vegna húsnæðislána eins og ráða má af orðum seðlabankastjóra.

Aðrar spurningar mínar voru: Hefur ríkisstjórnin áform um að verja heimilin fyrir auknum byrðum af þessum völdum? Telur ráðherra ekki sanngjarnt og eðlilegt í ljósi reynslunnar að stjórnvöld grípi til aðgerða til að koma í veg fyrir að höfuðstóll verðtryggðra húsnæðislána og afborganir af þeim hækki umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans? Og ég vil minna á það að á síðustu 12 mánuðum hefur verðbólga mælst 2,6% en verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5% þannig að það er kannski innan skekkjumarka en við erum í þessari hættu, atvinnuleysi er enn mjög mikið (Forseti hringir.) og þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra.