Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 119. fundur,  7. júní 2023.

framboð háskólanáms fyrir fatlað fólk.

1110. mál
[12:11]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er mikilvægt að ræða þetta hér reglulega og að þingið veiti aðhald í þessu sem öðru. Það var auðvitað ein af aðgerðunum í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar að auka menntunartækifæri fyrir fatlað fólk. Síðan kemur þessi áskorun frá Þroskahjálp og fleira og ég lagði strax í að skoða hver staðan væri, hvernig við getum boðið fleiri tækifæri til háskólanáms og þá sérstaklega aðgang að auknu starfsréttindanámi. Við skoðuðum líka lögin og við erum auðvitað með sérstakt ákvæði í lögum um háskóla um að háskólar skuli veita fötluðum nemendum og nemendum með tilfinningalega eða félagslega örðugleika sérstakan stuðning í námi. Tilefni þessa ákvæðis voru ábendingar frá Háskóla Íslands og Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu um að það væri þörf á lagaákvæði.

Síðan hefur kannski staðan verið sú að hún hefur aðeins staðið í stað varðandi hverjir og hve margir hafa verið í námi við Háskóla Íslands. Samt sem áður, svo ég taki það líka fram, þá eru gríðarlega margir nemendur í Háskóla Íslands sem njóta sérúrræða í námi sem kemur af þeim stuðningi sem Háskóli Íslands veitir við almennt nám. Þar hafa verið um 1.000 lengi en nú eru yfir 1.600 sem nýta slík úrræði innan háskólans og ákveðinn stuðning við hinar ýmsu námsleiðir. Þar eru ýmsar ástæður, það getur verið líkamleg fötlun, sértækir námsörðugleikar, athyglisbrestur, ofvirkni eða önnur veikindi. Sá stuðningur hefur bara verið að aukast og fleiri nemendur sótt í þann stuðning.

Varðandi þá sem eru í starfstengdu námi fyrir fólk með þroskahömlun sem hefur verið boðið upp á í Háskóla Íslands frá árinu 2007 þá voru t.d. árið 2018 15 nemendur, talan hefur farið upp í 25 en þeir eru nú 22. Ég taldi þetta vera ónægt, bæði að námsframboðið væri ekki nægjanlegt en líka að við þyrftum að tryggja, eins og hefur komið fram, aukið framboð m.a. í listnámi en ekki síst líka fyrir fatlað fólk utan af landi. Því höfum við gert samning og veitt stuðning Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri og Listaháskóla Íslands sem eru að taka höndum saman og vinna að þróun, uppbyggingu og svo samvinnu milli háskólanna um aukið inngildandi nám á háskólastigi. Í samningi um verkefni sem ég undirritaði nýlega er kveðið á um 16,5 millj. kr. fjárstuðning til ráðningar verkefnastjóra sem er byrjaður að leiða þetta verkefni. Sá verkefnastjóri hefur starfsskyldur gagnvart öllum háskólunum og tryggir samstarf og aðkomu allra skólanna að verkefninu.

Verkefnið hefur það hlutverk að Háskóli Íslands er að reyna að fjölga tækifærunum, fjölga leiðunum, skoða hvernig háskólinn getur fjölgað tækifærum fatlaðra hjá sér en líka hvernig hann getur miðlað sinni þekkingu til annarra skóla þannig að Háskóli Íslands er inni í þessu verkefni og samningi að bæði stuðla að frekari þróun innan síns skóla og að námið nái inn á fleiri fræðasvið, sem ég tel gríðarlega mikilvægt, en líka að miðla þekkingunni til hinna skólanna af því að Háskólinn á Akureyri ætlar með þessu að taka upp sambærilegt nám, og Listaháskóli Íslands er að skoða möguleikann á að bjóða einnig upp á slíkt nám og mögulega í samstarfi við hina skólana tvo. Háskólarnir þrír eru á mismunandi stað hvað varðar námið en með samvinnu held ég að það sé unnt að styrkja stoðir námsins, auka gæði þess, fjölbreytileika, aðgengi að því og tryggja einfaldlega að fleira fólk með þroskahömlun eigi kost á háskólanámi hér á landi.

Virðulegur forseti. Ég er mjög stolt af því að háskólarnir hafi tekið sig saman við að stuðla að fjölbreyttara námi fyrir fatlað fólk og auknu aðgengi þess hóps að háskólanámi. Að mínu mati er mjög mikilvægt að auka aðgengi þess hóps að slíku námi, fjölga þeim lyklum sem þau hafa að samfélaginu okkar, bæði ef við lítum til landsbyggðarinnar og þess að auka fjölbreytni í því námi sem nú þegar er í boði. Samstarf háskólanna er ákveðið lykilatriði í þessu og ég hlakka til að fylgja þessu verkefni eftir sem er nú þegar komið til framkvæmda og sjá hvort við getum ekki með því gert miklu betur en nú er gert.