154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[16:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Ásmundur Friðriksson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina. Það kemur fram í nefndarálitinu að núgildandi gjöld eru ekki í samræmi við kostnað vegna vinnu við eftirlit og afgreiðslu leyfisumsókna hjá Orkustofnun og við erum að bregðast við því. Í álitinu segir: „Meiri hlutinn tekur þó undir þá ábendingu flestra umsagnaraðila að mikilvægt sé að huga að því að innheimt þjónustugjöld endurspegli veitta þjónustu.“ Um það snýst þetta mál. Það er ekki einhver áætlun um tekjur, það fer eftir umfangi, fer eftir því hve margir koma og biðja um þjónustu, hverjar tekjurnar verða væntanlega. Þær hljóta að vera mjög mismunandi eftir árstíðum og hvað mikið er í gangi. En það er væntanlega og vonandi mjög mikið fram undan hjá Orkustofnun og ég fagna því bara innilega að þau þjónustugjöld sem við erum að tala um hér muni endurspegla kostnaðinn og að þjónustan muni lagast og þá munum við og allir geta sætt sig við það.