154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[16:23]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni fyrir hans svar og ég er innilega sammála honum um að auðvitað verðum við að tryggja að þetta endurspegli nákvæmlega það sem er að baki og að Orkustofnun geti þar af leiðandi sinnt sínum verkefnum vel og séð til þess að farið sé að öllum lögum og reglum. Það hringir samt alltaf einhverjum viðvörunarbjöllum þegar er verið að setja svona þjónustugjöld á vegna þess að oft vill verða að þjónustugjöldin festist. Ég veit ekki hvernig ég á að orða það, en hvernig er hægt að fylgjast með því nákvæmlega að þau endurspegli þá þjónustu sem er veitt og að allt sé rétt útreiknað?