154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[18:19]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Forseti. Já, sú sviðsmynd hefði átt að liggja fyrir. Bara: Þetta er það sem það mun kosta. Og hvernig það mun virka ef við komum til móts við alla. En það eru einnig hliðaráhrif sem þarf að huga að, sem var kannski andlagið í ræðu minni áðan, þ.e. eins og hv. þingmaður segir, kostnaður sem lendir á fólki við það að byggja þarna aukalínu og þess háttar. Þetta er rétt en einnig ekki alveg nákvæmt af því að framkvæmdir sem þessar hafa ákveðin áhrif sem slíkar einmitt inni í hagkerfinu. Það býr í rauninni líka til aukin verðmæti og aukið öryggi, sem er verðmætt. Dreifingin á því innan hagkerfisins jafnar sig þegar allt kemur til alls og þá þurfum við aftur að pæla í: Hvar lendir tímabundni kostnaðurinn á meðan sú jöfnun er að ganga yfir? Við þurfum alltaf að vera að spyrja okkur: Hvar eru sársaukamörkin hvað varðar ráðstöfunartekjur hjá fólki og að fólk geti haft ofan í sig og á? Eða að við getum svarað spurningunni: Hefur fólk bara ofan í sig og á, ekki bara sumir, ekki bara flestir, heldur allir? Þá ættum við að geta kvittað auðveldlega upp á hvaða breytingar sem er þegar allt kemur til alls. Við sjáum t.d. að áður en hraunið rann yfir og gerði allt heitavatnslaust þarna fyrir nokkru síðan þá voru til sviðsmyndir um að það gæti gerst. Og til að bregðast við því þá þurfti að leggja út í ákveðinn kostnað sem ríkisstjórnin ákvað að gera ekki. Við fengum ekki aðgang að þeim sviðsmyndum í rauninni fyrr en eftir á en þær hefðu átt að vera hluti af þeim sviðsmyndum sem við vorum að vinna með til að taka ákvarðanir um aðgerðir. Þetta er vandinn sem við erum oft að glíma við.