154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[18:22]
Horfa

Elín Íris Fanndal (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Í andsvari mínu langar mig að beina sjónum mínum að fjárlagahallanum. Undanfarin ár höfum við séð umtalsverðan halla á fjárlögum ríkisins sem vekur áhyggjur margra landsmanna. Ríkisstjórnin virðist ekki telja raunhæft að loka fjárlagagatinu fyrr en árið 2029 miðað við framlagða fjármálaáætlun. Fjárlagahallinn leiðir til þess að ríkið þarf að taka lán og því hækkar vaxtakostnaður ríkisins ár frá ári. Í raun má rekja þetta viðvarandi fjárlagagat til þess þegar endurskoða þurfti fjármálastefnu strax vorið 2019 vegna loðnubrests og falls WOW air. Svo kom Covid-faraldurinn og ríkið þurfti að grípa til ýmissa kostnaðarsamra aðgerða og berjast gegn faraldrinum og efnahagslegum áhrifum hans.

Í ljósi þess alls þessa langar mig að spyrja nokkurra spurninga: Hverjar telur hv. þingmaður að séu helstu orsakir þessa viðvarandi halla á fjárlögum? Er um kerfislægan vanda að ræða eða afleiðingu tímabundinna aðstæðna og ákvarðana? Eru einhver brýn verkefni sem sitja á hakanum að mati hv. þingmanns sökum fjárskorts?