154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[18:47]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við erum fimm sinnum ríkari en 1973. Ég heyrði þessa tölu hjá einhverjum spekingi í umræðunni, hann sagði það, ég hef ekki skoðað þetta nákvæmlega. Þá var það sem samfélag, heildartalan, og þá er það mannfjöldaþróunin líka, ætli við höfum ekki verið svona 200.000. (Gripið fram í.) 180.000 manns 1973. Nú erum við hátt í 400.000 manns. Vestmannaeyjar voru hlutfallslega miklu stærri eining, stærri hluti af hagkerfinu en Grindavík er í dag þannig að sá munur skiptir máli. Það er vissulega rétt að það var meira þannig að það væri ein fyrirvinna 1973 en núna þurfa að vera tvær fyrirvinnur. En það er auðveldara að kaupa hlutina. Ég man að foreldrar mínir töluðu um að þau hefðu keypt einhverja þvottavél eða eitthvað á afborgunum, það var stór hluti af mánaðarlaununum eða jafnvel tvenn mánaðarlaun eða eitthvað svoleiðis. Núna er það miklu léttara, kaupmátturinn er miklu meiri.

Ég held að það sem er hérna undir er að það þarf náttúrlega að setja á skatt eins og var gert í fyrsta frumvarpinu. Það þarf að dreifa byrðunum á allt samfélagið, þaðan komi reikningurinn, að fólk borgi það með einhvers konar tekjuskatti, kannski ekki virðisaukaskatti. Það var lagður á virðisaukaskattur til að bregðast við kostnaðinum vegna Heimaeyjargossins 1973. Það er alveg rétt sem kom fram í máli hv. þm. Kristrúnar Frostadóttur að það hafði áhrif á verðbólguna, að sjálfsögðu. Það hækkaði verðbólguna. Við þurfum að haga skattlagningunni þannig að hún hafi ekki áhrif á verðbólguna. Skattlagning getur náð niður verðbólgu, hún tekur pening út úr hagkerfinu. Það er bara spurningin um hvers konar skattlagningu. Það er það sem er undir hérna. Annaðhvort tökum við lán og borgum þetta þannig, aukinn peningur í hagkerfið. Við getum notað pening sem hefur komið í ríkiskassann, sem við erum að gera, eða þá skattlagt, tekið peninga frá skattborgurum (Forseti hringir.) og sett til baka til Grindavíkur, fært frá skattborgurunum til Grindavíkur. Það er það sem mun alltaf á endanum gerast, (Forseti hringir.) þannig mun það gerast.

(Forseti (ÁsF): Ég minni þingmanninn á ræðutímann.)