154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[23:40]
Horfa

Tómas A. Tómasson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar góðu spurningu. Það er rétt hjá henni að þetta leyfisferli er margslungið og margar stofnanir koma þar að. Ég velti því stundum fyrir mér hvort þessu sé ofaukið. Ég get ekki sagt það með fullri vissu hvar töfin er en mig grunar að sennilega sé það eitthvað vegna þess hve mörg leyfin eru. Ég vil aðeins líkja þessu saman við að sækja um að byggja og reka veitingahús í Reykjavík. Ég þekki það svolítið vel. Það er endalaust sem maður þarf að tala við Pétur og Pál til að fá leyfi og menn þurfa að koma endalaust og viðra skoðanir sínar. Ég þekki t.d. til í Þýskalandi. Þar er það þannig að það er bara einn aðili sem sér um að veita nýjum rekstraraðilum upplýsingar og beinir þeim á alla þá staði sem þarf að fara á til að fá endanlega leyfið. Hérna er ekki þetta samráð, þú þarft bara að klóra þig áfram út úr þessu sjálfur, hvernig sem þú fer að því. Og svo rekst maður á alls konar agnúa í kerfinu og þá þarf maður oft að byrja upp á nýtt. Þetta gengur ekki. Það verður að koma meiri skilvirkni á þetta.