154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[23:45]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða afar stórt og umfangsmikið mál, frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar. Þetta er svolítið langt nafn og maður getur kannski ekki lagt heitið á frumvarpinu á minnið, en til þess að byrja að tala aðeins efnislega um þetta frumvarp lýsi ég yfir stuðningi hvað varðar þetta frumvarp vegna sjónarmiða sem hafa komið fram af hálfu margra hv. þingmanna sem hafa stigið hingað upp í pontu á undan mér. Afleiðingar þessara þjónustugjalda gætu m.a. verið að það gæti liðkað fyrir leyfisveitingaferli. Það gæti auðveldað Orkustofnun að framkvæma það mat sem þarf að framkvæma við útgáfu leyfa sem hún sér um, sem er m.a. virkjunarleyfi, af því að eins og hefur komið fram í ræðum hv. þingmanna sem hingað hafa komið upp á undan mér þá skortir Orkustofnun fjármagn og þar af leiðandi mannafl sem er rosa brýnt þegar kemur að útgáfu slíkra leyfa eins og hér um ræðir.

Til að nefna nýlegt dæmi, sem hefur vissulega verið nefnt áður en ég ætla aðeins að fara efnislega dýpra út í dæmið, var virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar ógilt í fyrra. Málsmeðferð þess virkjunarleyfis tók 18 mánuði, útgáfa leyfisins tók 18 mánuði. Það endaði vissulega í ógildingu virkjunarleyfisins, í máli nr. 3/2023, máli úrskurðarnefndar umhverfismála, en það er ekki nóg með það, forseti, að það endaði í ógildingu virkjunarleyfis heldur var það á grundvelli 3. mgr. 28. gr. laga um stjórn vatnamála. Með þessum úrskurði var teygð túlkun virkjunarleyfis sem er sett með stoð í 4.–6. gr. raforkulaga, minnir mig. Virkjunarleyfið og raforkulögin voru túlkuð þannig að það tengdist 3. mgr. 28. gr. laga um stjórn vatnamála sem varðar — ég held ég sé að fara rétt með þetta. 3. mgr. 28. gr. laga um stjórn vatnamála mælir fyrir um að allar opinberar áætlanir á vegum stjórnvalda, m.a. opinberar stefnur um orkumál, þurfi að samræmast vatnaáætlun. Virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar var ógilt, aðallega á grundvelli þess að Hvammsvirkjun og virkjunarleyfið sem var gefið út samræmdist ekki kröfum sem vatnaáætlun setti með stoð í lögum um stjórn vatnamála, sem er náttúrlega innleiðing á vatnatilskipun Evrópusambandsins, sem ég held að þeir þingmenn sem eru hér inni í sal, eru mögulega niðri í þingflokksherbergi og þeir sem heima sitja og hlusta átti sig á við reifun þessa máls.

Það liggur alveg skýrt fyrir að lagaumhverfi virkjana er ofboðslega flókið. Það er flókið mál. Það reynir á samspil margra mismunandi laga. Áður en ég fer nánar út í þetta þá reynir á raforkulög, bara í leyfisveitingaferlinu, virðulegi forseti. Nú er ég bara að tala um þau lög sem reynir á í leyfisveitingaferli mannvirkja sem hafa komist í nýtingarflokk skv. 4. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun. Það reynir á raforkulögin þegar kemur að útgáfu virkjunarleyfis. Það reynir á lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana varðandi umhverfismatið. Um útgáfu framkvæmdaleyfis reynir á skipulagslögin, 13. og 14. gr. skipulagslaga, ef ég man rétt. Síðan reynir á lög um stjórn vatnamála þegar kemur að vatnsaflsvirkjunum af því að auðvitað — ég meina, við erum búin að skuldbinda okkur til að hindra frekari rýrnun vatnsgæða, sem ég mun fara nánar út í á eftir, virðulegi forseti. Síðan reynir líka á lög um náttúruvernd og það hefur reynt á lög um náttúruvernd í sambandi við raforkuöryggi meira að segja, þar sem það kom til álita hvort raforkuöryggi teldist uppfylla áskilnað 3. mgr. 63. gr. laga um náttúruvernd og hvort virkjunin sem um ræddi uppfyllti þær kröfur til að fullnægja þessari brýnu nauðsyn. Það reynir líka á lög um mannvirki. Síðan reynir líka á lög um menningarminjar. Það reynir líka á lög um lax- og silungsveiði af því að Fiskistofa þarf líka að veita álit.

Bara svona til að draga aðeins saman, af því að ég sé að ég er ekki með það mikinn tíma eftir, þá reynir á samspil rosalega margra mismunandi lagabálka sem eru margir hverjir innleiðing á Evróputilskipunum þannig að við erum enn þá aðeins að móta og feta okkur áfram hvernig við túlkum þessi lög og lagaákvæðin um það sem ég vil kalla — ég vil kalla undirbúnings- og leyfisveitingaferli orkumannvirkja ytri þætti raforkuframleiðslu. Mér finnst það vera rosalega gott hugtak sem nær yfir raforkuframleiðslu, þetta eru bara svona ytri þættirnir áður en það er byrjað að framleiða raforkuna. Ég velti því fyrir mér hvort það sé — talandi um samspil þessara mismunandi laga sem koma til álita og að þetta sé innleiðing á ýmsum lögum. Reyndar eru lög um náttúruvernd ekki innleiðing á einhverjum sérstökum lagabálki heldur var setning þessara laga árið 2013 svona meira varnagli — eða ekki varnagli, meira bara svona íslensk stjórnvöld að sjá til þess að við værum að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar þegar kemur að náttúruvernd með því að setja á fót ákvæði sem samræmast ýmsum alþjóðlegum samningum sem við erum aðilar að, eins og t.d. Bernar-samningurinn. Ég ætla svo sem ekki að fara nánar út í það, virðulegi forseti. Þarna velti ég því fyrir mér hvort það sé framkvæmd laganna og túlkun þessara laga sem er líka að flækja fyrir leyfisveitingaferlinu og valda þessari töf sem á sér stað í því ferli. Við erum að túlka innleidd lög og því velti ég fyrir mér hvers vegna við erum ekki að horfa aðeins meira til þess hvernig Evrópusambandið túlkar þessi lög sem við erum að líta til. Til dæmis hefur verið ágreiningur uppi um hvernig eigi að túlka tiltekin ákvæði laga um stjórn vatnamála. Nú væri frekar sniðugt að líta til túlkunar Evrópudómstólsins þegar reynir á vatnatilskipunina, og vatnsaflsvirkjanir sér í lagi í tengslum við vatnatilskipunina.

Umhverfisstofnun tilkynnti í desember síðastliðnum, mig minnir að þetta hafi verið tilkynning þann 18. desember, að hún hygðist heimila breytingu vatnshlots á grundvelli 18. gr. laga um stjórn vatnamála sem samsvarar 4. tölulið 7. gr. vatnatilskipunarinnar sem mælir fyrir um tiltekin skilyrði sem þurfa að vera til staðar þannig að heimilt sé að raska þessum vatnsgæðum sem lög um stjórn vatnamála mæla fyrir um, af því að það sem lög um stjórn vatnamála gera er að flokka vatnshlot niður í þessi vatnshlot og svo útfærir ráðherra flokkun gæðaþáttanna sem meta vatnsgæði nánar í reglugerð. Það fer náttúrlega eftir hverju og einu landi hvernig þau ákveða að útfæra þetta, enda þurfa tilskipanir Evrópusambandsins ekki að vera innleiddar orðrétt, bara eins lengi og megintilgangur tilskipunarinnar er innleiddur í lög, sem lög um stjórn vatnamála hafa að einhverju leyti gert. En það má náttúrlega líka deila um það hvort það hafi verið innleitt rétt.

Ég hlakka reyndar til að sjá hvernig það fer þegar Umhverfisstofnun beitir 18. gr. laga um stjórn vatnamála í framkvæmd hvað varðar Hvammsvirkjun, svona aðeins til að víkja aftur að Hvammsvirkjun og þessum ósamræmdu leyfum sem eiga sér stað. Nú eru mörg, mörg mismunandi leyfi sem virkjanir yfir 10 MW þurfa að fá. Til að byrja með þurfa virkjanir yfir 10 MW skv. 1. viðauka laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana að sæta umhverfismati. Það er algerlega ófrávíkjanlegt. Þetta umhverfismat tekur auðvitað tíma. Í kjölfar umhverfismatsins tekur við annað leyfi eða annað mat, það fer allt eftir þeim leyfum sem þarf að gefa út hvers er krafist. Það sem gerðist í máli Hvammsvirkjunar var að virkjunarleyfi Hvammsvirkjunar uppfyllti ekki kröfur laga um stjórn vatnamála og samræmdist ekki vatnaáætlun, sem ég tel bara mjög skiljanlegt og því var það ógilt á grundvelli 3. mgr. 28. gr. laga um stjórn vatnamála. Hins vegar leiddi sú ógilding til þess að jarðvegur og grundvöllur skapaðist fyrir ógildingu framkvæmdaleyfis Hvammsvirkjunar í máli nr. 74/2023, þar sem úrskurðarnefndin — nú er ég ekki að fara með orðrétt mál, virðulegi forseti — taldi að forsendur framkvæmdaleyfis Hvammsvirkjunar væru ekki eins eftir að virkjunarleyfið var fellt úr gildi og þar af leiðandi var framkvæmdaleyfi fellt úr gildi. En í máli nr. 74/2023, þar sem framkvæmdaleyfi Hvammsvirkjunar var ógilt, reyndi líka á hvort áskilnaður og kröfur 3. mgr. 63. gr. náttúruverndarlaga væru uppfylltar en úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála tók ekki afstöðu til þess þar sem það var eiginlega bara tekist á um framkvæmdaleyfið sjálft. Þar var líka vísað í 13. gr. skipulagslaga og það var lagagreinin sem úrskurðarnefndin vísaði helst til og mig minnir að framkvæmdaleyfið hafi verið ógilt á grundvelli þess.

Þessi aðferðafræði og þessi aðskildu kerfi — við erum með rammaáætlun, síðan erum við með alls konar leyfisveitingaferli. Eins og ég kom inn á í andsvörum við hv. þm. Jóhann Pál Jóhannsson áðan sáum við þetta í máli Suðurnesjalínu 2 þar sem eitthvert tiltekið leyfi er kært á tilteknu stigi, frekar byrjunarstigi í leyfisveitingaferlinu, sem leiðir til þess að öll hin leyfin eru ógilt, eða það þarf að byrja á leyfisveitingaferlinu upp á nýtt. Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að samræma þessi kerfi. Þetta hef ég heyrt frá helstu sérfræðingum landsins þegar kemur að umhverfisrétti og þegar kemur að orkurétti, íslenskum orkurétti.

Síðan held ég að það mætti einblína líka á umhverfisvænni lausnir, á lausnir á orkuskorti og lausnir á framboðsskorti á raforku sem krefjast ekki frekari röskunar á umhverfi og náttúru, út af því að ef það er litið til laganna — og nú ætla ég ekki að fara í löngu máli út í rannsókn meistararitgerðarinnar minnar, sem var þriggja mánaða rannsókn, á þeim sex mínútum sem ég á eftir — en samkvæmt lögum, ef maður horfir á greinargerð og túlkun og dómaframkvæmd Evrópudómstólsins sem og túlkun úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hér á Íslandi þá eru mörk á því hvað náttúran þarf að gjalda mikið fyrir raforkuþörf almennings. Við höfum sett lög um náttúruvernd, og lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana hafa það að markmiði að vernda náttúruna, vernda gæði umhverfisins. Lög um stjórn vatnamála hafa það að markmiði að hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta — ég meina, öll þessi lög hafa sín markmið. Þegar lög vernda eitthvert tiltekið andlag eru því veitt réttindi líka og samkvæmt þessari rannsókn eru mörk á því hvað náttúran og umhverfið þurfa að víkja mikið fyrir raforkuþörf almennings og niðurstaðan varð sú að það þarf eitthvað verulegt að koma til til þess að réttlæta slík frávik frá þeim kröfum eða frá þeim lögfestu markmiðum sem eru sett um umhverfis- og náttúruvernd. Það er t.d. ef ríki þarf að uppfylla ákveðin markmið sem eru lögfest, sem við erum ekki með, ég mun fara út í það aðeins síðar. Það er ef ríki þarf að uppfylla einhver tiltekin markmið þegar kemur að því að framleiða eitthvert tiltekið magn af orku út frá endurnýjanlegum orkugjöfum eða þarf að nota eitthvert tiltekið magn af orku frá endurnýjanlegum orkugjöfum, eins og t.d. er tekið fram í 1. gr. tilskipunar um endurnýjanlega orkugjafa, RED-tilskipunarinnar.

Ef útlit er fyrir og stjórnvöld geta rökstutt með sannanlegum hætti með skýrum gögnum að ef það er ekki ráðist í einhverja tiltekna framkvæmd þá mun það bitna á raforkuöryggi almennings í landinu. Það mun bitna á því að raforkuöryggi almennings er stefnt í þannig hættu að það mun hafa íþyngjandi áhrif á almenning, heimili og mikilvæga innviði í landinu. Akkúrat núna hef ég ekki séð neitt sem bendir til þess, ég hef ekki séð nein haldbær gögn sem benda til þess að við séum að stefna í ástand þar sem það er ekki hægt að hita hús eða stefnum í ástand þar sem það er ekki hægt að halda mikilvægum þjóðfélagsinnviðum gangandi.

Ég held að við ættum aðeins að fara að líta til þess hvernig Evrópudómstóllinn túlkar slíkan áskilnað og slíkar kröfur. Ég veit að þið eruð kannski að velta fyrir ykkur hvers vegna við séum að líta til túlkunar Evrópudómstólsins þegar kemur að þessum lögum en þannig er mál með vexti, og ég mun kannski koma að því í seinni ræðu minni í kvöld, að við erum bundin samkvæmt þjóðarétti af EES-samningnum. Með aðild okkar að EES-samningnum urðum við bundin — ég þarf ekkert að fara út í 3. gr. EES-samningsins en við erum bundin af því að túlka lög eins mikið í samræmi við EES-rétt og hægt er. EES-réttur byggist á samræmdri túlkun EES-réttar og Evrópuréttar þannig að þarna myndast einhvers konar hringur.

Virðulegi forseti. Ég náði að rökstyðja miklu betur í ritgerðinni minni en ég er smá búin að gleyma hvernig ég náði að koma þessu í skiljanlega mynd en við erum bundin EES-rétti. Íslenskur réttur er bundinn EES-rétti. EES-réttur er bundinn Evrópurétti og þar af leiðandi er íslenskur réttur bundinn Evrópurétti. Í 6. gr. EES-samningsins er tekið fram að dómar Evrópudómstólsins í málum þar sem dómstóllinn kvað upp dóm fyrir gildistöku EES-samningsins árið 1994 hafa lögbundið fordæmisgildi hér á landi. Þetta hefur bara haldið gildi sínu í áranna rás. Við sáum þetta t.d. í ákvörðun og tilkynningu Umhverfisstofnunar 18. desember síðastliðinn þar sem hún tilkynnti að hún hygðist beita 18. gr. laga um stjórn vatnamála og heimila breytingu vatnshlots þannig að Hvammsvirkjun gæti verið sett á fót og þar af leiðandi yrði leyfið ekki ógilt, virkjunarleyfið ekki ógilt aftur á grundvelli þess að það uppfyllti ekki kröfur vatnaáætlunar en í tilkynningunni, þetta var held ég alveg þó nokkrar blaðsíður, ég man, vísaði Umhverfisstofnun í dóm Evrópudómstólsins um Schwarze Sulm sem er frá 2014 þar sem Evrópudómstóllinn heimilar breytingu vatnshlots á grundvelli 4. töluliðar 7. gr. vatnatilskipunarinnar, sem samsvarar 18. gr. laga um stjórn vatnamála í íslenskum rétti, sem Umhverfisstofnun hyggst beita, á grundvelli þess að endurnýjanleg orka, sem sagt raforka sem er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum, teldist til brýnna almannahagsmuna og uppfyllti þar af leiðandi áskilnað 4. tölulið 7. gr., sbr. 18. gr. laga um stjórn vatnamála, um almannaheill. Það uppfyllti almannaheillaskilyrðin. Þaðan fékk ég bara hugmyndina að meistararitgerðinni minni. Ég hugsaði: Nú ókei, ef Umhverfisstofnun er að vísa í Evrópudómstólinn og ákvörðun hans um beitingu undanþáguákvæðis sem varðar vatnsaflsvirkjanir og hindrun frekari rýrnunar vatnsgæða, þá hlýtur hann að hafa eitthvert lögbundið fordæmisgildi hér á landi, en meira um það í síðari ræðu og ég óska eftir að vera sett aftur á mælendaskrá, virðulegi forseti.