145. löggjafarþing — 119. fundur,  26. maí 2016.

stjórn fiskveiða.

786. mál
[19:40]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar á þeim stutta tíma sem ég hef að henda fram hugmynd sem hefur verið rædd aðeins í atvinnuveganefnd. Hún gengur út á að allir þeir sem eru með aflaheimildir í dag leggi ákveðið hlutfall, segjum bara 15%, í pott sem yrði til leigu fyrir aðila eftir ákveðnum skilyrðum, það væri hægt að svæðisbinda og eftir útgerðarflokkum. Potturinn væri leigður út af hálfu ríkisins, tekjur kæmu inn í hann á móti, en framlag útgerðanna í pottinn sem yrði svo leigður út væri ígildi veiðigjalda.

Þetta er kannski of mikið til þess að melta og svara í stuttu andsvari, en ég vil viðra þetta hér vegna þess að þessi umræða fór fram í atvinnuveganefnd. Ég verð að segja að ég er svolítið skotin í að hugsa þessa hugmynd aðeins lengra og vinna með hana af því að við þurfum að vera svolítið lausnamiðuð og velta upp öllum hlutum í þessu efni. Við vitum að ríkisstjórnin hefur verið að lækka veiðigjöld á stórútgerðina. Það væri alveg hægt að stilla þetta þannig af að ríkið tapaði ekki tekjum vegna þess að það fengi inn á móti fyrir útleigu á þessum aflaheimildum, miklu fleiri hefðu aðgengi að, en það væri samt tryggt að ákveðnir útgerðarflokkar hefðu aðgengi að pottinum og byggðarlög vítt og breitt um landið, en samt sem áður yrði eitthvert lágmarks almennt veiðigjald.