154. löggjafarþing — 119. fundur,  11. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[00:51]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Já, ég er sammála hv. þingmanni um það. Auðvitað veltir maður því fyrir sér hver ástæðan er fyrir því að fjölmargar undirstofnanir og grundvallarstofnanir þessa samfélags eru undirfjármagnaðar trekk í trekk. En það sem við þurfum að hafa í huga þar er að vandamálið er ekki það að peningarnir séu ekki til. Við erum ein ríkasta þjóð í heimi. Við erum rík af auðlindum, og það eru bæði náttúruauðlindir og mannauður. Við höfum fulla burði til að halda úti velmegandi grunnþjónustu. Við getum fyllilega fjármagnað löggæsluna sem þörf er á hér á landi. Við getum fyllilega fjármagnað heilbrigðiskerfið. Þetta snýst allt um forgangsröðun.

Það sem mér hefur þótt skorta í forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar, og svo sem ef farið er lengra aftur, er heiðarleg pólitísk stefnumörkun. Ég óttast að sá dans sem sitjandi ríkisstjórnarflokkar eru að reyna að dansa, kannski ekki síst sá flokkur sem hvað lengst hefur farið með fjármálaráðuneytið, Sjálfstæðisflokkurinn — það er þetta jafnvægi á milli þess að halda því fram að þau séu alltaf reiðubúin að lækka skatta, að það sé það sem þau gera sem er ekki í samræmi við raunveruleikann. En á sama tíma taka þau ekki heiðarlega opinbera afstöðu til þess hvar þau telja rétt að skera niður opinbera og almenna þjónustu og okkar sameiginlegu innviði. (Forseti hringir.) Þá gerist þetta allt einhvern veginn í samræmi við hagsmuni einhverra lobbíista. Og ég held að það sé svolítið það sem gerist. Stefnan er ekki uppi á borðum. Ég held að það sé svolítið vandamálið.