138. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2009.

aðgerðir til að auka hlut kvenna í sveitarstjórnum.

47. mál
[15:01]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu mikilvæga máli. Ég kem hér upp til að fagna því að það sé sett á dagskrá, vegna þess að við þurfum að huga að þessu, enda stutt í sveitarstjórnarkosningar. Ég verð þó að viðurkenna að ég kem úr svolítið annarri átt en flestir þeir sem hér hafa talað á undan og vil, í stað þess að hvetja flokkana til þess að setja einhvers konar girðingar eða kynjakvóta, hvetja okkur öll til að taka höndum saman og hvetja konur jafnt sem karla til þess að taka þátt í stjórnmálum, hvetja okkur öll til þess að senda jákvæð skilaboð um starf stjórnmálamannsins. Ég held að það sem við þurfum við að glíma núna sé ekki bara skortur á konum í stjórnmálum, við þurfum fleiri liðsmenn inn í stjórnmálin. Ég held að starf (Forseti hringir.) bæði þingmanns og stjórnmálamannsins almennt hafi sett niður og það er okkar hér í þessum sal og úti á akrinum að tala það upp. Þannig öðlumst við virðingu og fáum fólk til starfa.