141. löggjafarþing — 12. fundur,  26. sept. 2012.

vernd og orkunýting landsvæða.

89. mál
[17:31]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Pólitískur keimur af málflutningi mínum? Þá skulum við bara taka einstaka virkjunarkosti. Hvernig er hægt að komast að því að virkjanir í neðri hluta Þjórsár eigi ekki að fara í nýtingarflokk? Holta- og Hvammsvirkjun og Urriðafoss? Jú, það er fyrst og fremst út frá hugmyndum um að það geti haft áhrif á gengd laxa í ána. Það liggur fyrir og til þess hefur verið tekið tillit í allri hönnun og öllum undirbúningi virkjananna. Lengra verður ekki gengið í þeim efnum fyrr en ein virkjunin verður virkjuð og reynsla kemur á hvort þetta gengur upp eða ekki. Við munum ekkert komast lengra í því. Um það fjallar þetta.

Hvernig stendur á því að Skatastaðavirkjanir eru ekki í verndarflokki? Ég hef enga haldbæra skýringu á því. Öll rök sem koma fram í rammaáætlun eru þess efnis að hún eigi að fara í verndarflokk. Pólitísku fingraförin eru því um allt í þessu, Bitra í verndarflokk? Svo horfir maður þar niður Þverárdal sem er algjörlega ósnertur, hann er í biðflokki, en Bitra fer í vernd (Forseti hringir.) þar sem möstrin með línunum eru yfir, borholurnar og vegastæðin og allt er til staðar.

Rökstuðningur er enginn, ekki heil brú (Forseti hringir.) í mörgu af því sem hér kemur fram.