145. löggjafarþing — 12. fundur,  24. sept. 2015.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

132. mál
[11:57]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst vera fullmikill uppgjafartónn í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar þegar hann segir að það muni verða viðfangsefni þeirra sem sitja hér eftir tíu ár að takast á við þetta. Ég geri fastlega ráð fyrir því miðað við sögu síðustu 30 ára að hann verði í þeim hópi.

En gamanlaust, herra forseti, þá hlusta ég alltaf á það sem hv. þingmaður hefur til málanna að leggja um allt sem tengist ríkisfjármálum og lífeyrismálum. Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður rifjaði hér upp að hann hefur verið óþreytandi við að benda á að þarna þurfi að koma að verki og laga með tilliti til framtíðarinnar. Það má segja að hv. þingmaður hafi með niðurlagi ræðu sinnar svipt mig tilefni þess að koma hér upp.

Mig langar samt að nota þetta tækifæri til þess að spyrja hv. þingmann: Hvað telur hann að væri hentast og réttast að ráðast nú í af hálfu hins opinbera með tilliti til þess að við höfum náð okkur upp úr afleiðingum bankahrunsins? Það árar vel í íslensku samfélagi. Það er líklegt að ríkissjóður verði í nokkrum færum til að fyrna til framtíðar á næstu árum. Getur hv. þingmaður dregið það upp fyrir mig á tveimur mínútum hvað hann vildi sjá gerast núna?