151. löggjafarþing — 12. fundur,  21. okt. 2020.

um fundarstjórn.

[15:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að vekja athygli á því að við áttum mjög mikilvæga umræðu hér fyrr í vikunni um stjórnskipuleg álitaefni í tengslum við sóttvarnaaðgerðir. Nú er kominn tími til, þegar ein meðganga er liðin frá því að Covid kom upp, að við eigum þetta reglubundna samtal. Ég kem hingað upp til að mæla með því að forseti beiti sér fyrir því að við eigum hér, vegna stjórnskipulegra álitaefna, breiðari umræðu heldur en eingöngu út frá lögmætisspurningu, samtal við heilbrigðisráðherra, samtal við ríkisstjórn, um það hvernig við ætlum að haga því eðlilega samspili sem felst í eftirlitshlutverki þingsins. Við verðum að geta haft tæki og tól til þess og ég held að það væri öllum gott og yrði til stuðnings að við ættum hér þessi orðaskipti við m.a. heilbrigðisráðherra því að upplýsingagjöf og þingeftirlit skiptir mjög miklu máli núna. Sérfræðingar hafa undirstrikað að víðtækt samráð sé mikilvægt á þessu sviði. Við skiljum það vel, ekki síst við a.m.k. í Viðreisn og fleiri í stjórnarandstöðu, að stjórnvöld verða að hafa svigrúm til að bregðast hratt við af því að rík ábyrgð hvílir á stjórnvöldum að bregðast hratt við og verja fólkið okkar fyrir heilbrigðisvánni en á móti kemur að eftir því sem lengra líður (Forseti hringir.) verðum við, virðulegi forseti, að eiga heilbrigt, gegnsætt samtal hér í þinginu til þess að veita hvert öðru stuðning (Forseti hringir.) og við þingmenn verðum að sinna hlutverki okkar sem er eftirlit með stjórnvöldum.