136. löggjafarþing — 12. fundur,  14. okt. 2008.

breytt stjórn fiskveiða í samræmi við úrskurð mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna.

6. mál
[16:55]
Horfa

Kristrún Heimisdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir þessa ábendingu. Hún er einmitt hluti af því sem ég tel vera meinloku í þessari umræðu. Það er sannarlega rétt að niðurstaðan er sú að því er hafnað að borga bætur en það þýðir samt ekki að menn hverfi frá því sem sagt er í skýringu íslenskra laga í niðurstöðunni.

Staðreyndin er sú að mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna býr ekki að jafnfullkomnu réttarkerfi og fyrirmæli um greiðslu bóta eru ekki jafnfullkomin og t.d. hjá Mannréttindadómstól Evrópu, það skýrir ákveðna hluti í málinu. Staðan er sem sagt sú að lögfræðilega séð er álit mannréttindanefndarinnar ekki svo skýrt að hægt sé að líta svo á að það feli í sér bótarétt fyrir alla þá Íslendinga sem mundu sækjast eftir slíkum rétti. Það breytir hins vegar ekki því að í niðurstöðu mannréttindanefndarinnar felst mjög merkilegur nýr skilningur á túlkun íslenskra laga og hugsanlega einnig á stjórnarskrá. Það er mikill árangur og á hann ættuð þið að horfa að mínu mati.