137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:10]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Bhr) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Varðandi tímann mundi ég vissulega kjósa að við værum að fara í þessa vinnu á einhverjum öðrum tímapunkti. Ég mundi vissulega kjósa það. Ég er sammála hv. þingmanni. Á meðan allt er að hrynja hérna og er hrunið og við þurfum að fara í þá vinnu að endurreisa bankakerfið, þá finnst mér það ekki vera góður tímapunktur að vera að fókusera á þetta. Þó að ég sé nú ekki mikið hlynnt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum vil ég fylgja leiðbeiningum þeirra um að stjórnsýslan ætti ekki að fara í sumarfrí. Vegna þess að ef hún fer í sumarfrí þýðir það tveggja mánaða töf á því að lækka stýrivexti. Og ekki megum við við því.

En varðandi spurninguna um hvort ég sé hlynnt því að fara í Evrópusambandið eða ekki, þá er ég svona eins og flestir Íslendingar, einn daginn er ég með því og næsta dag er ég á móti því vegna þess að ég hef ekki nægilega miklar upplýsingar. Þess vegna finnst mér mjög mikilvægt að við förum í annaðhvort aðildarviðræður eða könnunarviðræður.

Ég hafði reyndar lagt þann skilning í það og skildist það þegar ég ræddi við fólk sem er hlynnt því að fara í Evrópusambandið að aðildarviðræður væru ekki miði á það að við ætluðum að fara í bandalagið. Ég hefði verið miklu hlynntari því og fundist það eðlilegra að við færum í könnunarviðræður.