143. löggjafarþing — 12. fundur,  30. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Ég kem hérna upp undir liðnum um störf þingsins til að taka undir með Birgittu Jónsdóttur áðan, ég saknaði ykkar smá. Það er gaman að sjá hópinn þó að það séu kannski ekkert allt of margir hérna í dag. Við vorum í fríi sem helgaðist af því að við vorum í kjördæmaviku. Ég verð að viðurkenna sem þingmaður að eitt það skemmtilegasta sem ég hef upplifað á mínum þingmannsferli var að fara í heimsóknir í sveitarfélögin og heyra hvað brennur á sveitarstjórnarmönnum og fólkinu í kjördæminu. Fyrir það fólk erum við hér.

Það var alveg einstaklega gaman að hlusta á fólk þrátt fyrir að það væri svolítið þungur undirtónn í flestum sveitarstjórnarmönnum því að það er verið að skera allhressilega niður í mörgum verkefnum sem hin ágæta ríkisstjórn sem var áður hafði komið á laggirnar, t.d. sóknaráætlun. Þrátt fyrir að þetta væri lærdómsríkt var sorglegt að hlusta á margt sem sagt var, hvað það var dauft hljóð í fólki sem var búið að vinna að verkefnum síðustu tvö, þrjú árin fullt af bjartsýni og vonum til framtíðarinnar. Það var allt skorið af. Það var virkilega erfitt að hlusta á það, ekki síst fyrir mann í minni hluta sem getur eiginlega ekki gert neitt annað en lofað því að gera sitt besta.

Skaftárhreppur komst til tals áðan, hv. þm. Ásmundur Friðriksson nefndi hann, og það var einstaklega lærdómsríkt að sitja andspænis sveitarstjórnarmönnum í þeim hreppi. Það var ekki barið í borðið og öskrað þrátt fyrir allt sem gengur á í þeim hreppi. Þá vantar þriggja fasa rafmagn og internettengingar fyrir börnin til að koma heim um helgar. Bóndi í Meðallandi sendi Rarik bréf og Rarik sagði: Jú, jú, þú ert á áætlun með þriggja fasa rafmagn, það verður 2030.

Það er náttúrlega virkilega gott.

Þetta er það sem fólk berst við úti í byggðunum. Það eina sem það bað um var: Gefið okkur von.

Háttvirtir þingmenn, gerum það.