154. löggjafarþing — 12. fundur,  10. okt. 2023.

samgönguáætlun fyrir árin 2024–2038 ásamt fimm ára aðgerðaáætlun fyrir árin 2024–2028.

315. mál
[20:56]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég ætlaði að koma örstutt inn á almenningssamgöngurnar. Mér finnst, eins og í höfuðborgarsáttmálanum, vanta svolítið upp á. Það er gert ráð fyrir um 900 milljónum í framlög til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu sem var samkvæmt samningi sem var gerður 2012, það átti að vera milljarður á ári sem hefur síðan ekki verið verðlagsuppbættur. Það eru 900 milljónir núna. Mér finnst ekki nógu góður gaumur gefinn að almenningssamgöngum, meira að segja með tilliti til fólks sem gagnrýnir borgarlínuna og þá á bara að efla Strætó í staðinn. Það er ekki einu sinni gert. Jú, við þurfum að efla Strætó en við þurfum líka borgarlínuverkefnið og ég held að við ættum að einbeita okkur enn meira að aðgengi fyrir annars konar ferðamáta, hjólreiðar og í gangandi og ýmiss konar. Svo að lokum myndi ég vilja leggja til að við förum að huga að næsta hringvegi sem verði hringlestarvegur.