153. löggjafarþing — 120. fundur,  7. júní 2023.

Almennar stjórnmálaumræður.

[21:23]
Horfa

Jódís Skúladóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Kæra þjóð. Ég trúi þolendum. Senn líður að lokum þessa þings sem hefur verið viðburðaríkt og um margt árangursríkt. Mörg mikilvæg mál hafa klárast í vetur og önnur halda áfram í vinnslu og klárast vonandi á næsta þingi. Glögglega má sjá áherslur VG í málum sem byggja á grunnstoðum hreyfingarinnar um umhverfisvernd, kvenfrelsi, alþjóðlega friðarhyggju og félagslegt réttlæti. Staðan á vinnumarkaði hefur verið þung í vetur og orðræðan í samfélaginu hefur ekki verið til þess að dýpka samkennd.

VG hefur í áranna rás barist fyrir mörgum sömu málum og verkalýðshreyfingin. Mörg þau framfaraskref sem tekin hafa verið á undanförnum árum og eiga rætur að rekja til þessara sameiginlegu áherslna eru t.d. réttlátara þrepaskipt skattkerfi, stytting vinnuvikunnar, hærri barnabætur sem nýtast fleirum, lengra fæðingarorlof, hærri húsaleigubætur, minni kostnaðarþátttaka í heilbrigðiskerfinu, og ég má til með að nefna til viðbótar yfirstandandi breytingar á örorkulífeyriskerfinu, yfirstandandi breytingar á atvinnuleyfum útlendinga og yfirstandandi breytingar á þjónustu við eldra fólk.

Umræðan hefur hins vegar líka endurspeglað þrýsting atvinnurekenda í þá veru að gæta hagsmuna fjármagnseigenda og einkamarkaðarins. Kröfur um einkavæðingu hafa orðið hærri með hverju árinu og hafa ekki skilað sér í þeirri innviðauppbyggingu og tryggu almannaþjónustu sem samfélagið um allt land þarf á að halda. Hvort sem litið er til heilbrigðiskerfis, samgöngukerfis, ferðaþjónustu, menningar og lista, sjávarútvegs eða fiskeldis þá er krafa einkageirans hávær. Margar atvinnugreinar mala gull en á sama tíma og ekki síst þegar skórinn kreppir eru kröfur frá sömu atvinnugreinum um opinn krana úr ríkissjóði. Gróðinn er þeirra einkamál, hagnaðurinn kemur engum við en tapið skal varið af ríkissjóði og þar með almenningi.

Ágangur og ásælni erlends stórkapítals á náttúru landsins, móðurbrjóst íslenskrar þjóðar, hefur sjaldan verið meiri. Á altari arðsemiskröfunnar skal miklu fórnað. Orkunýting, fiskeldi, stóriðja, rafmyntagröftur o.fl. verður að vera stundað í sátt við þjóðina, samfélagið og náttúruna því að það eru svo ekki hinir almennu launamenn sem njóta góðs af innkomunni eða arði af nýtingu okkar sameiginlegu auðlinda.

Með aukinni miðstýringu, sameiningu stofnana og annarra innviða er hætta á að þjónusta við almenning verði verri ef ekki er vandað til verka. Mikilvægt er að gæta að samfélagssáttmálanum og því að samfélagið sjálft sé alltaf í forgrunni, almannaþjónustan og velferð okkar allra. Arðsemiskrafa og einkavæðing, þótt dulbúin sé sem hagræðing, má aldrei skyggja á þann megintilgang. Almenningssamgöngur, póst- og bankaþjónusta, verslun og hluti heilbrigðis- og velferðarþjónustu eru einungis brot af þeim málaflokkum sem almenningur hefur horft upp á kulna á útbrunnu báli hagræðingar og/eða einkavæðingar.

Algengi örorku hér á landi er ívið meira en á Norðurlöndunum. Er það sökum þess að við sem samfélag séum með óraunhæfar væntingar og kröfur til okkar sjálfra? Í samfélagi sem er drifið áfram af kröfu um hraða og arðsemi eru einfaldlega kjöraðstæður til að byggja undir streitu sem svo margir upplifa í nútímanum með tilheyrandi afleiðingum, svo sem kulnun, kvíða og uppgjöf.

Í nútímasamfélagi skiptir miklu máli að samfélagsumræðan einkennist af opinni og lýðræðislegri umræðu. Við þurfum stöðugt að nota gagnrýna hugsun og megum ekki freistast til þess að taka þátt í vaxandi skautun í stjórnmála og samfélagsumræðu. Það leiðir óumdeilanlega til harðari átaka í stað þess að byggja upp samfélag sem stendur saman. VG hefur alltaf og mun áfram leggja áherslu á samráð og samtal.

Virðulegi forseti. Nú þegar þetta kjörtímabil er hálfnað eru næg verkefni fram undan þó að róðurinn sé þungur í skugga verðbólgu og vaxtahækkana. Við látum ekki bilbug á okkur finna. Mikilvægar aðgerðir voru kynntar á dögunum þar sem ríkisstjórnin ver velferðina. Aðgerðirnar endurspegla trú á íslenskt hagkerfi og stjórn opinberra fjármála. Áhersla er á að koma til móts við þá hópa sem verðbólgan bitnar helst á, m.a. leigjendur og barnafjölskyldur, auk örorku- og ellilífeyrisþega.

Ráðherrar VG hafa bæði á síðasta og yfirstandandi kjörtímabili sýnt þor og festu og komið mikilvægum málum í höfn og margt mikilvægt er í farvatninu. Við sem sitjum hér á þingi erum langflest í stjórnmálum málefnanna vegna og með samtali þokumst við þannig í átt að réttlátara og sanngjarnara samfélagi. — Gleðilegt sumar.