154. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[14:50]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að fara að ræða hér frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar, þjónustugjöld. Bara þetta eina orð, þjónustugjöld, ætti að hringja einhverjum viðvörunarbjöllum af því að við erum mjög gjörn á að setja alls konar þjónustugjöld á sem eru misgæfuleg. Í þessu tilfelli held ég að það sé hið besta mál eða eins og segir, með leyfi forseta, í nefndaráliti um þetta mál:

„Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum með það að markmiði að tryggja heimildir Orkustofnunar til að innheimta gjöld í samræmi við kostnað af leyfisveitingum og eftirliti. Núgildandi gjöld eru ekki í samræmi við kostnað vegna vinnu við eftirlit og afgreiðslu leyfisumsókna hjá Orkustofnun.“

Þetta segir okkur að það er löngu komin þörf á breytingar; að sjá til þess að skilgreina nákvæmlega hver kostnaðurinn er og að þeir sem eru að vinna við það að meta þetta fái kostnaðinn greiddan fyrir þá vinnu, eins og segir svo í álitinu, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn telur málið mikilvægt skref í þá átt að veita stjórnvöldum aukið tækifæri til að bæta þjónustu“ — sem er auðvitað bara besta mál — „og tryggja að tímafrestir standist. Umsagnir um málið voru að mestu jákvæðar. Meiri hlutinn tekur þó undir þá ábendingu flestra umsagnaraðila að mikilvægt sé að huga að því að innheimt þjónustugjöld endurspegli veitta þjónustu. Beinir meiri hlutinn því til ráðuneytisins að tryggja að svo verði.“

Þetta er mjög góð ábending. Það segir sig sjálft, eins og ég sagði áðan, að það þarf að ganga þannig frá að þetta endurspegli þá þann kostnað út frá þeirri þjónustu sem um er að ræða.

Ég verð bara að segja að ég þakka fyrir að fá þetta tækifæri til að ræða frumvarp þetta sem varðar þjónustugjöld Orkustofnunar. Orkustofnun gegnir mjög mikilvægu hlutverki í að annast eftirlit og leyfisveitingar á sviði orkumála á Íslandi. Það er bæði tímafrekt og kostnaðarsamt verkefni að afgreiða leyfisumsóknir og veita eftirlit með auðlindanýtingu. Þetta er mjög umfangsmikið verkefni með marga anga sem þarf að horfa til og það fer mikill tími og kostnaður í að skilgreina og gefa út þessi leyfi.

Það sem þetta frumvarp gerir í meginatriðum er að veita Orkustofnun heimild til að innheimta gjöld til að standa undir þeim kostnaði sem hlýst af vinnu vegna leyfisumsókna, þ.e. útgáfu leyfa og eftirlits sem er eins og kom fram bæði tímafrekt og kostnaðarsamt. Það er rökrétt og sanngjarnt að þeir aðilar sem sækja um leyfi og njóta eftirlits greiði fyrir þjónustuna í stað þess að allir skattgreiðendur beri þann kostnað. Þannig fylgir það meginreglunni um að notandi borgi fyrir efnislega framkvæmd. Þetta er auðvitað sjálfsagt mál og ætti eiginlega ekki að þurfa að vera til umræðu, en það er eins gott að ítreka það.

Hins vegar er mjög mikilvægt að tryggt verði að gjaldtakan sé sanngjörn og gagnsæ. Þess vegna er í frumvarpinu kveðið á um að gjaldið megi ekki vera hærra en nemur kostnaði við þjónustuna og að gjöldin skuli ákveðin í gjaldskrá sem ráðherra staðfestir. Það er mjög mikilvægt vegna þess að það verður að tryggja að þetta sé gagnsætt, sanngjarnt og endurspegli nákvæmlega það sem þessi gjöld eiga að dekka. Gjöldin eiga að taka mið af raunkostnaði og vera byggð á rekstraráætlun þar sem kostnaðarliðir eru rökstuddir og sundurliðaðir. Þetta eru mikilvægar forvarnir sem eiga að tryggja að gjaldtakan sé málefnaleg og þar af leiðandi fari ekki á milli mála að það sé í opnu ferli þannig að allir geti séð hvað liggur að baki þeim kostnaði og gjöldum sem þarna er verið að innheimta.

Að sama skapi er lykilatriði að Orkustofnun nýti þessar auknu tekjur til að efla og bæta þjónustu sína. Það segir sig sjálft og á að vera sjálfsagt mál að við eigum að efla Orkustofnun þannig að hún geti gegnt sínu hlutverki vel. Stofnunin þarf að geta afgreitt mál hratt og vel og veitt nauðsynlega leiðsögn og sinnt öflugu eftirliti. Það væri óásættanlegt ef þessar viðbótartekjur rynnu aðeins í ríkissjóð án þess að skila sér í bættri þjónustu. Við þekkjum að það hefur oft skeð að svona gjöld enda í ríkissjóði og síðan eru þessar stofnanir fjársveltar. Það auðvitað gengur ekki upp vegna þess að stofnunin verður að fá þá fjármuni sem eru eyrnamerktir henni til þess að geta unnið sín mál rétt og á sanngjarnan hátt.

Á heildina litið tel ég því þetta frumvarp skref í rétta átt. Það tryggir Orkustofnun nauðsynlegt fjármagn til að sinna lögbundnu hlutverki sínu án þess að þyngja um of byrðar á herðum skattgreiðenda, enda á það ekkert að vera í verkahring skattgreiðenda að borga þessi mál. En um leið er hætta á að þessi gjaldtaka geti orðið óhófleg eða ógagnsæ ef ekki er rétt staðið að málum. Það hefur oft komið upp sú staða að svona gjaldtaka verði óhófleg og renni í ríkissjóð og skili sér ekki til þeirrar stofnunar sem við á. Við þekkjum það að við t.d. höfum innheimt alls konar gjöld af bifreiðum, veggjöld, bensíngjöld, en einhverra hluta vegna skilar sér það ekki í vegaframkvæmdir eða til öryggis á vegum. Þannig að vítin eru til að varast og við verðum að sjá til þess bæði gagnvart veggjöldum og öllum svona gjöldum að þau skili sér í það sem þau hafa verið eyrnamerkt. Því miður er það alltaf hættan þegar þau eru látin renna beint í ríkiskassann að þau skili sér ekki þangað sem þau eiga að fara og fari þar af leiðandi bara í hítina. Síðan verða allir hissa þegar viðkomandi stofnun er fjársvelt og jafnvel þarf að draga úr mannafla og getur ekki sinnt verkefni sínu. Eins og ég segi þá sjáum við það skýrt á vegakerfi landsins, hvernig hefur verið farið með það, vegna þess að þar hafa verið innheimt gjöld en þau skila sér ekki í öryggið, í það sem þarf til að tryggja að vegir séu þannig að af þeim stafi ekki hætta. Því miður, það verður bara að segjast alveg eins er, er langt frá því að það sé svo en vonandi að gjöldin fari nú að skila sér á réttan stað.

Ég vil hvetja Alþingi til að samþykkja þetta frumvarp sem hér er til umræðu og jafnframt að huga vel að framkvæmd þess í reglugerð, það skiptir miklu máli. Tryggja þarf sanngjarna og gagnsæja gjaldtöku og að tekjur skili sér í bættri almannaþjónustu. Þannig geta þessi þjónustugjöld orðið skynsamleg leið til að fjármagna mikilvæga starfsemi Orkustofnunar og stuðlað að skilvirkni í stjórnsýslu á sviði orkumála á Íslandi — og ekki veitir af. Orkumálin hjá okkur eru því miður komin á þannig stað að það er eiginlega með ólíkindum, hvort við eigum að kalla eitthvað orkuskort eða hvort við erum að ofnota orku í óþarfa og þar af leiðandi, eins og umræðan var hér um orkuskort heimila, þurfi að tryggja það að heimilin, sem nota bara 5% af allri orku, hafi öryggi. En því miður erum við líka búin að sjá til þess að þar eru milliliðir sem éta upp að óþörfu, fá þar greitt að óþörfu, sem hefur engan tilgang. Eins og einhver sagði ætti maður bara að fá sér tölvu og gerast milliliður í sölu orku og þá myndu fjármunir tikka í kassann.

Hér hefur verið rætt um tafir á afgreiðslu virkjunarleyfa og mig langar að velta upp þeirri spurningu hvers vegna það tekur langan tíma að afgreiða virkjunarleyfi. Það hlýtur að vera svolítið skondið að við skulum vera í þeirri stöðu að taka svona langan tíma í að afgreiða virkjanir. Við verðum að horfa til þess fjórflokks sem hefur verið við völd undanfarin ár og hefur alltaf hert og hert reglurnar og lögin og einhvern veginn tekist að búa til það mikið skrifræði að það er eiginlega vonlaust að virkja nokkrar sprænur á landinu án þess að það lendi í endalausum kærum. Ég veit ekki, vistvæn — á sama tíma og við heimtum að við ökum um á vistvænum bílum, á rafmagni, þá getum við ekki líka heimtað að það sé ekkert virkjað. Við verðum að finna einhvern milliveg og gera t.d. eins og Færeyingarnir gera. Þeir eru með vindmyllur og síðan hafa þeir þurft að brenna ótrúlega mikið af olíu til þess að framleiða rafmagn en þeir eru búnir að finna upp það að vera með risarafhlöðustöðvar, margar rafhlöður til að hlaða niður þegar vel gengur, vegna þess að sveiflurnar eru svo miklar. Síðan hafa þeir útbúið tölvukerfi sem deilir því þannig út að jafnvægi næst og það verða ekki þessar sveiflur á markaðnum hjá þeim. Þeir eru líka með lausnir og eru núna að finna lausnir í sambandi við sjávarfallavirkjanir sem við ættum að fylgjast mjög vel með og gætu hentað okkur líka.

Ef við veltum upp þeirri spurningu hvers vegna það tekur langan tíma að afgreiða virkjunarleyfi er í fyrsta lagi um að ræða mjög umfangsmikil og flókin verkefni sem krefjast ítarlegrar skoðunar og mats á mörgum þáttum. Áður en leyfi er veitt þarf að fara fram mat á umhverfisáhrifum, skoða þarf áhrif á náttúru og landslag, samfélag, atvinnulíf. Einnig þarf að huga að vatnsréttindum, eignarrétti og öðrum lagalegum þáttum. Flækjustigin eru alveg ótrúlega mikil og gera það að verkum að þetta tekur ótrúlegan tíma og ég held hreinlega að við höfum sofið á verðinum.

Í öðru lagi skortir Orkustofnun oft fjármagn og mannafla til að vinna hratt og skilvirkt. Eins og kom fram áðan er einmitt markmiðið með frumvarpinu að bæta úr því með heimild til gjaldtöku en hingað til hefur stofnunin þurft að kljást við ónóga fjármögnun sem hefur hægt á afgreiðslu mála, sem er gjörsamlega óþolandi og spurning hvort það sé ekki viljandi gert að hálfsvelta stofnanir svo þær geti ekki unnið sína vinnu. Þá getum við ekki síðan verið að afsaka okkur eða verið með einhverjar eftiráskýringar og ekkert skilið í því af hverju það vantar raforku.

Í þriðja lagi geta deilur og ágreiningsmál tafið ferlið verulega. Oft eru uppi ólík sjónarmið um virkjanir, bæði meðal hagsmunaaðila og í samfélaginu almennt. Ef málsaðilar leggja fram andmæli eða kæru getur það sett afgreiðslu í uppnám og valdið löngum töfum, eins og ég kom að áðan. Þetta er vandmeðfarið og þarna takast á hagsmunir samfélagsins, hagsmunir ákveðinna aðila og hagsmunir náttúrunnar. Þarna þurfum við að finna hinn gullna meðalveg; taka tillit til náttúrunnar, framkvæma það sem hefur minnst áhrif á náttúruna en passa okkur líka á því að geta framleitt rafmagn sem er svo notað til að minnka mengun í öðrum iðnaði. Ég vil nefna sem dæmi, sem ætti að gleðja okkur, að það var í fréttunum að nýbúið væri að tengja eitt risaskip við rafmagn við Sundahöfn og það var ekki nein smáolía sem sparaðist bara á þeim einum eða tveimur sólarhringum sem viðkomandi skip var í höfn. Við getum ímyndað okkur þá mengun sem við erum að sleppa við þar og þetta bara sýnir svart á hvítu hvað það getur skilað ótrúlega miklu ef við höfum það rafmagn sem við þurfum á að halda til að koma í veg fyrir svona mengun.

Í fjórða lagi má nefna að stundum eru leyfisumsóknirnar ófullnægjandi í upphafi og þarfnast frekari gagna eða úrbóta af hálfu umsækjenda. Það getur tekið tíma fyrir umsækjendur að bregðast við athugasemdum, skila inn fullnægjandi gögnum, sem tefur ferlið. Oft eru leyfisumsóknirnar ófullnægjandi vegna þess að flækjustigið getur verið rosalega mikið og í sjálfu sér spurning hvort það sé hægt að einfalda flækjustigið án þess að það bitni á því að málið sé skoðað og að náttúran njóti síns vafa.

Að lokum er rétt að hafa í huga að hraðari afgreiðslur eru eitt markmiðið. Gæði ákvarðana og vandað mat á öllum áhrifaþáttum skiptir líka máli. Stundum er skynsamlegra að taka sér góðan tíma til að skoða málin frá öllum hliðum þó að vissulega megi alltaf stefna að aukinni skilvirkni. Í þessu tilfelli er oft gott að taka sér skynsamlegan tíma en við verðum líka að passa að þessi skynsamlegi tími verði ekki að endalausri töf út af einhverjum smámunum sem einfalt væri að taka á. Í stuttu máli er afgreiðsla virkjunarleyfa tímafrek vegna umfangs verkefnisins, eins og áður hefur komið fram, flækjustigs, fjárskorts og tafa vegna ákveðinna ófullnægjandi umsókna. En með auknu fjármagni á grundvelli þessa frumvarps ætti Orkustofnun geta flýtt ferlinu án þess að fórna gæðum eða vandvirkni. Það er sem sagt það sem er stefnt að með þessu frumvarpi. Það ætti auðvitað að skila sér en sporin hræða vegna þess að við höfum oft komið hingað upp í ræðustól Alþingis og verið að samþykkja lög sem við höldum að séu til bóta en hafa síðan reynst gera alveg þveröfugt, af því að oft viljum við flýta afgreiðslu mála og koma þeim í gegn og þá getur okkur yfirsést ýmsir hlutir. Þess vegna er mjög gott að taka góða og gagnlega umræðu um svona mál og sjá til þess að þau séu ítarlega skoðuð þannig að það sé a.m.k. lágmarkshætta á því að mistök verði.

Ísland er í einstakri stöðu þegar kemur að raforkuframleiðslu þar sem nánast öll rafmagnsframleiðsla kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum, aðallega vatnsafli og jarðvarma. Það þýðir að Ísland er ekki háð innflutningi á jarðefnaeldsneyti til raforkuframleiðslu eins og mörg önnur lönd. Jú, þetta er kannski að mörgu leyti rétt en svo verðum við auðvitað að setja spurningarmerki við það að við erum í þeirri stöðu að vera með rafmagnsskort og þá aðallega vegna þess að landskerfið, hringtenging raforku um landið, hefur ekki verið í lagi. Þarna hefur verið talað um allt frá 15–30% tap á raforku sem væri annars til staðar og hefur valdið því að það þarf að brenna ótrúlegu magni af olíu við framleiðslu hjá bæði síldar-, kolmunna- og loðnuverksmiðjum sem hafa með tilheyrandi mengun valdið hærri kostnaði og óþarfamengun, vegna þess að við höfum ekki staðið okkur í því að koma dreifikerfinu í þann farveg sem það ætti að vera í.

Það segir auðvitað margt um kerfið að við skulum vera í þeirri stöðu og það sýnir sig líka í því hversu illa við stóðum okkur í eldgosinu á Reykjanesi þegar rafmagnið fór og hitaveitan vegna eldgossins í Svartsengi, sem olli því að það varð heitavatnslaust. Þá þurfti að rafkynda en það var bara ekkert rafmagn til vegna þess að það vantaði línuna sem átti að vera löngu komin. Þar af leiðandi var rafmagnið svo naumt skammtað að það dugði eiginlega ekki nema fyrir einhverju lágmarki, einum hitablásara í hverju herbergi.

Ég sé að ég er runninn út á tíma þannig að ég bið virðulegan forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.