150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:59]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni prýðisgóða ræðu, kannski fyrst og fremst af því að hann var staddur á mínum heimaslóðum á Siglufirði. Ég heyrði hv. þingmann tala um og lesa upp úr áskorun þar sem var verið að ræða um m.a. vegarspotta frá Ketilási í Fljótum og langar að spyrja hv. þingmann út í þessa áskorun og það hvernig við sem Alþingi getum brugðist við henni. Hugsunin hjá okkur, þeim okkar sem viljum ekki tefja fyrir samgönguframkvæmdum, hefur verið sú að þær tvær samgönguáætlanir sem hér eru undir þurfi að komast sem fyrst í gagnið svo að Vegagerðin geti hafið sinn undirbúning, sína samninga, byrjað á því sem þarf að undirbúa svo hægt sé að byrja sem fyrst að framkvæma. Síðan séum við með samninginn um opinbera hlutafélagið og við skulum vonandi leggja það aðeins til hliðar því þegar er búið að ræða það töluvert. En ég nefni það aðeins sem hluta af þessari stóru heild sem lýtur að samgöngum fyrir tvo þriðju íbúa landsins, þ.e. höfuðborgarsvæðið, þar sem öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafa tekið þátt í því. Síðan erum við með samvinnuverkefni. Þar eru tiltekin sérstök verkefni. Þetta er allt saman ein heild.

Síðan vinnum við í framtíðarfjármögnun vegakerfisins, þegar við verðum búin að ná því markmiði að olíugjaldið sé horfið af því að jarðefnaeldsneytið sé horfið o.s.frv. Hluti af því er svo jarðgangaáætlun og til að komast í hana þurfum við að stíga þau skref að samþykkja þau mál sem hér liggja fyrir. Og mig langar að spyrja hv. þingmann hvers vegna hann er á móti því að stíga þau skref, hvers vegna hann vill tefja fyrir því að við komumst í að vinna að jarðgangaáætlun sem ætlað er að koma og kynna jafnvel strax í haust.