140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:06]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Þegar ég kom í salinn í morgun stóð hæstv. velferðarráðherra í pontu og sakaði stjórnarandstæðinga um málþóf í þessu mikilvæga máli en við erum að ræða hér um húsnæðismál og það fyrirkomulag sem við ætlum að viðhafa á þeim markaði til framtíðar. Ég er nú í minni fyrstu ræðu um þetta grundvallarmál og það er ólíðandi að þurfa að sitja undir því að hér sé stundað málþóf þegar við ræðum um stöðu íbúðareigenda hér á landi og hvernig við viljum haga þeim málum.

Það olli mér miklum vonbrigðum að heyra hv. þm. Sjálfstæðisflokksins, Pétur H. Blöndal, enda sitt síðara andsvar áðan með þeim orðum að það ætti að leggja Íbúðalánasjóð niður eða gera hann að einhverri pínulítilli stofnun. Ég vona að hv. þingmaður sé ekki að endurspegla stefnu Sjálfstæðisflokksins þegar kemur að þessum málum vegna þess að Íbúðalánasjóður hefur gegnt gríðarlega mikilvægu hlutverki á íbúðamarkaðnum. Við þekkjum það að ýmis öfl í samfélaginu, sérstaklega til hægri, hafa haft horn í síðu þessarar stofnunar og talið að bankarnir ættu að sinna þessu hlutverki en ekki opinber stofnun. Í því liggur grundvallarmunurinn í hugmyndafræðinni. Við framsóknarmenn höfum staðið vörð um Íbúðalánasjóð eftir að hann var settur á fót árið 1999. Þessi stofnun hefur sinnt fjölmörgum aðilum. Við höfum talið það meðal grundvallarmannréttinda að fólk ætti að geta fjárfest í húsnæði á viðunandi kjörum. Íbúðalánasjóður er ekki rekinn í hagnaðarsjónarmiði heldur á það að skila sér í kjörum til fólks að engin arðsemiskrafa er gerð til starfsemi sjóðsins.

Við erum að ræða um Íbúðalánasjóð sem er hvorki óskabarn hægri manna né Samfylkingarinnar. Við getum rifjað það upp að áður en Íbúðalánasjóður leysti gömlu Húsnæðisstofnunina af hólmi hélt hv. þáverandi þingmaður Jóhanna Sigurðardóttir ræðu í tíu klukkustundir um þá breytingu. Það er ræðumet í þingsögunni. Það er merkilegt að heyra samfylkingarmann og hæstv. ráðherra ræða hér um málþóf þegar kemur að þessu mikilvæga máli. (Gripið fram í.)

Í ágætu nefndaráliti lýsir hv. þm. Eygló Harðardóttur, þingmaður Framsóknarflokksins í hv. velferðarnefnd, þeim sjónarmiðum að hún hvetji til þess að almenn lög verði sett um alla þá sem veita lán til fasteignakaupa í stað þess að einblínt verði á að setja sjóðnum strangari skilyrði líkt og gerðist í aðdraganda bankahrunsins. Við munum hvernig það var þá. Þá fóru bankarnir þrír, stóru útrásarbankarnir, inn á markaðinn og veittu 100% lán með niðurgreiddum vöxtum. Það var engin umgjörð um þá þjónustu sem bankarnir veittu. Ég hefði talið eðlilegt að setja í reglur að samhliða því sem bankastofnun lánaði einstaklingum eða heimilum til húsnæðiskaupa þyrfti hún að sýna fram á fjármögnun til lengri tíma litið til að standa undir þeirri starfsemi. Um leið og stóru bankarnir lánuðu til 40 ára var fjármögnun þeirra kannski til eins eða tveggja ára. Slíkt gengur náttúrlega ekki upp.

Nú erum við að horfa upp á þá þróun líkt og gerðist í aðdraganda hrunsins að í miklum mæli er farið að greiða upp lán hjá Íbúðalánasjóði. Bankarnir eru sem sagt farnir að veita óverðtryggð lán. Þá komum við að spurningunni: Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin hefur ekki stutt eins vel við Íbúðalánasjóð og Landsbankann sem ríkið á, að mig minnir, að 85% leyti? Í ríkisbankanum Landsbankanum er fólki gefinn kostur á að fara hina svokölluðu 110%-leið en slíkt er ekki leyfilegt hjá Íbúðalánasjóði. Við höfum séð að ríkisstjórnin hefur ekki nýtt fjölmörg tækifæri sem hún hefur haft til að greiða úr skuldavanda heimilanna rétt eins og í kjölfar hrunsins þegar ríkið hefði í ljósi þess að það hafði eignarhald á bönkunum getað komið til móts við skuldug heimili og fært meðal annars lánasöfn bankanna inn í Íbúðalánasjóð með tilteknum afslætti og látið þann afslátt renna til heimilanna. Það hefði ekki kostað ríkissjóð tugi milljarða króna heldur hefði sá reikningur lent á kröfuhöfunum. Ef við setjum hrunið í samhengi held ég að gjaldþrotið hafi numið um 12 þús. milljörðum kr. Þegar menn ræða um það eins og að stórkostlegu hlutfalli af 30 milljörðum hafi verið varið til Íbúðalánasjóðs sem hefur haft meiri hluta af öllum húsnæðislánum landsmanna gefur það gefa augaleið að heilt bankahrun og stökkbreytt húsnæðislán hljóta að hafa áhrif á starfsemi sjóðsins.

Þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal ræðir hér um að Íbúðalánasjóður eigi ekki að veita hátekjufólki lán, eða eigum við að færa okkur niður í millitekjufólk, að Íbúðalánasjóður eigi að vera eins konar félagsleg stofnun, velti ég fyrir mér hvort hv. þingmaður vilji að bankarnir fleyti rjómann, taki bestu kúnnana sem eru með bestu launin, en svo skuli ríkið og hinn ríkisrekni Íbúðalánasjóður sjá um afganginn. Þá eru væntanlega meiri afföll hjá þeim aðilum sem hafa lægri tekjur og eru fjárhagslega veikari fyrir og ég spyr: Er það virkilega sú hugmyndafræði sem við viljum byggja upp í kjölfar hrunsins?

Nei, frú forseti, við framsóknarmenn viljum reka Íbúðalánasjóð á þeim grunni sem verið hefur, að hann sé ekki rekinn í ábataskyni. Þannig getum við stuðlað að því að íslenskir húsnæðiskaupendur fái lán á eins hagstæðum kjörum og mögulegt er hverju sinni. Það er grundvallarmál að okkar viti að fólk geti fjármagnað húsnæði sitt á viðráðanlegum kjörum. Eins og við vitum er vaxtastigið hér á landi mjög hátt og það veitir ekkert af því að koma til móts við heimilin.

Það kerfi sem var fyrir tilkomu Íbúðalánasjóðs sem þáverandi ráðherra Framsóknarflokksins, Páll Pétursson, setti á fót var Húsnæðisstofnun. Þar voru boðin húsbréf með miklum afföllum, 20–30% afföllum, sem var mikil skerðing á kjörum þeirra sem skiptu við þá stofnun og að auki hafði viðgengist um margra ára skeið að ríkið niðurgreiddi vexti sérstaklega. Þegar Húsnæðisstofnunin var gerð upp kom í ljós halli upp á tugi milljarða króna. Sem betur fer snerum við frá þeirri gjaldþrotastefnu sem hæstv. þáverandi ráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hafði mótað og settum á fót stofnun sem ekki var rekin með ágóðasjónarmið að leiðarljósi, heldur það sjónarmið að veita fólki þá þjónustu og þau kjör sem hagstæðust eru hverju sinni. Skattborgararnir fengu þannig ágóðann af forminu og um leið lögðum við til að þá yrði komið til móts við heimilin í formi vaxtabóta.

Þetta er sú hugmyndafræði sem við framsóknarmenn höfum talað fyrir í húsnæðismálum. Það má kannski minna á að í aðdraganda hrunsins þegar bankarnir voru hvað stærstir og á sem mestri ferð var gríðarlegur þrýstingur á þáverandi ríkisstjórn að einkavæða Íbúðalánasjóð. Við framsóknarmenn stóðum vörð um stofnunina þá, eins og við gerum nú, enda voru lánveitingar Íbúðalánasjóðs með tilteknu hámarki. Það var ekki hægt eins og hjá bönkunum að endurfjármagna einbýlishús uppi í Breiðholti þótt það væri lítil sem engin skuld á því og fólk keypti sér húsbíla, utanlandsferðir og fleira sem olli gríðarlegri þenslu eins og við þekkjum.

Við munum líka að góðærið fór ekki um allt land. Íbúðalánasjóður var nær enginn gerandi á þeim loftbólumarkaði sem myndaðist sérstaklega á suðvesturhorni landsins á tímabili vegna þess að stóru bankarnir þrír sem síðar hrundu buðu þá ofsafengin lán með niðurgreiddum vöxtum. Hins vegar studdi Íbúðalánasjóður við þau byggðarlög sem áttu undir högg að sækja þá. Sum eiga það reyndar enn. Stóru bankarnir þrír kærðu sig ekkert um að lána á norðausturhorni landsins, Vestfjörðum og suðausturhorni landsins. Íbúðalánasjóður tók sig til í samstarfi við smærri sparisjóði á landinu og lánaði til íbúðakaupa á þessum svæðum. Þá var ekki í tísku hjá stóru bönkunum þremur að lána til íbúðakaupa þar en Íbúðalánasjóður sinnti þeirri grundvallarhugmyndafræði að veita öllum tækifæri til að eignast þak yfir höfuðið.

Þess vegna er varhugavert, eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir bendir á í nefndaráliti sínu, að ríkisstjórnin skuli einblína á að skerða og takmarka heimildir Íbúðalánasjóðs á markaðnum og láta bankakerfið algjörlega óátalið. Er það virkilega viðeigandi að við skulum ekki búa við almenna löggjöf er snýr að stórfelldri lánveitingu til heimilanna þar sem aðilar veita jafnvel lán til 40 ára en fjármagna á hinn bóginn ekki þær lánveitingar nema til eins eða tveggja ára í senn með tilheyrandi afleiðingum jafnvel fyrir heimilin? Það kom líka í ljós í hruninu að pottur var brotinn í starfsemi bankanna. Við framsóknarmenn höfum sem sagt talað fyrir því að við eigum að standa vörð um Íbúðalánasjóð.

Ég hef heyrt á undangengnum árum að ýmsir hafa horn í síðu þessarar mikilvægu stofnunar, m.a. ýmsir innan Samfylkingarinnar sem hafa ekki enn fyrirgefið það að Húsnæðisstofnun hafi verið lögð niður á sínum tíma. Svo eru ýmsir aðilar yst til hægri í íslenskum stjórnmálum, frjálshyggjumenn, sem vilja einfaldlega að markaðurinn ráði alfarið, bankakerfið yfirtaki markaðinn. Ég held að hrunið hafi kennt okkur að það er ekki alslæmt að ríkið sé til í einhverri mynd á húsnæðismarkaði. Við skulum forðast öfgar til hægri eða vinstri þegar kemur að mótun húsnæðisstefnu. Um leið og við styrkjum tilvist Íbúðalánasjóðs er brýnt að við grípum til annarra aðgerða á húsnæðismarkaði.

Hugsið ykkur að í dag er það þannig að ef menn vilja skipta um viðskiptabanka þurfa þeir að greiða ríkinu sérstakan skatt í formi stimpilgjalda. Það er ekki til þess að auka samkeppni á fjármálamarkaði að ríkið skuli leggja kostnað á menn sem vilja færa sig til annars viðskiptabanka sem býður hagstæðari vexti. Um leið og við hvettum til þess og hættum þessari skattheimtu gætum við gert fólki auðveldara og hagstæðara að skipta um viðskiptabanka og þar með auka samkeppni á þessum markaði.

Ég á ekki eftir nema mínútu af ræðutíma mínum. Ég hefði viljað fara mun ítarlegar yfir þetta mál sem snertir grundvallarhagsmuni heimilanna í landinu, ekki síst á landsbyggðinni. Við skulum forðast að hverfa aftur fyrir hrun og einblína á það að bankarnir séu lausn heimilanna í landinu þegar kemur að fjármögnun íbúðarhúsnæðis. Grundvallarhugsjón mín er sú að stjórnvöldum beri skylda til að auðvelda fólki að eignast þak yfir höfuðið. Þar hefur Íbúðalánasjóður ríkum skyldum að gegna. Meðan ég er í stjórnmálum mun ég stuðla að því að Íbúðalánasjóður geti áfram veitt þessa þjónustu öllum til hagsbóta.