140. löggjafarþing — 121. fundur,  14. júní 2012.

húsnæðismál.

734. mál
[12:21]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir alveg ágæta ræðu. Hann kom mjög víða við og fjallaði um allt sem snerti þetta mál verulega þannig að nú er úr vöndu að ráða. Ég er ekki sammála honum í mörgum atriðum. Það er sennilega þess vegna, frú forseti, sem við erum hvor í sínum stjórnmálaflokknum, við erum ekki sammála að þessu leyti. Það er töluverður munur á Sjálfstæðisflokki og Framsókn.

Ég tala yfirleitt fyrir sjálfan mig á Alþingi og fylgi eigin sannfæringu. Það er mín sannfæring að það eigi að leggja Íbúðalánasjóð niður eða minnka hann niður í það að vera eitthvað pínulítið, en hv. þingmaður sagði að hann ætti ekki að starfa af hagnaðarsjónarmiði. Það er rétt, hann hefur ekki gert það, hann hefur meira stjórnast af tapssjónarmiði því að hann hefur þurft gífurlegan styrk frá ríkinu og mun þurfa áfram.

Hv. þingmaður sagði að hann hefði ekki tekið upp 110%-leiðina. Hluti af þessum 33 milljörðum var einmitt til að greiða fyrir það að Íbúðalánasjóður tók upp 110%-leiðina en hann hefur ekki tekið upp lyklaleið Landsbankans. Það er það sem hefur dálítið verið gagnrýnt. Ég er reyndar mjög efins um þessa lyklaleið þannig að ég get ekki verið sammála henni.

Hv. þingmaður sagði að bestu kúnnarnir færu til bankanna en ekki Íbúðalánasjóðs. Ég spyr: Er það ekki þannig í dag? Taka þeir sem hafa bestu tekjurnar og annað slíkt ekki óverðtryggð lán hjá bönkunum í dag?

Svo styð ég það að hafa frekar almenn lög um lánsviðskipti, en snýr ekki einmitt athugasemdin að því að Íbúðalánasjóður á að starfa á samkeppnisgrunni, að hann á að vera venjulegur banki?