150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:50]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að grípa boltann á lofti þar sem við hv. þm. Birgir Þórarinsson skildum við og auðvitað er það svo, eins og ég lagði reyndar áherslu á í minni síðustu ræðu, að stjórnvöld eiga að styðjast við ráð kunnáttumanna, sérfræðinga, styðjast við ráð bestu manna. Í þeim málum sem við erum að fjalla um er áberandi að það eru mikilvæg verkefni sem áform eru uppi um, þ.e. mikilvæg í þeim skilningi að þau eru dýr, ekki í þeim skilningi að þau séu brýn, sem rekast á við álit sérfræðinga.

Ég fjallaði um það í síðustu ræðu minni hvernig prófessor emeritus Jónas Elíasson fjallaði um þá hugmynd að leggja Miklubraut í stokk eða grafa hana niður, sem hann hafnar með öllu. Hann hafnar sömuleiðis hinni svokölluðu borgarlínu. Hann segir hér í grein í Morgunblaðinu 14. maí sl. að borgarlína hafi verið kynnt sem umbætur í almannasamgöngum en aðeins tuttugasti hver maður noti strætókerfið reglulega, það eru þessi 4–5% sem mælingar sýna. Hann segir um þetta, með leyfi forseta:

„Slíkt getur ekki kallast almannasamgöngur heldur samfélagsþjónustu við þá sem ekki eru á eigin bíl.“

Það má svo ræða það í framhaldinu, eins og prófessor emeritus Jónas Elíasson gerir að þessi 95%, 19 af hverjum 20, verða algjörlega út undan í þessum áformum öllum.

Um borgarlínumálið segir hann, með leyfi forseta:

„Borgarlínumálið er hreinn fáránleiki, það byrjaði með því að meirihluta borgarstjórnar langaði í sporvagna, þeir væru svo umhverfisvænir. Í reynd eru þeir stórhættulegir fyrir umhverfið og búið að leggja þá niður yfirleitt.“

Hann rekur hvernig málið þróaðist, menn fundu danska orðið „sporvogn“ og þýddu það yfir á íslensku. Út kom orðið léttlest og menn minnast kannski umræðu um léttlestir sem um tíma settu svip sinn á umræðuna um borgarlínu. Hann segir að þetta hafi byrjað sem sporvagn, farið yfir í það að vera léttlest en síðan rekur hann að erlendur fræðimaður hafi leiðbeint borgarstjórn á þann veg að ekkert vit væri í þessu máli nema farþegafjöldi í strætó margfaldaðist og sporvagnar væru algjörlega úreltir og hér skyldi því vera strætó áfram. Þá erum við komin að því að borgarlína er sama sem strætó. Það sem byrjaði sem sporvagnar færðist yfir í að farið var að tala um léttlestir en nú er farið að tala um strætó.

Hann segir áfram í þessari grein:

„Borgarlína er að auka flutningsgetu í strætókerfi sem keyrir með meira og minna tóma vagna. Það er með ólíkindum að ráðamenn hlusti á svona tillögur. Oftast þegar strætó ber fyrir augu eru færri en fimm í honum. Slíkt er skutlþjónusta, ekki almannasamgöngur. Það sem á að gera er að búa til almennilegt kerfi í kringum þá þjónustu.“

Hann ræðir umhverfishliðina í framhaldinu og er vert að líta á hana á tímum eins og nú eru þegar mikil áhersla er á að hafa umhverfismálin í lagi.

Ég hef ekki tíma í það, herra forseti, svo að ég bið um að verða settur að nýju á mælendaskrá.