150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:22]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Forseti. Ég gat þess í síðustu ræðu minni að ég myndi fjalla um sjónarmið sem hafa komið fram hjá kunnáttumanni, prófessor emeritus Jónasi Elíassyni, um umhverfishliðina á hinni svokölluðu borgarlínu. Hann varpar fram þeirri spurningu hvort strætó sé ekki voða umhverfisvænn, eins og hann kemst að orði, en svar hans er: Nei. Með leyfi forseta segir prófessor Jónas Elíasson um þetta, ég vitna í grein sem birtist í Morgunblaðinu 14. maí sl.:

„Nei. Strætó eyðir um 45 lítrum á hundraðið eins og hann er nú, með stærri vögnum fer talan líklega upp í 60–80. Meðaltalið tíu manns í hverjum vagni (líklega nær sjö í dag) gefur eyðslu upp á um fimm lítra á hundraðið á mann, sama eða heldur meira en góður tvinnbíll. Þar fyrir utan borgar hver maður um 500 kall fyrir að fara með strætó en raunverulegur kostnaður er um 1.500 kr. Leigubíll fyrir tvo kostar um 3.000 kr., eyðsla um fimm lítra á mann.“

Þetta var um umhverfishlið borgarlínunnar. Falleinkunn, herra forseti, að dómi kunnáttumanns. Það er kannski ekki tilviljun að til að mynda þingmenn Sjálfstæðisflokksins skuli ekki láta sjá sig hér í þessari umræðu vegna þess að miðað við þau orð sem féllu í gær af hálfu eins þeirra, hv. 1. þm. Reykv. s., Sigríðar Ásthildar Andersen, er ekki annað að sjá en að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins standi ekki heill og óskiptur að baki þessum tillögum. Í ræðu sinni kallar hún borgarlínu „svokallaða borgarlínu“ og segir hana algerlega óútfært fyrirbæri. Hún segir að miðað við stöðuna núna virðist ekkert vera hönd á festandi hvernig borgarlína sé. Hún segir enn fremur að gert sé ráð fyrir 50 milljörðum í þessa svokölluðu borgarlínu, eins og hún kemst að orði, en látið hjá líða að huga að einföldum vegaframkvæmdum í Reykjavík sem eru hagkvæmar, skila árangri mjög fljótt og eru líka ódýrar. Hún segir enn fremur að ekki verði lengur unað við það að ekki verði farið í framkvæmd mislægra gatnamóta á mótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar og Miklubrautar og Grensásvegar sem kostar brotabrot, segir hún, nokkra milljarða af þeirri fjárhæð sem hugsuð er í borgarlínu, sem er algerlega óútfært fyrirbæri, segir hv. þm. Sigríður Á. Andersen. Hún bætir við, með leyfi forseta:

„Því miður er í þessari samgönguáætlun gert ráð fyrir að helmingur þess fjár sem er ætlað að fara til samgöngumála á höfuðborgarsvæðinu fari í vegaframkvæmdir við stofnbrautir en helmingurinn í fyrirbæri sem menn hafa bara því miður hingað til nánast kosið að hunsa, þ.e. í almenningssamgöngur. “

Hún heldur áfram og segist ekkert vera að tala á móti almenningssamgöngum. Þarna sjá menn að það er ekki að sjá að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins standi heill og óskiptur að baki þessum tillögum.

Þá ætla ég leyfa mér að vitna til mikillar hátignar í Sjálfstæðisflokknum sem er fyrrverandi ráðherra og alþingismaður til margra ára, Björn Bjarnason. Hann vitnar í Trausta Valsson, fyrrverandi prófessor, og hefur eftir honum að línubyggð, byggð í grennd við borgarlínu, byði vissulega upp á nálægð við borgarlínuna en myndi að áliti undirritaðs verða dauð, ljót og leiðinleg. Þessi byggð myndi að auki stinga í stúf við byggðamynstur sveitarfélaganna. Ályktun Björns Bjarnasonar er að einfaldasta og fljótlegasta leiðin til að losa borgarbúa undan þessum hremmingum (Forseti hringir.) Dags B. Eggertssonar og snillinga hans sé að hafna þeim í kosningunum 26. maí. Þetta var hátign í Sjálfstæðisflokknum og menn þekkja náttúrlega afstöðu (Forseti hringir.) fyrrum formanns Sjálfstæðisflokksins, (Forseti hringir.) forsætisráðherra til margra ára og ritstjóra Morgunblaðsins til þessa fyrirbæris, eins og hv. þm. Sigríður Á. Andersen kallar það. (Forseti hringir.) Það er greinilegt að það er ljós skýring á fjarveru Sjálfstæðisflokksins hér. (Forseti hringir.) Þeir standi ekki heilir og óskiptir að baki þessu, herra forseti.