131. löggjafarþing — 122. fundur,  4. maí 2005.

Jarðgöng til Bolungarvíkur.

776. mál
[12:05]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) (F):

Herra forseti. Í ljósi síðustu ræðu hæstv. samgönguráðherra þar sem hann fann sérstaklega að því að þingmenn lýsi áformum um að flytja tillögur á þingi þá vil ég segja að mér fannst hún bæði ómakleg en lýsandi fyrir það sem hæstv. ráðherra telur að þingmenn eigi að gera fyrst og fremst. Ég er ekki sammála honum um hlutverk þingmanna í þeim efnum og tel að það sé hlutverk þeirra og þeir séu til þess kosnir að fylgja fram málum, tala fyrir þeim, bera fram tillögur eða fyrirspurnir eftir atvikum.

Ég hyggst nú bera fram eina fyrirspurn, þó að ég viðurkenni, virðulegi forseti, að ég athugaði ekki hvort hæstv. samgönguráðherra líkaði að fá fyrirspurnina, en látum það einu gilda. Fyrirspurnin er um samgöngubætur til Bolungarvíkur.

Fyrir 25 árum var gerð skýrsla um stöðu mála þar en vegurinn um Óshlíð var mjög frumstæður á þeim tíma, illfær bæði vegna legu vegarins, snjóflóða og grjóthruns. Þá var fenginn norskur sérfræðingur, sem Norem heitir, til þess að leggja mat á mögulega jarðgangagerð eða aðra kosti og niðurstaðan varð sú að leggjast gegn því að þá yrði ráðist í jarðgöng til að bæta úr samgöngum til byggðarlagsins. Ástæðan var einfaldlega sú að menn höfðu ekki tiltrú á þeim framkvæmdum sem jarðgöng eru, tæknin var ekki komin það langt að menn sæju að þetta væri raunhæfur kostur og menn töldu kostnaðinn verða svo miklu meiri en að byggja upp veginn eins og síðar var ákveðið að gera.

Vegurinn sem nú er og byggður var í framhaldi af þeim ákvörðunum sem teknar voru upp úr 1980 hefur að mörgu leyti reynst vel. Hann er fjölfarnasti millibyggðavegur á Vestfjörðum og einn allra fjölfarnasti vegur utan höfuðborgarsvæðisins með um nærri 700 bíla umferð á dag að jafnaði á ári. Hins vegar fylgja þeim vegi enn sömu ókostir og voru í upphafi að það verða snjóflóð á veginum og það er grjóthrun. Nýlega varð vinnuvélareigandi, sem var að störfum á Óshlíðinni, fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að lenda í grjóthruni sem minnir okkur á þá hættu sem er stöðugt fyrir hendi á þessum vegi og menn sjá sem þarna keyra um nánast daglega að grjót liggur á veginum eða hefur fallið niður úr fjallinu og hoppað yfir veginn og skemmt hann. Áminningin er því stöðugt fyrir hendi. Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að núverandi fyrirkomulag sé ekki varanleg lausn heldur verði að ráðast í jarðgöng (Forseti hringir.) og spyr því hæstv. ráðherra þeirrar spurningar sem er að finna á þingskjali 1150 um það efni.