150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:21]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar að þessu sinni að vitna í skýrslu innanríkisráðuneytisins um Sundabraut. Hún er reyndar frá 2015, en er á vef Stjórnarráðsins öllum til lestrar og langar mig að vitna í hana. Þar segir, með leyfi forseta:

„Með lagningu Sundabrautar mun þjóðvegur frá Kvosinni í miðbæ Reykjavíkur upp á Kjalarnes, miðað við að nú sé farið um Sæbraut og Vesturlandsveg, styttast um 7,5–9 km. Því er fyrirséð að bættar vegasamgöngur milli Reykjavíkur og Grafarvogs annars vegar og Reykjavíkur og Kjalarness hins vegar muni hafa ábata í för með sér fyrir höfuðborgarbúa og bæta tengingu við Vestur- og Norðurland. Þá mun Sundabraut draga úr umferð í gegnum Mosfellsbæ og draga þannig úr fjárfestinga- og viðhaldsþörf núverandi Vesturlandsvegar frá gatnamótum Suðurlandsvegar í suðri og að gatnamótum Sundabrautar á Kjalarnesi í norðri.“

Þessi orð eiga algerlega við í dag og ekki hefur umferðin minnkað, svo mikið er víst. Á bls. 37 í sömu skýrslu segir, með leyfi forseta:

„Séu einstaka svæði skoðuð má sjá að brautin hefur mest áhrif á Miklubraut, Vesturlandsveg og í Grafarvogi. Ef niðurstöður umferðarlíkans eru rýndar enn frekar benda niðurstöður þess til að heildarferðatími einstaklinga í bifreiðum á höfuðborgarsvæðinu minnki um 1–1,4% á ári með tilkomu brautarinnar, allt eftir því hvort markmið um breytingu ferðavenja náist að fullu. Þar með er þó ekki öll sagan sögð þar sem brautin hefur mest áhrif á umferðartafir en tími við umferðartafir mun skv. umferðarlíkaninu“ — þá er vitnað hér í líkön frá Línuhönnun — „minnka um 9–10% á ári með tilkomu brautarinnar, á höfuðborgarsvæðinu öllu. Slíkt leiðir af sér aukið ferðatímaöryggi og betri ferðaupplifun. Athugum þó að það á við meðalferðatíma yfir daginn. Tími við umferðartafir á háannatíma mun líklega minnka mun meir en sem nemur 9–10%, eðli málsins samkvæmt.“

Þrátt fyrir lágar umferðartölur á öðrum áfanga Sundabrautar benda niðurstöður skýrslunnar til þess að Sundabraut sé fýsileg framkvæmd og ég held að flestir séu sammála því.

En mig langar í lok ræðu minnar í þetta sinn að minnast á það sem ég var að ræða hér í dag, upplifun af umræðunni sem staðið hefur undanfarið. Mér finnst enn ljósara nú, þegar dagur er kominn að kvöldi, að enn er að bætast við umræður í samfélaginu. Það er greinilegt að fólk tekur eftir því að verkefnið um samgöngusáttmála á höfuðborgarsvæðinu, þar sem borgarlínan er inni, er mikið vandræðabarn. Ræðumenn dagsins hafa farið vel yfir það og fært fyrir því rök og vitnað í skýrslur og greinar og ýmsa aðila sem hafa áhyggjur af málinu og m.a. talað um að málið þyrfti að fara til mikið betri endurskoðunar og m.a. vitnað í að nú er staða ríkissjóðs og einnig borgarsjóðs og annarra sveitarsjóða erfið og ekki hefur hún lagast í þessu Covid-fári. Það er með ólíkindum að þetta sé á döfinni og verð ég að hafa það lokaorð mín að þessu sinni og (Forseti hringir.) óska eftir því að verða settur aftur á mælendaskrá.