136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar.

259. mál
[18:49]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S):

Forseti. Mér láðist að nefna nokkur atriði í fyrri ræðu minni um þetta mál sem ég tel þó skipta miklu. Eins og fram hefur komið erum við að tala um stuðning til lifandi líffæragjafa og það er gott mál og bráðnauðsynlegt eins og fram hefur komið. En ég tel ekki hjá því komist að í tengslum við þessa umræðu sé bent á mikilvægi þess að aukning verði á líffæragjöfum úr látnum einstaklingum.

Eins og fram kom hjá hv. þm. Ástu Möller hefur rannsókn, sem hér var gerð, sýnt að í um það bil 40% tilvika er mögulegri líffæragjöf úr látnum einstaklingi hafnað af aðstandendum. Ég tel að hér sé um að ræða ákveðna vanþekkingu, hræðslu hjá aðstandendum. Það mætti losa aðstandendur undan þeirri kvöð að þurfa að taka slíka ákvörðun með því að kynna úrræðið betur fyrir ungu fólki — staðreyndin er jú sú, og slæmt að þurfa að segja það, að úr ungu fólk sem deyr með voveiflegum hætti er hugsanlega hægt að taka líffæri til gjafar.

Í ljósi þess hve líffæragjafir eru mikið framfaraspor og hve það skiptir marga einstaklinga miklu máli að geta fengið líffæri þegar völ er á þeim hlýtur það að vera brýnt að gera allt sem hægt er til að hvetja alla einstaklinga til að hugsa þetta mál meðan þeir geta tekið afstöðu til þess og gefið yfirlýsingar um að þeir heimili að líffæri séu tekin úr þeim ef þeir látast skyndilega og mögulegt er að nýta úr þeim líffæri.

Ég má líka til með að rifja það upp af því að hér kom fram að þau lög sem allt þetta byggist á — það er eiginlega lagatvenna, það eru lögin um ákvörðun dauða og lögin um brottnám líffæra sem bæði voru sett árið 1991. Þessi lög voru ákaflega mikil framfaralög og svo skemmtilega vill til að sú sem hér stendur var ritari nefndarinnar sem samdi bæði frumvörpin. Mér er það sérstaklega minnisstætt að menn höfðu áhyggjur af því að þegar þessi frumvörp yrðu lögð fyrir virðulegt Alþingi, sérstaklega frumvarpið um ákvörðun dauða, mundu spretta miklar deilur um skilgreininguna á dauðahugtakinu. Eins og hv. þm. Ásta Möller kom inn á fólst veruleg breyting í því sem þar var lagt fram, þ.e. að heimila heiladauðaskilgreininguna sem var algert nýnæmi hér á landi en hafði rutt sér til rúms í nágrannalöndunum.

Það merkilega gerðist að heiladauðaskilgreiningin — sem er líka mjög siðferðilegt mál og hafði valdið miklum deilum í öllum nágrannalöndum okkar — fór þegjandi og hljóðalaust, umræðulaust, í gegnum þingið. Það er merkilegt hvað við sýndum mikla framsýni. Hún fór umræðulaust í gegnum þingið. Alger samstaða var með öllum flokkum um að setja þessi nýju heildarlög, annars vegar um ákvörðun dauða og hins vegar um brottnám líffæra. Ég hef alltaf haldið því fram að skýringin á því að Alþingi Íslendinga sýndi þessa miklu víðsýni — hversu framsýnt það getur verið þegar allir taka höndum saman — hafi verið sú að nokkrum mánuðum áður hafði Íslendingur, ungur maður, fengið hjarta og lunga að gjöf. Um það hafði mikið verið fjallað í íslenskum fjölmiðlum. Allir Íslendingar skildu um hvað málið snerist, og þar með Alþingi og málið flaug í gegn.

Ég skora á heilbrigðisráðherra og félags- og tryggingamálaráðherra að taka aftur höndum saman eins og þeir gerðu vegna þess máls sem við ræðum hér og skipa nefnd sem fái það verkefni að kanna leiðir til að almenningur í landinu taki í lifanda lífi afstöðu til þess hvort hann gæti hugsað sér að gefa líffæri úr sér ef sú staða kæmi upp. Þá yrðu aðstandendur losaðir undan þeirri kvöð og ég hygg að það mundi leiða til þess að við fengjum fleiri líffæri til notkunar öðrum til heilla.