149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

endurskoðendur og endurskoðun.

312. mál
[14:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Sá sem hér stendur ætlaði ekki að taka til máls í þessu máli en þau orðaskipti sem ég átti hér áðan við hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar hafa orðið þess valdandi að ég verð að fara nokkrum orðum um frumvarpið.

Í umsögn frá Félagi löggiltra endurskoðenda, með leyfi forseta, er því komið á framfæri:

„… að við þýðingu reglugerðarinnar [537/2014] var ekki stuðst við þann orðaforða og málvenjur sem viðhafðar eru í endurskoðunarstéttinni og er því oft vandkvæðum bundið að átta sig á því hvað við er átt nema með því að fletta upp í frumtextanum. FLE telur þetta bagalegt og telur betra að farið hefði verið að tillögum um orðanotkun sem endurskoðendur komu á framfæri við drög að þýðingunni.“

Þetta er reyndar ekki alveg nýtt vegna þess að ég er því kunnugur að þessi reglugerð var lengi vel ekki þýdd. En samt var verið að leggja, eins og ég sagði áðan, kröfur sérstaklega á minni endurskoðunarfyrirtæki, sem byggðust á reglugerð sem hafði verið birt einhvers staðar í útlöndum en var ekki til í íslenskri þýðingu, samt sem áður áttu menn að fara eftir þessu. Þetta er náttúrlega til vansa.

En það er reyndar líka annað sem kemur að því sem ég ræddi hér áðan. Auðvitað er starf endurskoðenda, löggiltra endurskoðenda, mjög þýðingarmikið og ég held að nauðsyn sé á vandaðri endurskoðun og vönduðum reikningsskilaaðferðum. Við fengum það svona, eins og maður segir, beint í andlitið í kringum hrun að þau mál höfðu ekki verið í þeim ferli og ekki í því horfi hjá okkur sem best hefði verið á kosið. Og einmitt þess vegna hefði verið og er náttúrlega eðlilegt og sjálfsagt og nauðsynlegt að fara ofan í þær reglur og þau lög sem um þessa starfsemi gilda, þannig að auðvitað er það fagnaðarefni út af fyrir sig.

En ég vil færa til eitt, það er 18. gr. sem er á bls. 9, með leyfi forseta, þar sem talað er um gæðakerfi. Þar segir, með leyfi forseta:

„Endurskoðunarfyrirtæki og endurskoðendur skulu starfa samkvæmt formlegu gæðakerfi. Formlegt gæðakerfi skal meðal annars innihalda reglur um ábyrgð stjórnenda á gæðum endurskoðunar, viðeigandi siðareglur, reglur um samþykki og áframhaldandi samþykki viðskiptavina og endurskoðunarverkefna, reglur um ráðningu starfsfólks í endurskoðunarteymi, reglur um framkvæmd endurskoðunar og reglur um eftirfylgni og skráningu gæðakerfis. Stjórn endurskoðunarfyrirtækis skal bera ábyrgð á gæðakerfinu og skal kerfið metið árlega. Niðurstöður úr mati og fyrirhugaðar breytingar á kerfinu skulu skjalfestar.“

Þessi regla t.d., um þetta gæðakerfi, er mjög íþyngjandi fyrir minni fyrirtæki, um það hafa komið fram dæmi. Við höfum haft hér, eins og ég sagði, fullt af mjög hæfum einstaklingum sem hafa rekið endurskoðunarþjónustu. Það er þeim um megn að taka upp gæðakerfi eða eitthvað slíkt eins og hér er nefnt, þannig að eftir lestur þessa frumvarps, og eftir að hafa hlustað á ræðu hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar, get ég ekki varist þeirri hugsun að ekki hafi verið gætt að hagsmunum og aðstæðum þessara smáu fyrirtækja sem stunda endurskoðun.

Hv. þingmaður, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, sagði áðan orð sem urðu eiginlega til þess að ég fór upp í þessa ræðu, þ.e. að hvorki hann eða ég gætum tryggt að mál væru með einhverjum ákveðnum hætti. Þessu er ég bara öldungis ósammála vegna þess að lagasetning á Alþingi á að tryggja að um það sem í lagasetningunni felst fari þannig að menn geti verið nokkuð öruggir um sinn hlut. Hv. þingmaður, sem því miður er farinn héðan af vettvangi, taldi upp hvaða leiðir væru færar fyrir einstakling í litlu endurskoðunarfyrirtæki til að ná rétti sínum, þ.e. að efna til stjórnsýslukæru. Þetta er fyrir neðan allar hellur vegna þess að við eigum að ganga þannig frá hnútum hér á Alþingi að það sem einstaklingar og lítil fyrirtæki og fyrirtæki yfir höfuð þurfa að sækja til ríkisvaldsins sé einfalt, ódýrt og gegnsætt. Þetta frumvarp uppfyllir ekkert af því, ekki nokkurn skapaðan hlut. Og ef allt um þrýtur geta menn bara farið í mál. Það er auðvelt að segja þetta. Ef menn eru óánægðir með það sem við erum að gera á Alþingi þá geti þeir bara farið í mál.

Auðvitað eigum við að ganga þannig frá málum, ekki bara þessu máli heldur öllum málum — ég hef dálítið rætt þetta undanfarna daga af því að málum hefur verð hrúgað hér í gegn á Alþingi lítt ræddum — að við verði unað. Eins og dæmin sanna hefur það því miður verið siður að með vissu millibili þarf að taka upp lagasetningu sem hér er unnin, annaðhvort eftir skamman eða langan tíma, vegna þess að lagasetningin stenst ekki. Oft og tíðum eru á henni ágallar vegna þess, og ég vil fullyrða þetta, að ekki hefur verið haft nægilegt samráð við alla þá sem lagasetningin snertir. Í þessu tilfelli virðist hafa verið talað við þá sem eru stærstir og fyrirferðarmestir. Ef þetta yrði yfirfært yfir á aðra grein, ættum við þá að reka fiskveiðistefnuna þannig að við töluðum bara við stærstu fyrirtækin í sjávarútvegi, topp tíu, en létum hina róa? Er það þannig? Á ekki að hafa samráð við alla?

Mér finnst þetta, frú forseti, eiginlega stærra mál en við blasir við fyrstu sýn. Af því sem hér er fært fram get ég ekki séð, og nú er ég búinn að taka ráð hv. formanns efnahags- og viðskiptanefndar og hraðlesa yfir þau gögn sem hér eru til reiðu svo að hann þurfi ekki að tyggja þetta ofan í mig, að nokkuð hnekki því sem ég var að tala um áðan, ekki nokkur skapaður hlutur. Það hefur í sjálfu sér valdið mér undrun undanfarin ár vegna þess að ég veit í hvaða baráttu þessi smáu fyrirtæki í endurskoðun hafa staðið bæði gagnvart svokölluðu endurskoðunarráði og ráðuneytinu, þ.e. ráðuneyti iðnaðar- og ferðamennsku og allt það. Og ég veit það bara af því að þeir sem þessa atvinnu stunda hafa jafnvel leitað til mín um aðstoð vegna þess að ráðuneytið, ég tala nú ekki um endurskoðunarráð, hefur í sjálfu sér beitt þennan hóp ofríki, hreinu ofríki.

Af þessu leiðir að ég sé ekki betur en að við séum enn, í þessu máli hér, að setja lög án þess að samráð sé haft við allan hópinn sem á að fara eftir þessum lögum. Því segi ég aftur: Mér finnst þetta lagafrumvarp vera þannig að ef um væri að ræða sjávarútvegsfrumvarp hefði bara verið talað við tíu stærstu fyrirtækin og hin látin sigla sinn sjó í þess orðs fyllstu merkingu. Og það er til vansa, frú forseti.

Einmitt núna, við erum væntanlega á síðustu klukkutímum þessa þings nema eitthvað komi upp á sem við sjáum ekki fyrir, ríður á að menn hafi skýra sýn á það hvað þeir eru að gera og séu ekki að hrúga hér í gegnum þingið á síðustu stundu málum sem þurfa meiri umfjöllun. Þetta mál er tvímælalaust eitt af þeim. Ég myndi því telja æskilegt að þetta mál færi aftur til nefndar milli umræðna þannig að hægt væri að ganga úr skugga um að aðstæður smærri fyrirtækjanna með langan starfsaldur hafi verið gaumgæfðar, að tryggt sé að komið sé til móts við þennan hóp, vegna þess að það er ekki á færi lítilla fyrirtækja, einstaklinga, jafnvel lítilla sveitarfélaga, að ráða sér endurskoðendur sem eru hlutgerðir samkvæmt þessum lögum hér.

Og hvað fáum við þá í staðinn, frú forseti? Jú, við fáum bókhaldsstofur, með mikilli virðingu fyrir þeim, þar sem menn eru ekki með löggilta menntun en taka að sér endurskoðun á jafnvel litlum og meðalstórum fyrirtækjum vegna þess að þau hafa ekki efni á því að ráða til sín menn og fyrirtæki sem starfa samkvæmt þeim lögum eða því frumvarpi sem við setjum hér fram.

Ég tel það fullkomlega eðlilegt og einnar messu virði að frumvarpið sé, milli 2. og 3. umr., sent aftur til efnahags- og viðskiptanefndar þar sem menn gangi úr skugga um að þau atriði, sem ég hef talið hér að framan hafi verið tekin til athugunar með þeim hætti að fullnægjandi sé og að við séum ekki með þessari lagasetningu að bola úr starfi aðilum sem hafa starfað á þessum vettvangi í áratugi með flekklausan feril og hafa alla sína tíð stundað þetta starf af mikilli trúmennsku. Það eru út af fyrir sig nöturleg skilaboð ef svo væri.

Ég ítreka það, frú forseti, að ég hvet til þess að þetta mál verði að lokinni þessari umræðu sent aftur til efnahags- og viðskiptanefndar til frekari athugunar milli umræðna þannig að við sem ekki höfum verið yfir þessu máli frá byrjun getum verið þess fullviss að við séum ekki að stíga hér röng skref eða að gera enn ein mistökin við lagasetningu á þinginu eins og ég tel að hætta sé á með því að við samþykkjum þetta frumvarp eins og það lítur út núna.

Þetta var ekki mál sem ég ætlaði að koma hingað upp í, en orðaskipti mín við hv. formann efnahags- og viðskiptanefndar urðu til þess að mér var nauðugur einn kostur, að koma hér upp og tala máli þessara aðila sem ég hef gert hér að umtalsefni, þ.e. þessara smærri endurskoðendafyrirtækja sem unnið hafa af gagni og trúmennsku og heiðarleika flekklaus í áratugi. Það á ekki að skerða réttindi þeirra eða afkomumöguleika með þessu frumvarpi.