150. löggjafarþing — 123. fundur,  23. júní 2020.

sorgarorlof foreldra.

653. mál
[11:41]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil leyfa mér að taka undir og þakka hv. fyrirspyrjanda Brynjari Níelssyni fyrir að bera fyrirspurnina fram og hæstv. ráðherra fyrir að hafa hafið vinnu og undirbúning. Ég tek undir það að það er þung raun, og þyngri en tárum tekur, þegar ung börn kveðja lífið. Það er eins og himnarnir hrynji yfir þær fjölskyldur sem eiga í hlut og það er ekki bara einn eða tveir, það eru heilu fjölskyldurnar. Það er mikilvægt að veita þann stuðning sem felst í fjárhagslegri fyrirgreiðslu en það er svo margt annað sem þarf að koma til. Það þarf að leggja áherslu á að veita sálrænan stuðning, að fólk fái möguleika til að tjá sig og lifa sig í gegnum þessa miklu raun. Í sögulegu ljósi hefur kirkjan gegnt mikilvægu hlutverki þarna og heilsugæslan er farin að gera það með því að við höfum t.d. verið að fjölga sálfræðingum þar inni. Félagsráðgjafar hafa líka miklu hlutverki að (Forseti hringir.) gegna þarna. Þetta er gott mál.