154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[11:47]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég styð þetta frumvarp sem við greiðum hér atkvæði um en vil undirstrika nokkur atriði. Við undirbúning frumvarpsins var lögð sérstök áhersla á að breytingin hefði sem minnst áhrif á börn. Ég legg áherslu á að það er alltaf hægt að meta hagsmuni barna og það á að gera í öllum málum. Lög um útlendinga toppa ekki barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Hann er ekki plagg sem liggur einhvers staðar, hann er festur í lög í íslensku samfélagi og það eiga allir að vinna eftir honum. Þar er m.a. sérstaklega kveðið á um hagsmunamat í málefnum barna.

Síðan vil ég líka undirstrika mikilvægi þess að við horfum á þetta í heild sinni. Hér erum við, eins og komið hefur fram, að ræða heildarsýn í málefnum útlendinga og innflytjenda. Þar er m.a. verið að vinna að aðgerðum sem varða inngildingu. Markmiðið er að nýta hluta af því fjármagni sem mun sparast í opinberum rekstri til þeirra inngildingarverkefna. Þau eru komin á fullt. Við erum að byrja með samræmt verklag við móttöku barna með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn, eflingu námsgagna o.fl. í samvinnu við sveitarfélög og fleiri aðila. (Forseti hringir.) Því á heildarsýnin að geta náð fram að ganga. Við aukum inngildingu og tökum betur á móti þeim sem hingað flytja.