140. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2012.

afgreiðsla mála fyrir þinghlé.

[10:40]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Mig langar að kveðja mér hljóðs og lýsa óánægju minni með það sem fram fer á Alþingi þessa dagana og hefur verið að gerast hér undanfarna daga og vikur. Ég hef tekið þátt í fjölmörgum fundum með forustumönnum ríkisstjórnarinnar, þingflokksformönnum og öðrum og niðurstaða mín er einfaldlega sú að Alþingi Íslendinga er ekki starfhæft. Það er ekki starfhæft lengur sem löggjafarvald eins og staðan er. Það er ekki lengur vettvangur lýðræðislegrar umræðu heldur er í gangi einhvers konar valdaþrátefli sem á ekki heima í lýðræðissamfélagi.

Við slíkar aðstæður sem hafa meira og minna ríkt frá því fyrir páska þegar reynt var að stöðva drög að nýrri stjórnarskrá og það algera úrræðaleysi sem meiri hlutinn sýnir í þessu máli er í raun ekki hægt að halda áfram að óbreyttu. Við vitum að með því að fara með þingið svona inn í næsta haustþing verðum við máluð út í nákvæmlega sama horn þann 11. september og við erum í í dag. Það hlýtur því að vera komið að því að forusta þingsins og forusta stjórnarmeirihlutans velti því alvarlega fyrir sér hvort ekki sé rétt að senda Alþingi heim og boða til alþingiskosninga. Þá getur almenningur nýtt sér lýðræðislegan rétt sinn til að velja sér nýja fulltrúa (Forseti hringir.) á Alþingi sem nú sem stendur er einfaldlega ekki starfhæft.