144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:32]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það sem vantar inn í þessa umræðu er hvað ætla má að mikið af vaxtaberandi skuldum ríkissjóðs verði greitt niður af þeim tekjum sem munu renna í ríkissjóð á næstu árum vegna stöðugleikaskattsins. Það eru raunar hinar gleðilegu fréttir þessa dags.

Það er hins vegar ekki hægt að krefjast þess að hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar komi og skýri það út fyrir okkur því að hún er stödd erlendis en þá ber svo vel í veiði að annar snillingur úr fjárlaganefnd, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, er kominn hér nánast eins og frelsandi riddari á hvítum hesti og mun ábyggilega nota ræðu sína á eftir til að skýra þetta og það mun greiða fyrir umræðunni. Ég segi fyrir minn hatt að ég ætla að bíða með að krefjast þess að málið verði tekið fyrir í nefndinni þangað til í ljós kemur hvort hv. varaformaður fjárlaganefndar hefur þessar upplýsingar en ég vænti þess að hann hafi kvatt sér hljóðs til að skýra þetta mál.