136. löggjafarþing — 126. fundur,  4. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:29]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins út af orðum hv. þm. Árna M. Mathiesens segja að ég held að þetta sé einhvers konar met hjá þingmönnum minni hluta stjórnarinnar með stuðningi Framsóknar hvað þeim hefur tekist á örskömmum tíma að ná gríðarlegum valdhroka. Það skiptir nákvæmlega engu máli fyrir þetta fólk þótt það verði uppvíst að því dag eftir dag að brjóta þingsköpin. Það er algert aukaatriði. Það er alveg augljóst af þeim umræðum sem hér hafa farið fram á undanförnum dögum að það sem snýr að minni hlutanum er algert aukaatriði. Nú skyldi maður kannski ætla að þessir hv. þingmenn, þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar, hefðu verið með þessa línu og hefðu talað með þessum hætti fram til þessa, virðulegi forseti. En það er þannig að báðir þessir flokkar, og sérstaklega Vinstri grænir, eru nýkomnir úr stjórnarandstöðu og ég held að það gæti verið athyglisvert að fara aðeins yfir ræður þessara þingmanna þegar þeir fóru hamförum, að manni fannst stundum af ekki miklu tilefni, vegna þess að þeir töldu vera brotið á rétti minni hlutans, þeir töldu að ekki væri haft nógu mikið samráð á milli aðila innan þingsins eða þingflokkanna. Iðulega stóð núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, sem var þá formaður þingflokks Vinstri grænna, og stappaði niður fótunum og barði niður höndunum og öskraði á þingheim að hitt og þetta vinnulagið væri ekki líðandi. Síðan fara þeir í ríkisstjórn, nánar tiltekið 1. febrúar á þessu ári, og það er skemmst frá því að segja að eitthvað sem snýr að þinginu, eitthvað sem snýr að þingmönnum öðrum en þeim sjálfum er algert aukaatriði sem skiptir nákvæmlega engu máli.

Virðulegur forseti. Mér finnst þetta orðið mjög alvarlegt þegar menn í fullri alvöru brjóta þingsköp og finnst það ekkert tiltökumál. Þeir sem bera ábyrgð á þessu er þingflokkur Vinstri grænna. Þar er formaður hv. þm. Atli Gíslason og það hvarflar ekki að þeim hv. þingmanni að fara að þingsköpum og halda fund í umhverfisnefnd. (Gripið fram í: Hann er varaformaður.) Hér er ég leiðréttur af hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur, hv. þm. Atli Gíslason er víst varaformaður (Gripið fram í.) sem hefði átt að halda fundinn í forföllum formanns nefndarinnar, hv. þm. Helga Hjörvars. En það breytir ekki öllu, aðalatriðið er að þingmenn Vinstri grænna og þingmenn Samfylkingarinnar eru vitandi vits og án þess að hafa neinar áhyggjur af því að brjóta þingsköp upp á hvern einasta dag. Valdhrokinn er slíkur að hér hafa þingmenn komið fram, t.d. hv. þm. Árni Þór Sigurðsson í umræðum um störf þingsins — en fyrir þá sem ekki þekkja til er gert ráð fyrir að þingmenn hafi þar tækifæri til að spyrja hvern annan og alla jafna er það þannig að stjórnarandstaðan spyr þingmenn stjórnarliðsins um eitthvað þar sem þeir eru almennt með forræði á málum — og hann lýsti því yfir, virðulegi forseti, að hann svaraði spurningum þegar honum hentaði og ef honum fyndist sérstakt tækifæri til þess eða ástæða til þess. Þetta tengist því miður því máli sem við ræðum í dag. Það er nákvæmlega þetta viðhorf sem skín í gegn þegar menn eru að afgreiða þetta frumvarp.

Margir sem ekki þekkja til þingstarfa spyrja: Af hverju í ósköpunum eruð þið sjálfstæðismenn að ræða þessi mál svona ítarlega? Hvers vegna standið þið í þingsal og eruð að ræða þetta mál sem snýr að stjórnarskrá lýðveldisins? Það er skemmst frá því að segja að það er vegna þess að þetta er stjórnarskrá lýðveldisins. Sú ríkisstjórn sem nú situr var sett til að taka á bráðaaðgerðum eins og það var kallað, til að taka á vanda heimilanna og fyrirtækjanna en langminnstur hluti af tíma þeirrar ríkisstjórnar hefur farið í þá þætti. Ég hitti fólk áðan sem spurði: Af hverju hafið þið sjálfstæðismenn undanfarna daga og iðulega undir þessum lið verið að ræða um fundarstjórn forseta? Jú, það er vegna þess, virðulegi forseti, að forseti ræður dagskrá þingsins og það er með vilja að þau mál sem snerta heimilin og fyrirtækin, og þau eru því miður ekki mörg frá ríkisstjórninni, eru sett aftast á dagskrána. Við höfum margoft boðist til að taka þau mál með hraði hér í gegn og höfum sýnt það í verki, við höfum gert það og jafnvel þó að við séum ekki fullsátt við málin og þau séu stundum nokkuð gölluð metum við það þannig að staðan í þjóðfélaginu sé með þeim hætti að við setjum þetta í algeran forgang. Það er ekki á neinn hátt hægt að halda því fram að hér hafi verið iðkað það sem almennt er kallað að tefja mál eins og stjórnarandstaða gerir stundum. Raunar má frekar gagnrýna okkur fyrir að hafa hleypt málum of hratt í gegn en við höfum gert það samt sem áður til að hjálpa fyrirtækjunum og heimilunum í landinu.

Gott dæmi um það eru lögin um séreignarsparnaðinn, sem ég held því miður að hafi ekki verið nógu góð, alls ekki nógu góð og við lögðum áherslu á að við vildum sjá breytingar á því máli en á það var ekki fallist. Samt sem áður keyrðum við það í gegn vegna þess að þrátt fyrir að málið sé gallað getur það hjálpað einhverjum.

Virðulegur forseti. Núna sitjum við uppi með það að í fyrsta skipti í 50 ár á að keyra breytingar á stjórnarskránni hratt í gegnum þingið og í mikilli óeiningu. Ég ætla af þessu tilefni að lesa hér aðeins af bloggsíðu Árna Helgasonar sem rifjaði það upp hvað þeir aðilar sem nú fara með völd sögðu við ekki ósambærilegar aðstæður árið 2007. Pistillinn hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Því er haldið fram að stjórnarskránni hafi ekki verið breytt um langt árabil. Þetta er ekki rétt. Stjórnarskráin er þannig að þegar samþykktar hafa verið breytingar á henni skal boða til kosninga og staðfesti nýtt þing breytingarnar telst stjórnarskránni hafa verið breytt. Í þessu felst að kosningar verða að fara fram til þess að hægt sé að breyta stjórnarskrá.

Í þremur af síðustu fimm kosningum sem haldnar hafa verið var stjórnarskránni breytt í kjölfarið, þ.e. 1991, 1995 og 1999 en ekki 2003 og 2007, þ.e. í þremur af fimm tilfellum hefur þingið nýtt tækifærið og breytt stjórnarskránni. Þetta kalla menn að hafa ekki breytt stjórnarskránni um langt árabil. Til samanburðar má nefna að stjórnarskránni var síðast breytt í Danmörku árið 1953. Samt hafa Danir það nú ágætt!

Í dag hófust á ný umræður um frumvarp ríkisstjórnarinnar um stjórnarskrána. Eins og allir gátu séð fyrir spila stjórnarliðarnir út því spili að stjórnarandstaðan sé að beita málþófi. Aðalatriði málsins er hins vegar að ríkisstjórnin kýs að rjúfa friðinn um stjórnarskrána og keyra í gegn breytingar gegn vilja 26 þingmanna af 63. Jóhanna Sigurðardóttir staðfesti það beinlínis í dag á þingi að hún myndi verða fyrsti forsætisráðherrann í 50 ár til þess að standa fyrir breytingum á stjórnarskrá án þess að allir flokkar væru sáttir við þær breytingar.

Alþingi tók nokkuð stífa stjórnarskrárumræðu árið 2007 þegar kynnt var frumvarp um breytingar á auðlindaákvæði stjórnarskrár. Þá voru nokkrir af núverandi ráðherrum í stjórnarandstöðu og beittu sér í málinu. Það er athyglisvert að rifja upp ummæli þeirra úr umræðunni þá þegar þeir halda því nú fram hver af öðrum að krafa um lýðræðisleg og vönduð vinnubrögð við breytingar á stjórnarskránni sé ekkert annað en málþóf og tafir.

Rifjum upp ummælin: Ögmundur Jónasson: „Stjórnarskránni á ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga. [...] Það er grundvallaratriði að um stjórnskipan þjóðarinnar ríki stöðugleiki, sátt og festa.““

Virðulegi forseti. Þetta sagði núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra. Ég endurtek: „Stjórnarskránni á ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga. [...] Það er grundvallaratriði að um stjórnskipan þjóðarinnar ríki stöðugleiki, sátt og festa.“

Þetta er vel mælt og þetta er algerlega hárrétt. Þetta sagði ráðherra í ríkisstjórn Íslands fyrir nokkrum mánuðum síðan. Eini munurinn er sá að þá var þessi ráðherra í stjórnarandstöðu.

Komum að öðrum ráðherra. Össur Skarphéðinsson segir: „Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og það er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál.“

Virðulegi forseti. Ég ætla að lesa þetta aftur, hægt: „Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og það er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál.“

Þetta sagði hæstv. utanríkisráðherra þegar hann var hv. stjórnarandstöðuþingmaður fyrir nokkrum mánuðum síðan.

Hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon sagði: „En ég bara trúi því ekki að menn ætli að bera það á borð að örvæntingin í stjórnarherbúðunum, sem myndaðist á fáeinum sólarhringum fyrir og um flokksþing Framsóknarflokksins, sé gjaldgeng ástæða til þess að standa svona að málum, að umgangast stjórnarskrá og vandasöm viðfangsefni þar með léttúð af þessu tagi. Ég læt segja mér það þrisvar að menn ætli í raun og veru að gangast við því að slíkt sé verjanlegt og réttlætanlegt og fara þá leið allar götur til enda.“

Þetta sagði hæstv. núverandi fjármálaráðherra fyrir nokkrum mánuðum síðan.

Í örstuttu máli. Það sem þessir núverandi ráðherrar sögðu þá var að þeir bentu á hið augljósa, stjórnarskráin er grundvöllur að okkar stjórnskipan. Við Íslendingar börðumst mikið fyrir því að fá stjórnarskrá og á Íslandi hefur verið samstaða um að keyra ekki í gegn breytingar á stjórnarskránni nema um það sé góð sátt. Það er engin tilviljun, virðulegi forseti, að nú nokkrum dögum fyrir kosningar setja menn öll þau mál sem skipta heimilin og fyrirtækin máli aftast á dagskrána til að keyra í gegn með góðu eða illu umdeildar breytingar á stjórnarskránni.

Virðulegi forseti. Þeir aðilar sem gera þetta láta ekki svo lítið að taka umræðu um málið. Frá fyrstu ræðu, sögðu menn: Þetta er málþóf og við ætlum ekki að taka þátt í því. Hvað erum við að tala um, virðulegi forseti? Mál eru misjafnlega stór. Er þetta eitthvert smámál? Nei, virðulegi forseti, þetta er stjórnarskráin, stjórnarskrá lýðveldisins sem við börðumst fyrir. Menn börðust fyrir að fá stjórnarskrá víðs vegar í heiminum og við gerðum það sérstaklega, Íslendingar. Þegar við fengum stjórnarskrána var mikill fögnuður í landi okkar. Fram til þessa höfum við verið samtaka um það að ef við breytum henni gerum við að í sátt — þangað til núna.

Núna kemur þessi verklausa og hrokafulla minnihlutastjórn með fulltingi Framsóknarflokksins og setur öll þau mál sem varða heimilin og fyrirtækin lengst aftast á dagskrána en einbeitir sér að því að keyra í gegn með góðu eða illu breytingar á stjórnarskránni. Í fyrsta skipti í 50 ár er hér forsætisráðherra sem er nákvæmlega sama um eitthvað sem heitir samstaða um grundvallaratriði í stjórnskipun okkar, nákvæmlega sama. Hrokinn er slíkur að það er ekki einu sinni tekin umræða um þetta mál, það hvarflar ekki að hv. þingmönnum í meiri hlutanum. Þetta skiptir nákvæmlega engu máli. Hér skulu menn með góðu eða illu keyra þetta mál í gegn.

Ég fór yfir þessi ummæli núverandi ráðherra, fyrrverandi stjórnarandstöðuþingmanna fyrir nokkrum mánuðum síðan, ummæli frá því fyrir nokkrum mánuðum síðan þar sem þeir vöruðu við vinnubrögðum sem þeir viðhafa nú og formæltu þeim og mótmæltu þeim harðlega. Virðulegi forseti. Þetta snýst ekki bara um það að 26 þingmenn af 63 — ég held að vísu að þeir séu fleiri, ætli þeir séu ekki 27 af 63 — segi að við skulum fara varlega og skoða þetta mál betur eins og við höfum gert þegar við höfum breytt stjórnarskránni.

Í þessum bunka eru umsagnir um frumvarp til stjórnarskipunarlaga um breyting á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þetta er ekki lítill bunki enda er málið gríðarlega stórt. Virðulegur forseti. Það hvarflar ekki að mér að lesa upp úr þessu öllu enda geta menn ímyndað sér hvaða tíma það mundi taka. Ég held hins vegar að það sé hollt að taka hér nokkrar umsagnir aðila sem gjörþekkja þessi mál.

Hér er umsögn frá laganefnd Lögmannafélags Íslands. Þar segir, með leyfi forseta, í niðurlagi þeirrar umsagnar:

„Laganefnd telur ákveðna þversögn felast í því að gera efnisbreytingar á stjórnarskránni og á sama tíma koma á fót stjórnlagaþingi sem á að semja nýja stjórnarskrá. Er vandséð að framangreindar breytingar geti haft það mikið gildi á meðan stjórnlagaþing er að störfum en samkvæmt frumvarpinu á stjórnlagaþing að ljúka störfum eigi síðar en 17. júní 2011. Ljóst er að sá tími er í sjálfu sér ekki mjög langur miðað við efni ákvæðanna sem um ræðir.

Að mati laganefndar eru þær breytingar á stjórnarskránni sem boðaðar eru með frumvarpinu í raun grundvallarbreytingar. Laganefnd áréttar mikilvægi þess að allar breytingar á stjórnarskránni séu gerðar að vel athuguðu máli og í mikilli sátt allra aðila, ekki síst þegar um grundvallarbreytingu er að ræða. Er það afstaða laganefndar að framangreindar breytingar þurfi frekari athugunar við og leggst nefndin af þeim sökum gegn samþykkt frumvarpsins eins og það er lagt fyrir.“

Hér er um að ræða, virðulegi forseti, laganefnd Lögmannafélags Íslands. Ég tel ekki rétt að raða aðilum í einhverja röð, hver þekkir málin best, en það er vandséð að aðrir aðilar þekki betur til þessara mála en laganefnd Lögmannafélags Íslands. Ég tel því rétt að lesa þetta aftur:

„Að mati laganefndar eru þær breytingar á stjórnarskránni sem boðaðar eru með frumvarpinu í raun grundvallarbreytingar. Laganefnd áréttar mikilvægi þess að allar breytingar á stjórnarskránni séu gerðar að vel athuguðu máli og í mikilli sátt allra aðila, ekki síst þegar um grundvallarbreytingu er að ræða. Er það afstaða laganefndar að framangreindar breytingar þurfi frekari athugunar við og leggst nefndin af þeim sökum gegn samþykkt frumvarpsins eins og það er lagt fyrir.“

Nefndin leggst gegn því. Áður fóru þeir yfir þversagnir í frumvarpinu um stjórnarskrána. Ekki er gott að hafa þversagnir í frumvörpum en hér er um að ræða frumvarp um breytingu á stjórnarskránni.

Virðulegi forseti. Hér er önnur umsögn. Hún er frá dr. Ragnhildi Helgadóttur, prófessor við Háskólann í Reykjavík. Þetta er löng og ítarleg umsögn og ég ætla ekki að lesa hana alla. Ég ætla hins vegar að lesa samantektina, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir að mörg ákvæði frumvarpsins feli í sér æskilegar breytingar legg ég til að ekki verði gerðar aðrar breytingar á stjórnarskránni nú en þær sem snúa að því hvernig henni skuli breytt, nema náist sátt um það milli allra flokka. Ég fagna ákvæði um að héðan í frá þurfi þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskránni.

Hvað snertir heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, þá kann hún að vera nauðsynleg til að fá fram umræðu um stjórnskipunina en hún er að mínu áliti ekki nauðsynleg vegna efnis stjórnarskrárinnar. Þær breytingar sem þarf að gera nú eru síst meiri en breytingar sem hafa hingað til verið gerðar á stjórnarskránni. Það er skoðun mín að vegna þess óróa sem ríkir í stjórnmálum og vegna þess að tilgangurinn er umræða en ekki aðkallandi breytingar sé ekki æskilegt að boða til stjórnlagaþings eftir næstu kosningar, heldur eigi Alþingi að vinna tillögu um aðkallandi breytingar á stjórnarskrá eftir næstu kosningar og leggja svo tillögur sínar undir þjóðaratkvæði í samræmi við tillögu frumvarpsins þar um. Ég bendi á nokkur umhugsunaratriði varðandi útfærslu á hugmyndinni um stjórnlagaþing en tek ekki afstöðu til hennar í smáatriðum.“

Þetta er umsögn sérfræðings hvað þetta varðar, dr. Ragnhildar Helgadóttur, prófessors í Háskólanum í Reykjavík, sem leggst gegn því að við samþykkjum þetta. Hér eru önnur sjónarmið en komu fram í fyrri umsögn sem segir okkur hversu lítt þroskuð þessi umræða er og hversu mikilvægt er af mörgum ástæðum að fara betur yfir þetta og skoða þessi mál betur.

Hér kemur umsögn frá Davíð Þór Björgvinssyni, sem er dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, prófessor við lagadeild HR. Þar segir, með leyfi forseta, í inngangi:

„Undirrituðum barst tölvupóstur 15. mars sl. þar sem gefinn var kostur á að veita umsögn um frumvarp til stjórnarskipunarlaga sem lagt hefur verið fram á Alþingi (Þskj. 648, 385. mál (2008–2009)). Veittur var frestur til 20. mars til að skila inn umsögn.

Þennan frest verður að telja fremur skamman þegar umfang málsins er haft í huga. Hér gefst því aðeins kostur á mjög almennum athugasemdum. Umsögnin getur þar með á engan hátt talist tæmandi og vafalítið myndi nákvæmari skoðun gefa tilefni til fleiri og ef til vill gagnlegri athugasemda en hér eru gerðar.“

Hér er sérfróður aðili að lýsa því hversu hratt er unnið í þessu máli og biðja um lengri tíma til að fara yfir málið.

Samtök atvinnulífsins enda sína umsögn svona, með leyfi forseta:

„Eitt brýnasta verkefni okkar er að endurvekja traust umheimsins. Hringlandaháttur í lagasetningu er ekki skref í þá átt.“

Virðulegi forseti. Samband íslenskra sveitarfélaga segir, með leyfi forseta:

„Lögfræðisvið sambandsins hefur unnið meðfylgjandi umsögn um frumvarp til laga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, 385. mál.

Þar er einkum varað við því að 3. og 4. gr. frumvarpsins dragi úr áhrifum og sjálfstæði Alþingis auk þess sem lýst er áhyggjum yfir miklum kostnaði sem hlýst af sömu ákvæðum, sem fjalla um þjóðaratkvæðagreiðslur og skipun stjórnlagaþings.“

Virðulegi forseti. Ég tek bara upp nokkrar umsagnir. Þetta er allur bunkinn. Lögmannafélagið segir: Ekki samþykkja þetta. Helstu sérfræðingar segja: Þetta er allt of skammur tími, ekki samþykkja þetta. Nú kynni einhver að spyrja: Er sá sem hér stendur og aðrir sjálfstæðismenn á móti því að við breytum stjórnarskránni? (Gripið fram í.) Svarið er einfalt: Nei. Við höfum staðið að breytingum en ég er þeirrar skoðunar og um það er samstaða í þingflokki sjálfstæðismanna að það sé of flókið að breyta stjórnarskránni. Við höfum því lagt til að við breytum henni þannig núna og um það getur náðst alger samstaða á þingi að ekki þurfi að greiða atkvæði um þetta í tengslum við þingkosningar. Með öðrum orðum, þingið gæti þess vegna sest yfir þetta í sumar eftir alþingiskosningar og komist að niðurstöðu um breytingarnar og lagt þær fyrir þjóðina.

Þingmenn í öðrum flokkum hafa sagt að sjálfstæðisflokkurinn vilji ekki missa völd og sé hræddur við þjóðina. Virðulegi forseti. Þetta er fráleitur málflutningur. Ég er bjartsýnn maður en ef við tölum um hlutina eins og þeir eru þá held ég að Sjálfstæðisflokkurinn nái ekki hreinum meiri hluta í kosningunum sem fara fram 25. apríl. Hvað þýðir það? Það þýðir að ef við breytum þessu, eins og við sjálfstæðismenn leggjum til, að ef meiri hluti þingsins ákveður að fara gegn vilja Sjálfstæðisflokksins eftir kosningar þá getur hann gert það og getur rennt því í gegnum þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem kosið væri um málið. Með öðrum orðum, ef einhver flokkur er að koma til móts við það að þjóðin geti tekið afstöðu til þessara mála sérstaklega, þ.e. stjórnarskrárinnar, þá er það Sjálfstæðisflokkurinn. (BJJ: Nei.) Hv. þm. Birkir J. Jónsson er orðinn þreyttur og það heyrist í hliðarsölum.

Virðulegi forseti. Á þessi sjónarmið er ekki hlustað. Látum vera að hrokinn sé slíkur að menn telji sig þess umkomna nokkrum dögum fyrir þingið að kasta öllu því sem var lofað, ekki bara af ríkisstjórnarflokkunum heldur líka Framsóknarflokknum sem lofaði að sjá til þess að minnihlutastjórnin mundi vinna og fara í nauðsynlegar aðgerðir fyrir heimilin og fyrirtækin. (Gripið fram í.) Framsóknarflokkurinn lofaði því. Nú er það svo að formaður Framsóknarflokksins og oddviti flokksins í Norðvesturkjördæmi koma í hvern fréttatímann á fætur öðrum og benda á hið augljósa, að þessi ríkisstjórn hefur ekkert gert í því sem hún lofaði. En hv. þingmönnum Framsóknarflokksins finnst þetta bara gott. Þeir segja: Fyrirtækin og heimilin — það getur vel verið að formaðurinn hafi lofað að gera eitthvað fyrir þau en okkur er alveg sama. (BJJ: Þú ert að leggja okkur orð í munn.) Virðulegi forseti. Ég er bara að túlka það sem er öllum ljóst (Gripið fram í: Mjög frjálslega.) (Gripið fram í.) Þeim er bara nákvæmlega sama og þeir taka þátt í því nokkrum dögum fyrir kosningar að keyra í gegn í fyrsta skipti í 50 ár breytingar á stjórnarskránni í ósætti. Framsóknarflokkurinn ber hér mikla ábyrgð. Hann ber mikla ábyrgð á því að hér sé ekki keyrð í gegn nauðsynleg lagasetning fyrir fyrirtækin og heimilin í landinu, hann mikla ábyrgð á því. Sömuleiðis þessi verklitla og hrokafulla minnihlutastjórn, þeir aðilar sem fyrir nokkrum mánuðum síðan, virðulegi forseti, sögðu: Þessi vinnubrögð sem menn viðhafa núna má alls ekki viðhafa þegar um stjórnarskrána er að ræða, alls ekki, og fóru mikinn. Þeir eru búnir að gleyma því eins og öllu öðru sem þeir sögðu þegar þeir voru í stjórnarandstöðu.

Nú getur vel verið, virðulegi forseti, að menn meti það svo að í aðdraganda kosninga sé þetta ofsalega pólitískt vinsælt. Ég tel að umfjöllunin sé með þeim hætti að hún geti gert það að verkum að þetta verði skammtímahagnaður pólitískt

Virðulegi forseti. Ég vil biðja þessa hv. þingmenn að hugsa um það að stjórnarskráin er nokkuð sem við Íslendingar höfum verið sátt um að standa vörð um. Samstaða hefur verið um það að vinna að breytingum í sátt. Það hefur verið sátt um að vinna ekki breytingar á handahlaupum. Látum vera, segjum sem svo að núverandi minnihlutastjórn og Framsóknarflokknum finnist þetta svo gaman og það þurfi ekkert að hlusta á Sjálfstæðisflokkinn, gefum okkur það, en þá bið ég hv. þingmenn að hlusta á umsagnaraðila sem eru sérfróðir á þessu sviði og þekkja málin.

Það er algerlega ljóst, virðulegi forseti, að orð Ögmundar Jónassonar sem sögð voru fyrir nokkrum mánuðum síðan og ég ætla að endurtaka hér og hljóða svo: „Stjórnarskránni á ekki að breyta í þeim tilgangi að afla kjörfylgis í aðdraganda kosninga. […] Það er grundvallaratriði að við stjórnskipan ríki stöðugleiki, sátt og festa.“ Sagði núverandi heilbrigðisráðherra og það er alveg ljóst að þingflokkur Vinstri grænna er búinn að éta þessi orð ofan í sig. Þau voru eins og margt annað sem sá þingflokkur segir og þeir forustumenn innantómt tal og það er algerlega ljóst að öll stóryrðin sem sá þingflokkur hefur haft uppi skipta engu máli. Menn eru komnir í valdastólana og nú skal minni hlutinn fá að finna fyrir því. Það er ekkert heilagt, ekki einu sinni stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Á ýmsu átti maður von en að sjá þennan hóp þingmanna umgangast stjórnarskrána með þessum hætti er nokkuð sem kemur manni á óvart. Látum vera að keyra lagasetningu í gegn um önnur mál. Það er alveg ljóst þegar við skoðum vinnubrögðin á þinginu núna að þetta er hroðvirknislegt, tilviljanakennt og klúðurslegt í mörgum tilfellum. Látum það vera, en nú er það stjórnarskráin.

Á hverjum degi sjáum við einhverjar fréttir um það hversu hroðvirknislega þetta er unnið. Í dag kom frétt á visir.is með fyrirsögninni „Kosið verði til stjórnlagaþings og sveitarstjórna á sama tíma.“ Og hér segir, með leyfi forseta:

„Gert er ráð fyrir að kosningar til stjórnlagaþings fari fram samhliða sveitarstjórnarkosningum 2010. Þingið starfi frá 17. júní 2010 til 17. júní 2011.

Þetta er samkvæmt tillögum í nefndaráliti sérnefndar um stjórnarskrármál sem liggur fyrir Alþingi. Halldór Halldórsson, bæjarstjóri á Ísafirði og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir að hugmyndin hafi ekki verið rædd við sig. Hann segir að hugmyndin sé praktísk að því leyti til að þá þurfi ekki að halda sérkosningar fyrir stjórnlagaþingið.

„En ég myndi óttast að það myndi skyggja svolítið á sveitarstjórnarkosningarnar. Það væri sem sagt verið að velta fyrir sér baráttumálum í hverju sveitarfélagi um leið og verið væri að kjósa til stjórnlagaþings,“ segir Halldór. Þetta segir hann að sé mjög varhugavert.“

Ég held að hver maður sjái það þegar hann hugsar um það að bara þetta eina atriði er umhugsunarvirði, er þess virði að fara yfir það.

Virðulegi forseti. Í þessu stóra máli hefur ekki einu sinni verið rætt við Samband íslenskra sveitarfélaga, ekki rætt við þau, ekki einu orði. Það er blaðamaður sem greinir formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga frá þessu. En hæstv. utanríkisráðherra og þáverandi hv. þingmaður orðaði þetta nefnilega svo ágætlega. Hann sagði fyrir nokkrum mánuðum, með leyfi forseta:

„Stjórnarskráin er grunnlög lýðveldisins og það er mikilvægt að um þau sé fjallað af mikilli ábyrgð og það sé reynt að ná sem breiðastri og víðtækastri samstöðu um þau mál.“

Þetta var fyrir nokkrum mánuðum síðan. En nú er allt breytt. Nú eru Samfylkingin og Vinstri græn komin í ríkisstjórn og þá skal minni hlutinn fá að finna fyrir því. Þingsköp eru orðin algert aukaatriði. Hv. þm. Árni M. Mathiesen hefur komið hér dag eftir dag að bent mönnum kurteislega á að það sé verið að brjóta þingsköp. Það er aukaatriði, þingsköpin eru algert aukaatriði. Menn eru ekkert að víla slíkt fyrir sér. En ekki aðeins þingsköpin, heldur sjálf stjórnarskráin. Þau orð sem hv. þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar létu falla fyrir nokkrum mánuðum eru grafin og gleymd. Þetta var afskaplega vel mælt hjá hæstv. ráðherrum Ögmundi Jónassyni, Össuri Skarphéðinssyni og Steingrími J. Sigfússyni. Þeir höfðu lög að mæla enda voru þeir að benda á hið augljósa, að menn vinna þannig og hafa gert í 50 ár af ástæðu með stjórnarskrána að um það náist sem víðtækust sátt. En núna nokkrum dögum fyrir kosningar ætla menn, kannski, að ná sér í einhver atkvæði, ég veit það ekki. Ég veit ekki hver ástæðan er en ég veit að hér eru menn að stíga skref sem eru ekki afturkræf og menn eru að gefa fordæmi sem er vægast sagt hættulegt. Ég hvet hv. þingmenn ríkisstjórnarflokkanna og Framsóknarflokksins í mestu vinsemd að hugsa aðeins sinn gang vegna þess að ef þetta gengur fram eins og nú lítur út fyrir þá er ekki aftur snúið. Þá eru menn komnir með fordæmi sem við viljum ekki hafa, ég trúi því ekki.