149. löggjafarþing — 126. fundur,  19. júní 2019.

mannanöfn.

9. mál
[22:37]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, að einhverju leyti er þetta misskilningur hjá hv. þingmanni, þ.e. þegar hún fer með þessa tilvitnun í því samhengi sem hún er sett fram í nefndarálitinu. Þar er verið að vísa til sjónarmiða sem fram komu fyrir nefndinni. Þar er efnisgreinin sem hefst á orðunum: „Aftur á móti komu fram sjónarmið …“ þegar verið er að vísa í starfið sem átti sér stað í nefndinni.

Ég get alveg tekið undir það að af hálfu framsögumanns málsins í hv. allsherjar- og menntamálanefnd, hv. þm. Jóns Steindórs Valdimarsson, var mikil vinna unnin í tengslum við málið. Ég held hins vegar að ég geti talað fyrir minn munn og annarra í nefndinni að fólk hafi ekki fengið sannfæringu fyrir því að þær leiðir sem þar voru lagðar til væru nægilega sannfærandi þar sem hlutverk er tekið af mannanafnanefnd og aðrar stofnanir eða stjórnvöld fá að hluta til hlutverk mannanafnanefndar í einhverjum tilvikum og þess háttar.

Þrátt fyrir að ég virði þá vinnu sem hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson lagði á sig í þessu í þessu starfi, held ég að fólk hafi ekki öðlast sannfæringu fyrir því að hin endanlega niðurstaða væri komin þegar málið var tekið út úr nefndinni.

Hvað varðar afstöðu til þess hvernig þessi mál eigi að þróast verð ég bara að endurtaka það sem ég sagði áðan, að fulltrúar í meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar sem standa að þessu nefndaráliti hafa ekkert endilega sameiginlega sýn á hversu langt eigi að ganga í þessum málum. En hins vegar held ég að í starfinu og í þessu nefndaráliti hafi birst (Forseti hringir.) einlægur vilji til að fara í endurskoðun á mannanafnalögum og gera breytingar, þó að menn eigi hugsanlega eftir að komast að niðurstöðu um hversu langt eigi að ganga.