136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:29]
Horfa

Ellert B. Schram (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í að mörgu leyti góðri ræðu þótti mér þó athyglisverðast eftir rúmlega 60 ræður af hálfu sjálfstæðismanna í einar 30 klukkustundir að hv. þingmaður kvartaði sérstaklega undan því að umræðan væri ekki nógu málefnaleg. Ég tek að mörgu leyti undir það.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að ég flutti hér ræðu fyrir nokkrum dögum síðan sem ég taldi málefnalegt innlegg að því að ræða um hvaða áhrif langvarandi völd eins flokks hefðu á að slæva dómgreind, aðhald og eftirlit. Út af þessari ræðu eru sjálfstæðismenn hörundsárir. Ég segi nú bara að sannleikanum sé hver sárreiðastur. En þetta var lagt fram af minni hálfu til að reyna að finna einhverjar skýringar meðal annars á hruninu sem við urðum fyrir. Ein aðalástæðan fyrir því að við erum núna að fjalla um þetta frumvarp er að við erum að reyna að færa náttúruauðlindirnar í þjóðareign og við erum að færa fólkinu meiri aðgang og aðkomu að ákvarðanatökunni.

Það fer ekkert á milli mála að Sjálfstæðisflokkurinn er á móti þessu frumvarpi. Ég vil benda á að nú erum við búin að heyra rúmlega 60 ræður. Þó að þær hafi ekki verið nógu málefnalegar þá hef ég hlustað samviskusamlega og er þeirrar skoðunar að flestöll rök í málinu hafi komið fram af þeirra hálfu og að nú sé kannski kominn tími til að hætta þessu málþófi og koma málinu aftur til nefndar í þeirri viðleitni að reyna að ná sátt vegna þess að hér hefur komið fram að það er sáttatónn í bæði andstæðingum og þeim sem mæla með þessu frumvarpi.

Ég skora eindregið á hv. þingmann (Forseti hringir.) að stuðla að því með mér og fleirum að þessu málþófi ljúki (Forseti hringir.) svo menn geti farið að tala saman um það (Forseti hringir.) hvernig eigi að afgreiða þetta mál.