136. löggjafarþing — 127. fundur,  6. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[19:18]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef hlýtt á nær allar ræður hér í dag og það er því miður orðið svo að nánast ekkert nýtt kemur fram í þeim. Öll sjónarmið hafa verið vandlega reifuð, eins og hv. þm. Ellert B. Schram sagði. Hér hafa komið fram algjör nýmæli í málþófi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur fundið upp, á drengjamet í því, en það eru athugasemdir við fundarstjórn forseta sem skipta orðið, að ég held, hundruðum.

Það er líka algjört nýmæli að sett hefur verið Íslandsmet, drengja- eða stúlknamet, í því að halda uppi málþófi í málum sem Sjálfstæðisflokkurinn er sammála. Á ég þar við frumvarp um styrki vegna kvikmyndaframleiðslu en það er með ólíkindum. Það er líka með ólíkindum að ótrúlega mikill samhljómur er milli þingmanna Sjálfstæðisflokksins og stjórnarþingmanna um fyrstu þrjár greinar frumvarpsins. Ég spyr hv. þm. Jón Magnússon hvort hann sé ósammála 1. gr. um náttúruauðlindirnar, sérstaklega í ljósi ummæla sem komu fram í Silfri Egils í gær um það hversu brýnt er fyrir íslensku þjóðina að hafa slík ákvæði. Erlendir greinendur og þekkingarmenn á sviði alþjóðlegra viðskipta og framferðis Bandaríkjastjórnar á fyrri tíð, sérstaklega gagnvart löndum Suður-Ameríku, segja beinlínis að útlendingar séu að ráðast á íslenska hagkerfið og markmið þeirrar árásar sé að ná yfirráðum yfir náttúruauðlindum og fjármunum Íslendinga. Hér setjum við fram ákvæði sem kemur í veg fyrir þá árás, er vopn í baráttunni.

Ég vildi líka spyrja hv. þingmann, fyrst hann er sammála 2. gr., um að færa breytingar á stjórnarskrá undir þjóðaratkvæði: Óttast hann ekki að þetta innihaldslausa málþóf muni koma í veg fyrir að við náum sáttum um það þýðingarmikla ákvæði?

Loks spyr ég hv. þingmann um afstöðu hans til 3. gr.