136. löggjafarþing — 128. fundur,  7. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er mjög ánægður að heyra að hv. þingmaður getur fallist á þetta. Ég ætlaði að spyrja líka um annað sem mikið hefur verið rætt hérna. Það er gert ráð fyrir því, reyndar í fylgiskjali með frumvarpinu, að þingmenn séu ekki kjörgengir á þetta stjórnlagaþing, þ.e. að búið sé að útiloka þann hóp manna til þess að vera á stjórnlagaþingi. Segjum að það yrði samþykkt, telur hv. þingmaður það standast jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar? Eru einhver málefnaleg rök fyrir því að segja að þingmaður sé vanhæfur til að sitja á stjórnlagaþingi eða dugar það eitt að hafa verið kjörinn á Alþingi til þess að banna manni að bjóða sig fram til stjórnlagaþingsins og væri hugsanlegt að menn mundu þá afsala sér tímabundið þingmennsku á meðan þeir sitja á stjórnlagaþinginu í stað þess að útiloka þá í að bjóða sig fram? Ég hygg að það mundu margir þingmenn hafa áhuga á því að taka þátt í stjórnlagavinnunni bara vegna eigin áhuga og það er dálítið hastarlegt ef þetta stjórnlagaþing er sett á laggirnar að þeir megi ekki taka þátt í þessari vinnu eftir það. (Gripið fram í: Brotin jafnræðisregla.)