149. löggjafarþing — 128. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[11:18]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta fjárhagsnefndar, annars vegar sem lýtur að breytingu á fjármálastefnunni og hins vegar tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlunina. Mig langar fyrst aðeins að nefna það að í fyrsta lagi erum við að ganga í gegnum þessar breytingar á fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar og í sjálfu sér er bara það eitt og sér alvarlegur áfellisdómur yfir hagstjórn ríkisstjórnarinnar. Þetta er stefna sem átti að duga í fimm ár en lifði í rúmlega eitt ár. Hið sjálfstæða fjármálaráð sem hæstv. fjármálaráðherra skipar sjálfur í hefur talað um veikleika í hagstjórn og skort á vönduðu verklagi. Samfylkingin tekur svo sannarlega undir þau orð og telur hagstjórn undir stjórn Sjálfstæðisflokksins fullreynda og í raun dýrkeypta fyrir venjuleg heimili og fyrirtæki í landinu.

Því til viðbótar, herra forseti, var margt af því sem hér er verið að bregðast við fullkomlega fyrirsjáanlegt. Við sögðum í fyrra úr þessum ræðustól, með leyfi forseta, um stefnuna sem nú er verið að breyta:

„Það er alveg ljóst að fjármálastefna ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur fær algjöra falleinkunn frá nánast öllum hagsmunaaðilum sem fjallað hafa um hana. Fjármálastefnan er sögð vera ógn við stöðugleikann, óraunsæ, ábyrgðarlaus, óvarfærin, ómarkviss, óljós, ósjálfbær, óskýr, ógagnsæ, aðhaldslítil, varasöm og ótrúverðug.“

Þetta var sagt um stefnuna í fyrra. Og nú er verið með þessum breytingum að bregðast við því sem við sögðum að þyrfti að taka mark á á þeim tíma sem stefnan var lögð fram. Það var að sjálfsögðu ekki gert.

Samtök iðnaðarins sögðu eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Ekkert land innan OECD hefur gengið í gegnum viðlíka sveiflu í raungengi krónunnar á mælikvarða launa og verðlags og hið íslenska síðastliðin 15 ár en raungengi krónunnar er mælikvarði á þróun samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum. Ekkert iðnvætt ríki hefur því boðið sínum fyrirtækjum upp á jafn mikinn óstöðugleika í samkeppnisstöðu á þessum tíma.“

Þetta segja Samtök iðnaðarins.

Alþýðusambandið sagði í umsögn sinni:

„… tvísýnt hvort að sú fjármálastefna sem hér er sett fram muni styðja við efnahagslegan og félagslegan stöðugleika á komandi árum sökum þeirra annmarka sem á henni eru.“

Og:

„Ekki er gerð grein fyrir því hvernig stefnan uppfylli grunngildin um sjálfbærni, varfærni, stöðugleika, festu og gagnsæi.“

Viðskiptaráð segir um stefnuna í fyrra:

„… efnahagsspáin sem fjármálastefnan byggir á er afar bjartsýn og gerir ráð fyrir fordæmalausu hagvaxtarskeiði. Vafasamt er að byggja grunnstef opinberra fjármála á svo bjartri sviðsmynd og ábyrgara væri að hafa vaðið fyrir neðan sig.“

Samtök iðnaðarins gengu meira að segja svo langt að segja að bæði útreikningar fjármálastefnunnar og efnahagsspáin væru óraunsæ og ótrúverðug. Fulltrúi Samtaka fjármálafyrirtækja kallaði stefnuna á fundi fjárlaganefndar draumsýn.

Þetta var sagt um stefnuna í fyrra. Ég er að opna á þetta í ljósi þess að það sem við erum að ganga í gegnum hér var fullkomlega fyrirsjáanlegt en ríkisstjórnin ákvað bara að hlusta ekki á þessa hagsmunaaðila, hvort sem þeir voru atvinnurekendamegin eða verkalýðsmegin. Það getur vel verið að ríkisstjórnin vilji ekki hlusta á stjórnarandstöðuna í þessum sal en af hverju ekki að hlusta á hagsmunaaðila í íslensku atvinnulífi sem bentu svo skýrlega, eins og hér hefur komið fram, á galla þeirrar stefnu sem ráðherra lagði fram í fyrra?

Hið sjálfstæða fjármálaráð gerði meira að segja 80 athugasemdir við fjármálastefnuna í fyrra og ábendingar um hana. Því er ekki hægt að segja að neitt hafi komið á óvart og sigldu ríkisstjórnarflokkarnir í raun meðvitað sofandi að feigðarósi. Þess vegna stöndum við frammi fyrir því að vera að breyta stefnu sem átti að duga í fimm ár en lifði í eitt ár.

Þetta er áhyggjuefni fyrir okkur öll, hvar sem við stöndum í pólitík. Við eigum að hlusta á sérfræðinga, hagsmunaaðila og hvert annað. Við eigum ekki að vera svo föst í skotgröfunum, bundin á klafa flokkshollustunnar að það byrgi okkur sýn. Þessi stefna, fjármálastefnan, byggðist á samfelldum hagvexti í 13–14 ár sem hefur nánast aldrei gerst í Íslandssögunni. Af hverju ætti það að gerast núna? Þetta sögðum við í fyrra. Hvernig getur ykkur dottið í hug að hér verði samfelldur hagvöxtur í 13–14 ár? Það er ágætt bara að skoða hagsöguna. Ég held að það standi meira að segja í Biblíunni að það komi sjö góð ár og sjö mögur. Hagsveiflan er þannig, sérstaklega með bleika fílinn sem er íslenska krónan sem ýkir allar sveiflur og er í raun orsakavaldur sveiflunnar en ekki góð afleiðing sveiflunnar eins og sumir hafa talað um, hún ýkir og býr til sveifluna.

Núna er hagvaxtarskeiðinu lokið, alveg eins og við sögðum fyrir einu ári. Samdráttur er hafinn. Landsframleiðslan er að dragast saman. Í raun erum við að tala um mesta viðsnúning í hagkerfinu í tæp 30 ár, að hruninu undanskildu. Sveiflan er um 100 milljarðar kr. til hins verra og versnar afkoma hins opinbera um 40 milljarða í ár og á hverju ári um 40–46 milljarða næstu fimm árin ef við bregðumst ekki neitt við, að öllu óbreyttu. Til að setja þessa tölu í smásamhengi, til að sýna hversu mikið högg þetta er, hversu mikill viðsnúningurinn er, væri hægt að afnema krónu á móti krónu skerðingu hjá öryrkjum þrisvar sinnum fyrir þessa upphæð. Við gætum sexfaldað fjármuni í loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar, við gætum fjórfaldað allt barnabótakerfið og við gætum tvöfaldað alla fjármuni sem Ísland ákveður að setja í háskóla. Þennan viðsnúning má rekja til ríkisstjórnarinnar, m.a. vegna slæmrar hagstjórnar, og þess að hún hafi ekki hlustað á varnaðarorð fjölmargra hagsmunaaðila. Ég átta mig á að margt í umhverfinu er ekki ríkisstjórninni að kenna, það er ekki henni kenna að hér varð loðnubrestur, en það er margt ríkisstjórninni að kenna. Ríkisstjórnin er ekki lengi að þakka sér ef vel gengur. Ætti hún þá ekki líka að taka einhverja ábyrgð þegar illa gengur? Þetta virkar í báðar áttir, herra forseti.

Þótt ég sé að tala um stóru línurnar og fjalla um fjármálastefnuna en ekki fjármálaáætlun, hún kemur á eftir, helst þetta tvennt að sjálfsögðu í hendur. Ég mun fjalla um það á eftir. Það er alveg ljóst að í þeim samdrætti sem ég lýsi hér eru höggin látin dynja á öryrkjum, skólum, sjúkrahúsum, heilsugæslu, umhverfismálum, nýsköpun og þróunarsamvinnu o.s.frv. í meðförum þingsins. Það er það sem ég hef verið að gagnrýna. Af hverju þurfum við að leita til þessara aðila, þessara stofnana, þessarar þjónustu til að mæta niðursveiflunni? Því auðvitað þurfum við að mæta henni með einhverjum hætti og ég mun fara yfir það hvernig við getum gert þetta öðruvísi. Við þurfum ekki að lækka fjárframlög til framhaldsskólans um rúman milljarð samanlagt á fimm árum miðað við fjármálaáætlunina frá í mars. Við þurfum ekki að lækka fjárframlög til öryrkja um 4,5 milljarða samanlagt næstu fimm árin miðað við framlagða fjármálaáætlun þessarar sömu ríkisstjórnar. Við þurfum ekki að gera það, herra forseti.

Stefnan er ekki einungis birtingarform stefnumörkunar stjórnvalda, hún þarf líka að vera raunsæ. Á það hefur verið bent að raunsæi er ekki eitt grunngilda laganna um opinber fjármál en fjármálaráð og fleiri umsagnaraðilar hafa einmitt bent á að mjúkar lendingar eru oft undantekning fremur en regla í íslensku efnahagslífi.

Ég hef áhyggjur af að forsendur stefnunnar séu enn of bjartsýnar. Kíkjum aðeins á þær. Ég veit að ráðherrann hefur sagt að hann þurfi að fara eftir þjóðhagsspá Hagstofu Íslands en samkvæmt 8. gr. laganna getur hann litið til annarra hagspáa. Það er ánægjulegt að meiri hluti fjárlaganefndar auki hið svokallaða óvissusvigrúm, er að taka aðeins undir það að forsendur fjármálastefnunnar séu hugsanlega aðeins of bjartsýnar. Það má hafa til hliðsjónar fleiri spár en þjóðhagsspá Hagstofunnar samkvæmt lögum.

Lítum aðeins á forsendurnar. Það er ekkert gaman að vera boðberi válegra tíðinda en ég óttast að niðursveiflan verði meiri og dýpri en hér er gert ráð fyrir. Af hverju segi ég það? Vegna þess að forsendurnar eru svo veikar.

Forsenda eitt: Gert er ráð fyrir að gengi íslensku krónunnar eigi að haldast nánast óbreytt næstu fimm árin. Í hvaða heimi er það að fara að gerast þegar við erum með einn sveiflukenndasta gjaldmiðil innan allra OECD-ríkjanna? Gengi krónunnar er ekkert að fara að haldast óbreytt næstu fimm árin.

Forsenda tvö: Verðbólgan á að vera svipuð og spáð hafði verið. Það er því miður ekki að fara að gerast, enda sjáum við bara að gengi krónunnar hefur lækkað um 13% á einu ári. Hvað þýðir það? Þá hækkar allt innflutt. Við flytjum svo mikið inn. Við flytjum inn vörur sem við nýtum hér af því að við framleiðum að sjálfsögðu ekki allt. Það er ákveðin meginregla að ef það er 12–13% fall á genginu fer sirkabát einn þriðji í verðbólguna á einhverjum tíma. Það hefur ekki gerst en þetta er það sem ég hef áhyggjur af, að gengisfall smitist út í verðlag. Það hækkar verðbólgu — og hvað gerist ef verðbólgan hækkar? Þá þarf Seðlabankinn að nota sitt tæki sem er vextirnir og gera peninga dýrari. Þetta helst allt í hendur og alltaf komum við aftur að krónunni sem er svo skelfilegur gjaldmiðill fyrir íslenska þjóð.

Forsenda þrjú: Hagvöxtur á að taka mjög fljótt við sér, þ.e. vöxtur í landsframleiðslunni. Ég er líka frekar svartsýnn á að það sé að fara að gerast.

Forsenda fjögur: Atvinnuleysi samkvæmt spánni og samkvæmt forsendum stefnunnar á að breytast lítið frá fyrri spám, aðeins að aukast, en við sjáum að einungis í mars urðu 1.600 manns atvinnulausir. Þetta samsvarar því að allur vinnumarkaðurinn Ísafirði myndi missa vinnuna á einu bretti. Ég óttast að atvinnuleysi verði því miður meira en hér er gert ráð fyrir. Hvert prósentustig í atvinnuleysi er rándýrt, fyrir utan hinn mannlega harmleik sem felst í því, en hvert prósentustig kostar 6,5 milljarða, herra forseti.

Við sjáum sömuleiðis að það er ekki búið að loka öllum kjarasamningum en áhrifin af svokölluðum lífskjarasamningum á launavísitölu eru einungis 0,9% hækkun fyrir árið 2020 frá því sem áætlað var. Það vekur reyndar talsverða athygli, hve lítil áhrifin eru af lífskjarasamningunum á fjármálaáætlunina sem var kynnt mánuði á undan samningunum. Bæði Hagstofan og fjármálaráð tóku það sérstaklega fram að þessir kjarasamningar hefðu lítil áhrif á áætlun sem þá þegar hafði verið kynnt.

Forsenda fimm: Olíuverð á ekki að breytast næstu fimm árin. Það mun auðvitað ekki gerast. Auðvitað veit ég að erfitt er að spá fyrir um marga þessa hluti en til þess eru spáaðilarnir, við eigum ekki að rugla saman áætlunum og spám. Það getur verið einhver áætlun að verðbólgan fari ekki úr böndunum og atvinnuleysi verði lágt, en við þurfum raunsæjar spár. Á þeim byggjum við okkar stefnu.

Greiningaraðilar og fjármálaráð telja einmitt að samdrátturinn verði hugsanlega meiri og meira langvarandi en þjóðhagsspá gerir ráð fyrir. Ég er frekar svartsýnn, ég held að sagan sýni að við eigum að vera það. Það eru ekki margar góðar fréttir fram undan, því miður, herra forseti, ef litið er á stóru línurnar. Auðvitað vonum við samt það besta.

Herra forseti. Ég tek fram að það er alveg ljóst að tekjustofnar ríkisins — og við höfum lengi sagt þetta í Samfylkingunni og verið alveg ófeimin við það; ég hef rifið mig hásan um skatta í þessum sal og er alveg til í að gera það aftur — hafa á undanförnum árum verið veiktir. Það dregur úr aðhaldi ríkisfjármálanna og það minnkar verulega svigrúm til nauðsynlegra velferðarumbóta.

Við þurfum að afla tekna til að fjármagna velferðina, framtíðina, skólakerfið o.s.frv. Við eigum að leggja byrðarnar á það fólk sem hefur breiðust bökin. Það eru til breið bök í þessu samfélagi. Ég er alls ekki að tala um hækkun skatta á venjulegt fólk og venjuleg fyrirtæki, en hér eru tækifæri til að afla tekna án þess að þrengja um of að á tímum niðursveiflu til að verja einmitt velferðarkerfið og menntakerfið. Það er hægt. Ég hef velt fyrir mér og kem aðeins inn á það á eftir hvort það sé sérstök ástæða hjá þessari ríkisstjórn til að hafa veiðileyfagjaldið, gjald sem er aðgöngumiði að einum bestu fiskimiðum jarðar, álíka hátt í upphæðum og tóbaksgjaldið. Ég hef sagt þetta áður í þessum sal. Tóbaksgjald er gjald sem við setjum á sígarettur sem u.þ.b. 8–9% af þjóðinni reykja.

Er raunverulega ástæða til að hafa lægsta fjármagnstekjuskatt allra Norðurlandanna? Er í raun og veru ástæða til að setja lækkun bankaskatts í forgang? Það er enn þá. Ég veit að lækkuninni var frestað um eitt ár en þetta eru 8 milljarðar sem ríkið gæti nýtt sér á tímum samdráttar, herra forseti. Og af hverju megum við ekki taka dýpri umræðu um stóreignaskatt, auðlegðarskatt eða hvað sem menn vilja kalla þetta á sama tíma og eignaójöfnuður er talsverður á Íslandi? Á sama tíma á 1% ríkustu Íslendinganna meiri hreinar eignir en 80%.

Fjármálaráð, sjálfstætt ráð sérfræðinga, hefur áður vakið sérstaklega athygli á því að þessir tekjustofnar, skattarnir, hafa verið veiktir á undanförnum árum.

Við í Samfylkingunni höfum ítrekað talað fyrir efnahagslegum stöðugleika. Auðvitað skattleggjum við okkur ekki upp úr þessari kreppu, ég er ekkert að tala um það. Ég frábið mér að þingmenn komi upp í pontu eins og þeir hafa áður gert og tali um að ég ætli að skattleggja allt til dauða. Ég er ekkert að tala um það. Ég er að tala um að hækka auðlindagjöld, já, ég er að tala um að hækka fjármagnstekjuskattinn, já, sem „targetar“ best þá sem eiga mest. Ég er að tala um að fresta lækkun bankaskatts og ég er að tala um auðlegðarskatt. Þetta er ekki skattur á venjulegt fólk. Það er ekkert venjulegt fólk sem greiðir auðlegðarskatt, hæstv. ráðherra, það er mjög þröngur hópur sem greiðir auðlegðarskatt. Hjón þyrftu að eiga 120 milljónir í nettóeign. Hugmyndir Samfylkingarinnar ganga mun skemur hvað þetta varðar. Það er talað um 200 milljónir jafnvel, fólk sem á 200 milljónir í hreina eign getur lagt meira af mörkum.

Fjármagnstekjuskatturinn okkar — bara 2% fjölskyldna í landinu greiddu fjármagnstekjuskatt af söluhagnaði hlutabréfa. Við erum með frítekjumark vegna fjármagnstekjuskatts og það hreinsar út langflesta sem fá einhverjar fjármagnstekjur þannig að við getum „targetað“ þá sem eiga mest til að fjármagna það sem við öll segjumst vera sammála um, a.m.k. í aðdraganda kosninga, herra forseti. Þetta er bara það sem við þurfum að ræða og við þurfum að ræða það næstu misserin því að núna kreppir að. Núna verður erfitt fyrir þessa ríkisstjórn næstu árin því að nú eru peningarnir búnir og þá reynir á pólitíkina. Hverjir munu taka höggin? Hverjir munu taka á sig meiri byrðar? Er ekki allt í lagi að það sé stórútgerðin frekar en öryrkjar? Er ekki allt í lagi að það séu fjármagnseigendur frekar en námsmenn? Er það ekki stóreignafólk frekar en sjúklingar eða þeir sem nýta sér bara velferðarþjónustuna sem við höldum úti og erum flest stolt af, ef ekki öll?

Núna í þessum sal verða ákvarðanirnar fyrst erfiðar.

Mig langaði aðeins að hoppa yfir í fjármálaáætlunina. Ég hef verið krítískur á hana og ætla svo sem ekki að endurtaka það nema að hluta. Ég mun koma niðurskurðartillögunum að milli umræðna á eftir en ég hef líka heyrt í umræðunni að ríkisstjórnin auki útgjöld til allra málaflokka. Ég er ekki að tala um breytingartillögurnar eða neitt svoleiðis. Það er ekkert rétt. Af 35 málefnasviðum — hérna geta þingmenn séð allt þetta rauða hérna, þetta eru málefnasvið sem fá minni pening eftir fimm ár en núna, fá minna fjármagn 2024 en 2020. Það er allt þetta rauða. Þetta eru 17 málefnasvið af 35, helmingurinn. Það er ekki rétt sem ég hef heyrt að við séum að ýta að öllum sviðum. Auðvitað er aukning sums staðar. Að sjálfsögðu veit ég það. Þetta er bara fylgiskjal sjö, tafla frá hæstv. ráðherra. Þar erum við að setja minni pening ef við berum saman 2020–2024. Þetta er afskaplega skýrt.

Tökum bara nokkur dæmi. Við munum setja minna í lögguna eftir fimm ár en núna. Við munum setja minna í samgöngumál eftir fimm ár en núna. Við munum setja minni fjármuni í menningu, listir, íþrótta- og æskulýðsstarf 2024 en 2020. Við setjum eiginlega sömu tölu í framhaldsskólana. Ég þreytist ekki á að flagga því, þið munið, ég veit að framhaldsskólinn var styttur, það fór ekki fram hjá mér, en styttingarpeningarnir áttu að haldast. Þeir áttu að haldast og það átti líka að koma menntasókn. Það er engin menntasókn þegar sama talan fer í framhaldsskólana í heild sinni 2020 og 2024. Það er bara verið að halda styttingarpeningunum, eða hvað við viljum kalla þá.

Hérna er áhugaverður punktur: Við erum að setja minna í hjúkrunarheimilin 2024 en 2020 þrátt fyrir öldrun þjóðarinnar og mikla þörf. Við erum að setja minna í húsnæðisstuðninginn eftir fimm ár en núna. Svo eru aðrir flokkar hérna.

Þetta eru 17 málefnasvið af 35 þannig að það er ekki rétt að segja: Já, við erum að spýta í á öllum sviðum, við erum bara að spýta aðeins minna í en við ætluðum. Þetta er skýrt.

Tökum nokkra punkta sem ég er með hérna, ég ætla að fara svolítið hratt yfir. Húsnæðisstuðningurinn lækkar um 13% næstu fimm árin. Nr. 2, nýsköpunin fær samanlagt 3,2 milljarða lækkun næstu fimm árin frá því sem eldri tillaga að fjármálaáætlun hafði gert ráð fyrir. „For the record“, til að vera skýr: Hér er lögð fram fjármálaáætlun í mars. Í meðförum þingsins er ákveðið að lækka, draga úr, skera niður fyrirhugaða fjármuni til þessara málaflokka. Það er verið að skera niður í það sem var búið að ákveða og kynna í fjármálaáætluninni, þ.e. í fjárlögum. Þegar fjárlög koma hækkum við sumt og lækkum annað. Hér er verið að lækka milli umræðna, biðja þingið um að lækka tölurnar sem hæstv. ráðherra vildi setja í málaflokkana fyrir tveimur og hálfum mánuði. Það er það sem ég er svo krítískur á. Ég veit að menn hafa tapað sér yfir orðinu niðurskurður. Ég ætla ekkert að hjakka á því, ég vil undirstrika það. Ég hef aldrei talað um að hér séu bætur til öryrkja að lækka. Ég hef aldrei sagt það. Ég hef verið ótrúlega nákvæmur í hverju einasta atriði, í viðtali og á Facebook-statusum sem ég hef sagt um þetta. Það er verið að lækka frá því sem hafði verið fyrirhugað í framlagðri fjármálaáætlun. Það er ekki hægt að hrekja þetta, frú forseti.

Varðandi nýsköpun er verið að bæta aðeins í niðurskurðinn eða lækkunina eða hvað sem menn vilja kalla það.

Í þriðja lagi eru umhverfismálin sem eru mál málanna í dag. Það á að lækka framlag til þeirra um 1 milljarð samanlagt næstu fimm árin. Jú, ráðherra (Fjmrh.: Framlögin hækka.) — Ókei, ég er að tala um breytingartillöguna við áætlunina þína frá því í mars. (Fjmrh.: Framlögin hækka.) Þið eruð að ætlast til þess, hæstv. ráðherra, að lækka það sem þið vilduð setja í umhverfismálin fyrir tveimur og hálfum mánuði. (Fjmrh.: Þau hækka um 24% að raungildi.) Já, ókei, gott og vel (Gripið fram í.) en þið eruð að draga saman …

(Forseti (BHar): Þingmaðurinn hefur orðið.)

Ég gat eiginlega ekki verið skýrari hérna áðan. En gott og vel, ég er að tala annars vegar um breytingartillögur ríkisstjórnarinnar sem voru skelfilegar og síðan komu breytingartillögur nefndarinnar sem voru skárri — en stundum voru þær aðeins verri. Þá er verið að lækka fjárframlög til þessara málaflokka frá því sem var í áætluninni fyrir tveimur og hálfum mánuði.

Framhaldsskólarnir fá 1,2 milljarða lægri upphæð samanlagt næstu fimm árin miðað við framlagða fjármálaáætlun frá því í mars. Ég er alltaf að tala um það þannig að þið getið ekki fært umræðuna eitthvert annað.

Háskólastigið, það er fróðlegt. Það er blússandi menntasókn að mati ráðherrans þar. Ef við skoðum háskólastigið — og ég hvet þingmenn til að skoða það aftarlega í fjármálaáætluninni. Háskólastigið án framlegðar LÍN, eins og var tekið fram í fjármálaáætluninni, fær svipaða upphæð 2024 og 2019. Þetta er svolítið áhugavert. Ef við tökum LÍN út fyrir, sem er gert í áætluninni, ég er ekki að búa þetta til ef menn halda það, ég er ekki að búa til neitt hérna, ef LÍN er tekið frá fær háskólastigið svipaða fjármuni núna og 2024. Þetta kom mér svolítið á óvart. Fer öll aukningin í LÍN? Það getur vel verið, en ég hélt að hér ætti að spýta hressilega í háskólastigið.

Menning og listir, æskulýðsmál og íþróttamál lækka á áætlunartímanum um 7,6%. Þetta er eitt af þessum rauðu málefnasviðum sem ég gat um áðan.

Löggæslan og réttaröryggi lækkar, annað af rauðu málefnasviðunum.

Sjúkrahúsþjónustan hækkar, fyrr má nú vera. Sumt hækkar að sjálfsögðu, ég er ekki að segja að ekki neitt hækki. Sjúkrahúsþjónustan er hins vegar beðin um að fá minni fjármuni en hún gerði ráð fyrir í marsútgáfu áætlunarinnar. Þarna munar um 2 milljörðum og hér hefur sagt að verið sé að fresta fjárfestingum. Gott og vel ef svo er en ég minni engu að síður á að við síðustu fjármálaáætlun, frá því í fyrra, taldi Landspítalann sig þurfa 87 milljarða. Ég held að það hafi komið okkur öllum í nefndinni svolítið á óvart. Landspítalinn sagði í sinni umsögn að hann þyrfti 87 milljarða til viðbótar samanlagt til 2023 við fjármálaáætlun í fyrra. Auðvitað veit ég að þörfin er mikil þar og henni verður kannski aldrei mætt.

Aðeins um öryrkjana. Fjárframlög til öryrkja á næstu árum eru núna lækkuð samanlagt um 4,5 milljarða frá því sem hafði verið kynnt þegar fjármálaáætlun var fyrst lögð fram. Það eru pólitísku tíðindin. Það er verið að lækka fyrirhugaða fjármuni. Málasviðið er búið að fá aukningu, ég átta mig alveg á því, ég kann að lesa línurit, en þið eruð að draga úr fyrirhuguðum fjármunum til öryrkja. Þetta er ein stærsta talan þegar við skoðum annars vegar breytingartillögur ríkisstjórnarinnar og hins vegar nefndarinnar. Og hvað sagði formaður Öryrkjabandalagsins? Hún skrifaði svona, frú forseti, um breytingartillögur ríkisstjórnarflokkanna:

„Hvernig getið þið gert þetta?

Hér er jaðarsettasti og fátækasti samfélagshópurinn látinn taka á sig enn meiri skerðingar. Það er óásættanlegt að öryrkjar og fatlað fólk eigi enn eina ferðina að taka á sig þyngsta höggið.“

Þetta segir formaður ÖBÍ því að hún áttar sig á því að ef málaflokkurinn öryrkjar átti að fá 4,5 milljörðum meira fyrir tveimur og hálfum mánuði skiptir það máli. Það er mjög sérkennilegt, eins og ég hef heyrt, m.a. frá formanni fjárlaganefndar, að segja að öryrkjar muni ekki finna neitt fyrir þessu. Það finnur enginn fyrir niðurskurðartillögunum milli umræðna af því að við erum að auka hvort sem er. Ef það var búið að ákveða, frú forseti, að öryrkjar ættu að fá 4,5 milljörðum meira fyrir tveimur mánuðum og það er tekið af núna í meðförum þingsins, af hverju halda menn að öryrkjar finni ekki fyrir því? 4,5 milljarðar eru miklir peningar. Menn hafa talað svolítið um að þetta skipti engu máli, það sé hvort sem er almenn aukning. Þetta skiptir máli. Fyrir tveimur og hálfum mánuði voru þessir flokkar tilbúnir að setja 4,5 milljörðum kr. meira til öryrkja. Svo er það ekki lengur tilfellið af því að það þarf að bregðast við samdrættinum í hagkerfinu. Ég velti því fyrir mér af hverju það sé gert hérna, frú forseti.

Hjúkrunarþjónustan lækkar næstu fimm árin, eins og ég gat um áðan, eitt af rauðu málefnasviðunum, um 3,3%. (Gripið fram í: Lækkar?) Já, lækkar. Þetta eru töflur frá ykkur, frú forseti, kíkið á fylgiskjal sjö.

Ég vil líka flagga einu hérna vegna þess að heilbrigðisráðherra hefur talað um að hér eigi að opna 550 ný hjúkrunarrými. Það er gott, enda fögnum við því, en það kom fram hjá fjárlaganefnd að þetta er ekki fjármagnað nema í tvö ár. Á að loka þessum rýmum eftir tvö ár? Við erum að tala um fjármálaáætlun til fimm ára þannig að hér þarf að bregðast við.

Vaxtabæturnar eru nánast horfnar hjá þessari ríkisstjórn. Ég fór að rifja upp að núgildandi fjárlög gera ráð fyrir minni fjármunum í vaxtabætur en voru áætlaðir á síðasta ári, frá 3 milljörðum eða eitthvað svoleiðis. Samgöngumálin eru að lækka. Ef við skoðum það kemur aukning í samgöngumálin 2020–2021 og svo lækkar það. Það lækkar næstu fimm ár ef við berum saman hvernig þróunin verður 2024 og 2020, um 17%. Það vekur athygli að í breytingartillögunum er 3 milljarða kr. lækkun frá því sem áætlunin gerði fyrst ráð fyrir.

Þróunarsamvinnan, svið þar sem við stóðum okkur ekkert frábærlega í til að byrja með, á að lækka í meðförum þingsins um 1,8 milljarða samanlagt næstu fimm árin.

Ég kom aðeins inn á skattstefnuna áðan. Ég ætla þá ekki að fara í hana aftur.

Mig langar að nefna tvo aðra punkta í gagnrýni minni. Ég er búinn að fara yfir forsendurnar. Það er áhugavert að skoða samneysluna því að hún lækkar lítillega sem hlutfall af landsframleiðslu. Það kemur kannski einhverjum á óvart. Hún lækkar pínulítið næstu fimm árin samkvæmt fjármálaáætluninni. Ég veit að landsframleiðslan eykst á sama tíma en sem hlutfall af landsframleiðslu stendur hún nánast í stað. Hún lækkar pínulítið þrátt fyrir miklar yfirlýsingar um aukna samneyslu hins opinbera, opinbera innviði og öldrun þjóðarinnar, neyslu hins opinbera.

Frú forseti. Tíu sinnum er að finna orðið „spennitreyja“ í umsögn fjármálaráðs um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar. Það segir sína sögu þegar kemur að gagnrýni þessa sjálfstæða ráðs sem ráðherra sjálfur skipar. Fjármálaráð hefur sérstaklega varað við þeirri spennitreyju sem ríkisvaldið hefur sett sig í og hefur það raungerst að þeirra mati.

Ég ætla að fara örlítið í einstaka hluti. Ég var aðeins búinn að fara yfir kjaramálin og aukið atvinnuleysi. Ég var aðeins búinn að flagga því áðan og ég held að það komi einhverjum á óvart þegar ég segi að almennt séð hafa launahækkanir lífskjarasamninganna nánast engin áhrif á nýja þjóðhagsspá, ég minntist aðeins á þetta áðan, og nánast engin áhrif á framlagða fjármálaáætlun frá því í mars. Segir það sína sögu um innihald þessara samninga.

Áhrif lífskjarasamninga eru nánast engin á verðlag að mati Hagstofunnar og segir það líka sína sögu um þá. Seðlabankinn metur að viðbótin vegna skattbreytinga og barnabóta vegna samninganna verði einungis 3 milljarðar frá því sem hafði verið í áætluninni sem var kynnt á undan lífskjarasamningunum. Þegar kemur að launum opinberra starfsmanna — það þarf að ljúka þeim kjarasamningum — er bara gert ráð fyrir í þessu plaggi sem við erum að fara að afgreiða seinna í dag að laun opinberra starfsmanna hækki einungis um 0,5% umfram verðlag 2020–2024. Það verður fróðlegt að sjá hvort samningar við opinbera starfsmenn verða með þeim hætti.

Það er verið að fjalla um að af þessu leiði að verði árleg kaupmáttarþróun ríkisstarfsmanna umfram 0,5% á tímabilinu, sem er langt undir sögulegu meðaltali, sé ráðuneytum gert að mæta því með aðhaldi. Hvað gerist þegar ríkisstofnanir þurfa að mæta einhverju með aðhaldi? Þá þarf að skerða opinbera þjónustu fyrst og fremst eða mæta með einhvers konar hagræðingaraðgerðum. Auðvitað veit ég vel að það er hægt að hagræða á ýmsum stöðum en þetta getur orðið mjög sársaukafullt, frú forseti.

Aðeins um hagstjórnina. Ég kom aðeins inn á það áður og ég vil taka fram að þótt þessi ríkisstjórn vilji kannski ekki taka mark á mér ætti hún að taka mark á fjármálaráði. Það fyrirbæri hefur áður gagnrýnt að það sé verið að veikja þessa tekjuhlið og minnka þar af leiðandi aðhald opinberra fjármála. Aðhald er ekki bara að skera niður eins og sumir hægri menn halda. Það er líka hægt að mæta aðhaldi með auknum tekjum, eins og ég gat um áðan. Ég hef talsverðar áhyggjur af hagstjórninni sem birtist í þessari fjármálaáætlun, að það sé verið að boða lækkun og að undanfarin ár hafi sumir skattar verið lækkaðir, sérstaklega skattar hinna efnameiri og banka, bankaskattur á að lækka, og síðan hafa útgjöld á sumum sviðum verið aukin þó að innviðafjárfesting á öðrum sviðum hafi verið vanrækt. Það fer illa saman að lækka ákveðna skatta og auka opinber útgjöld sums staðar en ekki þarna. Ég hef oft sagt að auðvitað gerum við ekki allt fyrir alla. En það er eins og vanti svolítið skynsemina í hagstjórninni og ég held að við séum svolítið að súpa seyðið af því.

Ég hef áhyggjur af að þessi slæma hagstjórn Sjálfstæðisflokksins auki eignaójöfnuð. Ég veit að tekjujöfnuðurinn er talsverður hér en eignaójöfnuður er talsverður. Ég held að þessi hagstjórn leiði til þess að vextir muni hækka og þá endar það þannig að íslenskur almenningur sýpur seyðið af þessari stefnu. Það er alltaf almenningur sem borgar brúsann. Ég hef átt orðaskipti við hæstv. fjármálaráðherra um gengisfellingar sem eru skelfilegt hagstjórnartæki. Með gengisfellingu minnkar virði gjaldmiðilsins og þá erum við að færa fjármuni frá venjulegum fyrirtækjum og fólki til útflutningsgreinanna, sjávarútvegsins eða ferðaþjónustunnar. Það er gríðarlegur flutningur fjármuna með gengisfellingu, fyrir utan óhagræðið af óstöðugleikanum í sjálfu sér. Ég hef alltaf verið ósammála þeim sem tala um að það sé mikill kostur við krónuna að hún sveiflist í takt við hagsveifluna. Hún býr til hagsveifluna og hún flytur fjármuni frá fólki til ákveðinna útflutningsfyrirtækja í landinu þegar hún fellur.

Ég hef lengi aðhyllst, og ég held að margir geri það, að í núverandi niðursveiflu eigum við eða dusta rykið af kenningum Keynes um hlutverk hins opinbera í sveiflujöfnun. Núna þegar eftirspurnin dregst saman hjá einkaaðilum eigum við að spýta í á sumum sviðum. Það verður erfiðara, það eru minni peningar í veskinu, en það getur hins vegar verið skynsamlegt hagstjórnarlega séð að auka opinberar fjárfestingar og innviði og jafnvel þjónustu, það getur til lengri tíma borgað sig við svona aðstæður, frú forseti. Meira að segja Viðskiptaráð sem er kannski almennt séð aðeins til hægri, a.m.k. við mig, segir í sinni umsögn um þessa áætlun, með leyfi forseta:

„Þannig væri óheppilegt og myndi dýpka niðursveifluna að ráðast í verulegar aðhaldsaðgerðir nú til að ná fram afgangi í ár og jafnvel næsta ári í samræmi við fjármálastefnu.“

Ég held að nefndin og meiri hlutinn séu að bregðast við þessu að hluta til.

Ef ég færi í einstaka liði færi ég að endurtaka mig en eins og má sjá í nefndaráliti minni hluta er farið um víðan völl, um barnabætur, vaxtabætur, aldraða og öryrkja, og menntamálin ekki síst. Ég hef fundið heilmikil göt í þessari svokölluðu menntasókn. Mig langar að lokum að fara aðeins í tillögur okkar og skattamálin. Ég veit að það er alltaf svo spennandi fyrir hægri menn að spyrja mig um skatta því að þeir virðast svo hræddir við skatta, eins og þeir viti ekki að það eru skattar sem greiða laun þeirra og öll þeirra eigin kosningaloforð.

Samfylkingin mun leggja fram breytingartillögu við þessa fjármálaáætlun og við gerum það með tvenns konar hætti. Við fjárfestum í framtíðinni og við verjum velferðina. Hvernig gerum við þetta? Við ætlum að tvöfalda það fjármagn sem fer í loftslagsmál sé borið saman við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Við ætlum að leggja áherslu á grænar fjárfestingar og uppbyggingu umhverfisvænna innviða. Þetta er stærsta breytingartillagan okkar núna. Við erum ekki að leggja fram fullmótaða fjármálaáætlun en þetta eru áhersluatriði sem við viljum draga fram í þennan sal með breytingartillögu um fjármálaáætlun, að setja meiri fjármuni í loftslagsmál, málefnasviðið sem loftslagsmál heyra undir.

Númer tvö og þrjú: Við viljum setja aukna fjármuni í framhaldsskóla og háskóla. Við viljum draga til baka fyrirhugaða lækkun ríkisstjórnarinnar á fjárframlögum til framhaldsskóla miðað við framlagða fjármálaáætlun. Við viljum gera það sama varðandi nýsköpun, rannsóknir og þekkingargreinarnar og við viljum einnig auka í húsnæðisstuðninginn, ekki að hann lækki næstu fimm árin eins og gerðist. Hann er að lækka í krónutölum, aftur fylgiskjal sjö. Við viljum fjárfesta í framtíðinni hvað þetta varðar.

Í öðru lagi erum við með yfirskriftina: Verja velferðina. Við viljum að sjálfsögðu draga til baka þessa 4,5 milljarða kr. lækkun á fimm árum miðað við marsútgáfuna. Við viljum tvöfalda það sem ríkisstjórnin leggur til að setja til öryrkja, þessa 4 milljarða, vegna þess að þessir 4 milljarðar duga bara í u.þ.b. einn þriðja af afnámi krónu á móti krónu. Við tókum einmitt einhver skref hvað það varðar í vikunni.

Við viljum setja fjármuni til aldraða og í barnabætur en við viljum einnig, þetta er lítil breytingartillaga, setja aukna fjármuni í fæðingarorlof með áherslu á að fæðingarstyrkur aukist. Það gleymist stundum í umræðunni en fæðingarstyrkur rennur til foreldra sem eru utan vinnumarkaðar eða í námi. Þetta er 75.000-kall á mánuði eða kannski 100.000-kall þannig að við viljum reyna að fá það í umræðuna að þetta er hópur sem þyrfti að huga sérstaklega að.

Þá viljum við setja fjármuni í sjúkrahúsþjónustu og heilsugæslu.

Þetta eru breytingartillögur upp á 23 milljarða, hvorki meira né minna, sem við viljum setja á þessum tímapunkti sem við teljum vera rétt, ekki síst í ljósi hagsveiflunnar. Þetta eru að stærstum hluta fjárfestingar en líka erum við að stoppa þarna í götin og verja þá hópa sem eiga ekki að taka stærstu höggin í samdrættinum. Við erum líka með hugmyndir um hvernig við ætlum að fjármagna þetta. Við þurfum ekki að samþykkja breytingartillögur ríkisstjórnarinnar um að lækka fjárframlögin milli umræðna til framhaldsskóla, öryrkja, sjúkrahúsa, umhverfismála, nýsköpunar og þróunarsamvinnu. Við getum farið aðra leið með því að afla tekna.

Þetta eru atriði sem ég kom svo sem inn á áðan. Þetta eru auðlindagjöldin, veiðileyfagjöldin. Veiðileyfagjöldin eru orðin minni en 1% af tekjum ríkisins. Þetta er meginauðlind þjóðarinnar, sem þjóðin á samkvæmt lögum, ríkið sem eigandi eða í forsvari eigenda, þjóðin á þetta, fær minna en 1% af heildartekjum sínum af veiðileyfagjöldum. Ég frábið mér allan málflutning um að við ætlum að drepa einhverjar litlar útgerðir. Umræðan snýst alltaf um það um leið og ég opna munninn um veiðileyfagjöld: Ja, ætlar hann að drepa litlu útgerðirnar úti á landi? Nei, ég ætla ekki að drepa litlu útgerðirnar úti á landi. Hér eru mjög öflug fyrirtæki í sjávarútvegi sem ég er stoltur af og ánægður með sem geta lagt meira af mörkum. Það er það sem ég er að tala um. Ég vil hafa öflugan sjávarútveg. Það á ekki að koma nokkrum manni á óvart í þessum sal. Ég gleðst þegar sjávarútveginum gengur vel en mér finnst bara sanngjarnt að hann leggi aðeins af mörkum í ljósi þess að hann nýtir sér sameiginlega auðlind þjóðarinnar. Þetta er ekkert flókið, en ég vil að hann dafni og vaxi og skili góðum arði til sinna eigenda, en eigandi auðlindarinnar, þjóðin, má ekki sitja eftir.

Ég hef nefnt hér fjármagnstekjuskattinn en með því að hækka hann um 2 prósentustig myndi hann hækka um 3 milljarða. Þó að við myndum gera það værum við samt með lægsta fjármagnstekjuskatt af öllum Norðurlöndunum.

Við leggjum til að kolefnisgjaldið hækki en allar ríkisstjórnir í heimi og auðvitað þessi ríkisstjórn líka hafa tekið nokkur skref hvað það varðar að innleiða mengunarskatta. Mengun á Íslandi er allt of ódýr. Við eigum að nota fjárhagslega hvata til að vinna gegn hamfarahlýnun og loftslagsbreytingum. Það er leiðin. Nýtum okkur lögmál hagfræðinnar og viðskiptanna í baráttu okkar gegn mengun og hamfarahlýnun. Það er leiðin. Hugsum „Cap and Trade“-kerfi, framseljanlegar losunarheimildir. Nýtum mengunarskatta. Þeir eru í sjálfu sér einu hagkvæmu skattarnir, ef svo má segja, í því ljósi. Aðrar tillögur hef ég svo sem nefnt, herra forseti.

Ég sé að tími minn er að verða búinn en ég tel að hér sé um margt vitlaust gefið, ef svo má segja, og við erum að láta þessa niðursveiflu og samdrátt koma niður á þeim hópum sem síst skyldi, frú forseti, og það finnst okkur í Samfylkingunni hvað verst (Forseti hringir.) þegar kemur að bæði fjármálaáætluninni og þeim breytingum sem við eigum að samþykkja hér seinna í dag.