149. löggjafarþing — 128. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[12:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef sjaldan heyrt annað eins bull frá nokkrum þingmanni þegar hann kemur í andsvar í þessa pontu. Hér talar hv. þingmaður um að ég hafi brugðist einhverju trausti gagnvart breytingartillögum ríkisstjórnarinnar sem voru lagðar fram á fundi fjárlaganefndar og formaður fjárlaganefndar hefur sagt að það væri enginn trúnaður um — að ég megi ekki tala um þær? Eigum við að taka hljóðið af þessum sal líka meðan við ræðum þetta? Vill hv. þingmaður það líka? Eigum við ekki að ræða það þegar ríkisstjórn hv. þingmanns kemur með tillögu um að lækka ríkisútgjöld milli umræðna um 43 milljarða? Eigum við ekki að ræða það? Var ég að ganga á rétt ríkisstjórnar? Áttu þetta að vera einhverjar leynitillögur sem við áttum ekki að ræða? Sá grunur læðist að manni í ljósi þess að við áttum að fá tvo fundi til að afgreiða þessar tillögur.

Sem betur fer talaði ég um þessar tillögur. Auðvitað ræðum við breytingartillögur ríkisstjórnarinnar sem eru eins og þær voru bornar á borð fyrir okkur. Þetta er pólitík ríkisstjórnarinnar. Er trúnaður um hinar vondu tillögur ríkisstjórnarinnar? Í hvers konar heimi vill hv. þingmaður búa? Það er fullkomlega eðlilegt að við lítum krítískum augum á breytingartillögur ríkisstjórnarinnar.

Varðandi niðurskurðinn (ÓBK: Niðurskurðinn?) — niðurskurðinn milli umræðna. Þið hafið tölurnar ekki óbreyttar. (Gripið fram í.) Já, þetta er niðurskurður. Ég veit ekki hversu oft ég á að segja það. Þið hafið tölurnar ekki óbreyttar, þið eruð ekki að auka þær, þið eruð að lækka þær, þið eruð að draga saman, þið eruð skera þær niður milli umræðna. (ÓBK: Niðurskurður?) Milli umræðna. (ÓBK: Niðurskurður?) Niðurskurður milli umræðna. (Forseti hringir.) Niðurskurður milli umræðna.

(Forseti (BHar): Þingmaður hefur orðið.)

Þetta gerist ekki skýrara og höggið er hvað mest hjá öryrkjum, sjúkrahúsinu og skólum. (ÓBK: Höggið?) Niðurskurðurinn milli umræðna, já.