150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

pakkaferðir og samtengd ferðatilhögun og ríkisábyrgðir .

944. mál
[11:52]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Ég er sá eini í nefndinni sem er ekki með á málinu vegna þess að eins og það var lagt fram núna gat ég ekki alveg verið á því. Svo nefndi hv. þingmaður að hér á eftir komi fram breytingartillögur. Við förum kannski yfir hvaða breytingar það eru. Ég gæti verið á málinu eins og það yrði eftir breytingartillögurnar en það er orðið of seint fyrst þetta er komið í 1. umr. Og það var ekki lagt fram þannig. Mér sýnist því að þetta sé bara að verða nokkuð gott.

Upprunalega er vandamálið það að fyrirtæki, sem eru búin að kaupa ferðirnar o.s.frv. og selja síðan öðrum þessar pakkaferðir, verða að endurgreiða. Lausnin sem átti að fara í var að láta neytendur skipta á kröfu sinni, sem er eignarréttarvarin, og inneignarnótum. Við stoppuðum það í atvinnuveganefnd með því að fara yfir stjórnarskrárvinkilinn á því máli og það var vel gert.

Í frumvarpinu sem nefndin leggur fram eru tvö atriði sem mögulega gætu stangast á við eignarréttinn. Annars vegar það að ef neytendur geta farið beint til Ferðamálastofu og óskað eftir því að fá endurgreitt sé komið á lánasamband milli Ferðaábyrgðasjóðs og ferðaskrifstofanna sem þær myndu kannski ekki sætta sig við. Hins vegar það að kröfurnar sem yrðu til gætu verið framar í forgangsröðinni en þær kröfur sem aðrir ættu kannski á fyrirtækin og þar af leiðandi gætu þeir aðilar ekki sætt sig við þetta.

Með þessum breytingartillögum, ef ég skil þær rétt, hv. framsögumaður málsins, Lilja Rafney Magnúsdóttir, geta neytendur farið á ferðaskrifstofurnar og óskað eftir endurgreiðslu en ferðaskrifstofurnar geta síðan sótt í Ferðaábyrgðarsjóð, sem einfaldar allt, og aðeins fengið þessa peninga með því skilyrði að þær greiði þá út. Það varði hegningarlög að greiða neytandanum ekki strax. Þetta tryggir í rauninni það að fjármagnið fari þessa leið. Ríkið eignast kröfur og verndar eignarréttindi sín. Það er að mestu leyti þannig enda skellur líklega tiltölulega lítið á ríkissjóði. En þetta væri ferlið. Það myndi tryggja eignarréttinn vegna þess (Forseti hringir.) að ferðaskrifstofurnar sjálfar væru ekki þvingaðar í þetta lánafyrirkomulag hjá ríkinu. (Forseti hringir.) Þær myndu sækjast eftir því og hafa heimild til þess til að greiða neytendum.