138. löggjafarþing — 129. fundur,  1. júní 2010.

heilbrigðisþjónusta.

308. mál
[17:18]
Horfa

Frsm. minni hluta heilbrn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir að núgildandi lög hafi ekki hamlað neinni hagræðingu og fer hér yfir að engin skynsemi sé í frumvarpi hæstv. ráðherra, sem ég vek athygli á að er hæstv. ráðherra Vinstri grænna. Nú koma ekki mörg frumvörp frá hæstv. heilbrigðisráðherra, þau eru eiginlega sárafá. Það er sko ekki hægt að kvarta undan því að vinnuálagið sé mikið í hv. heilbrigðisnefnd.

Það sem hv. þingmaður, formaður nefndarinnar, er hér að segja er að ekkert innihald er í þessu frumvarpi, sem þó kom, og ekkert gagn í því. Hv. þingmaður veit eins og er að landlæknir ber ábyrgð á öryggi sjúklinga og á að hafa eftirlit með því og líka því hvernig löggjafinn hagar sér. Engar athugasemdir komu frá landlækni hvað þetta varðaði og var hann þó bæði umsagnaraðili og ef ég man rétt kominn inn í nefndina.

Það liggur þá alveg fyrir að í þessu frumvarpi frá hæstv. ráðherra er að mati meiri hluta nefndarmanna ekkert sem hægt er að nýta og þess vegna er flest það sem þar er fellt á brott. Þá bíðum við spennt, virðulegi forseti, eftir því hvaða aðrar leiðir verða farnar til að ná því markmiði sem verkefni okkar er. Ég bíð spenntur eftir því, virðulegi forseti, að heyra næstu tilraun hjá hæstv. ráðherra eða kannski kemur frumkvæðið frá hv. nefnd. Það er aldrei að vita.