149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[19:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Formið er dálítið að þvælast fyrir nákvæmni hérna en þessi breytingartillaga snýst um að breyta þremur línum, þ.e. heildarafkomu ríkissjóðs og sveitarfélaga og síðan óvissusvigrúmi fyrir skuldir. Það er breytingartillagan. Hitt allt er að þvælast dálítið fyrir en verður að setja einhvern veginn fram í þessu formi. Ég lít svo á að það sé verið að greiða atkvæði um þessar þrjár línur þar sem afkoma ríkissjóðs og sveitarfélaga er aukin um 0,1% af vergri landsframleiðslu með ýmsum aðgerðum, t.d. hækkun á fjármagnstekjuskatti og deilingu á virðisaukaskatti með sveitarfélögum til að styrkja tekjustofna sveitarfélaganna.

Svo er óvissusvigrúm fyrir skuldir aukið af því að ef horfur fara þannig að verg landsframleiðsla lækkar verður þetta svigrúm að vera til að ekki þurfi að greiða niður skuldir á móti þegar hlutfallið þar breytist. Það er samt hægt að lækka t.d. vaxtabyrði með því að taka upp nýjar skuldir með lægri vöxtum, enda koma margar skuldir með háum vöxtum á gjalddaga á næstunni.