149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[19:34]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Þessar breytingar sem ríkisstjórnarflokkarnir neyðast nú til að gera á fjármálastefnu sinni eru alvarlegur áfellisdómur yfir hagstjórn ríkisstjórnarinnar. Stefnan átti að duga í fimm ár en hún lifði í um eitt ár. Hið sjálfstæða fjármálaráð talar um veikleika í hagstjórn og skort á vönduðu verklagi. Samfylkingin tekur svo sannarlega undir þau orð og telur hagstjórn undir stjórn Sjálfstæðisflokksins fullreynda og í raun og veru dýrkeypta fyrir venjuleg heimili og fyrirtæki í landinu. Margt sem við erum að bregðast við hér var fullkomlega fyrirsjáanlegt og var sagt í fyrra. Því til viðbótar höfum við miklar áhyggjur af því að forsendur þessarar stefnu séu bæði óraunsæjar og óvarfærnar og vísum við því ábyrgðinni að öllu leyti á þessu máli til ríkisstjórnarflokkanna þar sem hún á heima.