149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

breyting á þingsályktun nr. 10/148 um fjármálastefnu 2018--2022.

953. mál
[19:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við í Viðreisn höfum lagt fram mjög ábyrgar tillögur, að fullu fjármagnaðar, til að mæta m.a. þeirri niðursveiflu sem við stöndum frammi fyrir. Við viljum koma í veg fyrir að áfallið, niðursveiflan, komi mest og verst niður á heimilum og litlum og meðalstórum fyrirtækjum í landinu. Við höfum lagt fram tillögur um það og vörum eindregið við því að skattar verði hækkaðir á þessu tímabili, viljum frekar að þeir verði lækkaðir, tryggingagjaldið skoðað og fleiri skattar.

Við leggjum líka mikla áherslu á að á næstu misserum verði farið í ríkulegar framkvæmdir í samgöngumálum til þess að reyna að milda áhrif þessarar niðursveiflu. Við höfum líka komið með tillögur um það hvernig við ætlum að fjármagna þetta og m.a. lagt til að óvissusvigrúmið í fjármálastefnunni verði aukið. Þessi tillaga snýst m.a. um það.

Ég segi já.