150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

persónuvernd og vinnsla persónuupplýsinga.

446. mál
[11:00]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Mig langar að setja þetta í samhengi. Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var forsætisráðherra var hann með leið til að bæta skaða sem fólk varð fyrir vegna lána, hann fór fína leið þar sem hann náði alveg 80 milljörðum af bönkunum með því að setja sérstakan bankaskatt, sem ég hrósaði á sínum tíma, en þegar átti síðan að skoða eftir á hversu vel hefði til tekist o.s.frv. þá var lagt fram um það frumvarp sem Persónuvernd lagðist alfarið gegn. Samt sem áður var það þvingað í gegnum þingið.

Persónuvernd og friðhelgi einkalífsins er ekkert sérstaklega hátt skrifuð hérna á Alþingi þegar kemur að því að ná öðrum markmiðum. Við sjáum mistökin sem voru gerð með appið fyrir ferðagjöfina. Þau voru vissulega leiðrétt eftir á, það er gott. Nú er þetta frumvarp hér og Persónuvernd er ekki einu sinni spurð um það hvort þetta sé í lagi. Friðhelgi einkalífs er ekkert sérstaklega hátt skrifuð hérna og það er mikilvægt að landsmenn átti sig á því. Þarna verðum við að standa í lappirnar. Þegar kemur að eignarrétti í stjórnarskránni er tvisvar búið að leggja fram frumvarp á þingi núna (Forseti hringir.) eftir áramót þar sem annað stangaðist klárlega á við hann og hitt mögulega. Það var stoppað. (Forseti hringir.) Við verðum að fara að virða þessi grundvallargildi í stjórnarskránni varðandi borgararéttindi.