150. löggjafarþing — 129. fundur,  29. júní 2020.

virðisaukaskattur.

939. mál
[12:23]
Horfa

Frsm. efh.- og viðskn. (Óli Björn Kárason) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir hönd efnahags- og viðskiptanefndar fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum. Í frumvarpinu er lögð til breyting á ákvæði til bráðabirgða í lögum um virðisaukaskatt sem þingmenn ættu að muna eftir og var hluti af svokölluðum Covid-aðgerðum. Hér er lagt til að heildarsamtökum á sviði íþrótta, héraðs- og sérsamböndum, félögum og félagasamtökum sem sinna æskulýðsmálum og þjóðkirkjunni, þjóðkirkjusöfnuðum og öðrum skráðum trú- og lífsskoðunarfélögum verði bætt við upptalningu þeirra sem samkvæmt ákvæðinu er heimiluð tímabundin endurgreiðsla á virðisaukaskatti, ákvæði sem oft er kallað Allir vinna.

Frumvarpið er lagt fram í kjölfar ábendinga sem komu fram um tilefni til að rýmka gildissvið bráðabirgðaákvæðisins. Sem dæmi má nefna að bent hefur verið á að endurgreiðsla gæti gagnast æskulýðsfélögum sem eiga aðild að Bandalagi íslenskra skáta vegna byggingar, endurbóta og viðhalds mannvirkja í þeirra eigu.

Þá hafa einnig borist ábendingar um að mikil uppsöfnuð þörf sé fyrir viðhald kirkna og safnaðarheimila hér á landi auk þess sem nauðsynlegt sé að tilgreina sérstaklega í lagaákvæðinu heildarsamtök á sviði íþrótta og héraðs- og sérsambönd auk íþróttafélaga. Í ljósi þess mikilvæga samfélagslega starfs sem þessir aðilar inna af hendi hér á landi og til þess að stuðla enn frekar að aukinni atvinnu við þær aðstæður sem nú eru uppi í atvinnulífinu og efnahag landsins er lagt til að heimild til endurgreiðslu virðisaukaskatts samkvæmt ákvæðinu skuli einnig taka til þessara aðila.

Herra forseti. Ég vísa að öðru leyti til þeirrar greinargerðar sem fylgir þessu frumvarpi en legg til að það gangi beint til 2. umr. að lokinni þessari.