150. löggjafarþing — 130. fundur,  29. júní 2020.

ávana- og fíkniefni.

23. mál
[23:39]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir andsvarið. Er rétt að refsa fyrir neyslu fíkniefna? Nei, ég er ekkert á því. En þetta mál er ekki fullunnið.

Reynsla af neyslurými, við vitum að við vorum með frumvarp um neyslurými í fyrra og þar kom svo í ljós að samráð við lögregluna var ekki nægilegt. Það kom fram í máli þeirra að þeir væru ekki alveg vissir hvernig þeir ættu að vinna eftir því þegar það væri komið til framkvæmdar. (Gripið fram í: Þeir eru ekki enn þá vissir.) Hæstv. ráðherra tók frumvarpið til sín aftur, bætti um betur og gerði það þannig úr garði, í samráði við lögregluna, að hægt væri að afgreiða það í sátt við lögregluna. Þannig fórum við að því. Ég get því gert ráð fyrir því að með reynslunni af þessu rými væri hægt að búa enn betur um þetta mál. Þannig væri hægt að skila betra máli inn í þingið.