150. löggjafarþing — 130. fundur,  29. júní 2020.

ávana- og fíkniefni.

23. mál
[23:40]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér skildist að eitt af stóru vafamálunum við neyslurýmin væri það hvernig lögreglan ætti að leyfa sér að refsa ekki neytendum með hliðsjón af þeim lögum sem hér er lagt til að verði breytt, m.a. til þess að meira samræmi sé þarna á milli.

Í fyrsta lagi er það einfaldlega rangt að ekki hafi verið haft samráð eða samtal við lögreglu um þetta. Það eru bara heilmörg öfl innan lögreglunnar sem vilja halda málaflokknum hjá sér sem löggæslufyrirbæri. Heili punkturinn með þessari hugmynd er að við eigum ekki að eiga við vandamál eins og fíkn eða sjúkdóma almennt sem löggæsluvandamál heldur sem heilbrigðisvandamál.

Það þýðir að það er ekki aðalatrið hvað lögreglunni finnst. Það væri eins og að spyrja lögregluna hvernig eigi að fara með krabbamein eða hvernig eigi að díla við heilbrigðismál almennt. Löggan vill halda þessum hluta hjá sér af þeirri einföldu ástæðu að þetta er eitthvað sem hún gerir núna og hún kann ekki endilega að eiga við breytingarnar. Viðhorf lögreglunnar ráða ekki ferðinni hjá okkur þegar kemur að heilbrigðisspurningum annars vegar og siðferðisspurningum hins vegar, nefnilega þeirri sem ég spurði hv. þingmann og ég þakka henni fyrir að svara svo skýrt.

Margir þingmenn segja að þeir séu ekki þeirrar skoðunar að refsa eigi vímuefnaneytendum enda myndi það hljóma fáránlega, er það ekki, ef þingmaður kæmi upp og segði: Mér finnst við ættum að refsa vímuefnaneytendum, ég tel að það sé góð hugmynd. Ég held ekki, virðulegur forseti, að viðkomandi fengi mjög mikið klapp á bakið frá neinum fyrir það enda fráleit hugmynd. Það er nákvæmlega punkturinn. Vandinn við þetta er sá að fólk er hrætt við breytingar á einhverju sem það hefur alist upp við sem sjálfsagðan hlut, sjálfsagði hluturinn hér er refsingar fyrir vímuefnaneyslu.

Ég vil því þakka hv. þingmanni fyrir svarið og tek það trúanlegt. Ég vona að það komi fram frumvarp á næsta þingi sem er hv. þingmanni þóknanlegt. En mér finnst líka mikilvægt að hafa í huga að þegar við segjum að við viljum ekki refsa vímuefnaneytendum fyrir neyslu þá hefur það ákveðnar rökfræðilegar afleiðingar, nefnilega þær að við hljótum að styðja þetta frumvarp. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)